Sauðárkrókur Selma Sól Sigurjónsdóttir FH-ingur og Hugrún Pálsdóttir úr Tindastóli eigast við í leiknum á Króknum sem FH vann 1:0.
Sauðárkrókur Selma Sól Sigurjónsdóttir FH-ingur og Hugrún Pálsdóttir úr Tindastóli eigast við í leiknum á Króknum sem FH vann 1:0. — Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víkingur úr Reykjavík fagnaði í gærkvöld sínum fyrsta sigri í 41 ár í efstu deild kvenna í fótbolta en nýliðarnir og bikarmeistararnir hófu tímabilið á besta mögulega hátt og sigruðu Stjörnuna, 2:1, í Garðabæ

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Víkingur úr Reykjavík fagnaði í gærkvöld sínum fyrsta sigri í 41 ár í efstu deild kvenna í fótbolta en nýliðarnir og bikarmeistararnir hófu tímabilið á besta mögulega hátt og sigruðu Stjörnuna, 2:1, í Garðabæ.

Víkingur vann síðast leik í deildinni árið 1983 en liðið féll úr deildinni ári síðar eftir að hafa tapað öllum sínum leikjum á tímabilinu 1984. Félagið hætti með kvennalið ári síðar en kom síðan til leiks um aldamótin undir merkjum HK/Víkings og það samstarf stóð til loka tímabilsins 2019.

Nú eru Víkingskonur mættar tvíefldar til leiks og miðað við leikinn í Garðabænum í gærkvöld eru þær til alls vísar. Hin 17 ára gamla Sigdís Eva Bárðardóttir, sem skoraði 16 mörk í deild og bikar á síðasta tímabili, skoraði fyrsta mark liðsins í deildinni strax á 7. mínútu með fallegu skoti og sigurmarkið skoraði Hafdís Bára Höskuldsdóttir í byrjun síðari hálfleiks.

Stig til hinna nýliðanna

Hinir nýliðarnir í Fylki kræktu líka í stig þegar Marija Radojicic jafnaði metin gegn Þrótti, 1:1, að viðstöddum 749 áhorfendum í Árbænum þegar fjórar mínútur voru eftir af leiktímanum.

Þróttur endaði í þriðja sæti í fyrra þannig að stigið er gott fyrir Árbæinga sem eru á ný í deildinni eftir tveggja ára fjarveru.

Kristrún Rut Antonsdóttir kom Þrótti yfir í leiknum með glæsilegu skallamarki eftir fyrirgjöf frá Caroline Murray en Þróttarliðið, sem nú leikur undir stjórn Ólafs H. Kristjánssonar, er talsvert breytt frá síðasta tímabili.

Breiðablik byrjar vel

Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði tvö fyrstu mörk Breiðabliks í öruggum sigri á Keflavík, 3:0, á Kópavogsvelli.

Vigdís hélt með því upp á 19 ára afmælið, sem er í dag, og hún hefur nú þegar skorað helmingi fleiri mörk en í deildinni í fyrra. Þá skoraði hún eitt mark í 20 leikjum með Kópavogsliðinu.

Agla María Albertsdóttir innsiglaði sigurinn með glæsilegu skallamarki eftir fyrirgjöf Karitasar Tómasdóttur. Góð úrslit fyrir Blikana sem hafa oft lent í vandræðum með Keflavík en Suðurnesjaliðið gæti átt erfiða baráttu fyrir höndum.

Glæsilegt mark á Króknum

Glæsilegt mark Hildigunnar Ýrar Benediktsdóttur réð úrslitum á Sauðárkróki þar sem FH lagði Tindastól að velli, 1:0.

Hildigunnur skoraði markið snemma í síðari hálfleik með skoti utarlega úr vítateignum upp í markvinkilinn fjær.

Óskabyrjun hjá FH sem kom nokkuð á óvart sem nýliði í deildinni í fyrra. Reiknað er með Tindastóli í fallbaráttu og þetta eru einmitt heimaleikirnir þar sem liðið þyrfti að krækja í stig í þeim slag.

Höf.: Víðir Sigurðsson