Með barnabörnunum Baldur, Gunnlaugur og Iðunn samankomin á Sæbóli.
Með barnabörnunum Baldur, Gunnlaugur og Iðunn samankomin á Sæbóli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnlaugur Ástgeirsson er fæddur 23. apríl 1949 í Reykjavík. „Ég er af sérstökum ástæðum fæddur á þá nýstofnaðri fæðingardeild Landspítalans en þaðan var móðir mín þá tiltölulega nýútskrifuð hjúkrunarkona

Gunnlaugur Ástgeirsson er fæddur 23. apríl 1949 í Reykjavík. „Ég er af sérstökum ástæðum fæddur á þá nýstofnaðri fæðingardeild Landspítalans en þaðan var móðir mín þá tiltölulega nýútskrifuð hjúkrunarkona. Foreldrar mínir bjuggu þá og næstu áratugi í Vestmannaeyjum og þar er ég alinn upp. Við bjuggum rétt fyrir utan bæinn í beinu sambandi við náttúruna í litlu húsi sem pabbi kallaði Bæ, en var ekki sá Bær sem hann var kenndur við heldur var það Litlibær niðri í sandi eins og það hét. Húsið okkar fór ekki undir hraun eins og helmingur húsa í Eyjum heldur undir fótboltavöll og stóð þar sem nú er suðausturhorn Hásteinsvallar. Skýrir það að nokkru fálæti mitt gagnvart knattspyrnu.

Ég stundaði nám við Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum og lauk landsprófi vorið 1965. Þar var ég frá 10 ára aldri í lúðrasveit sem Oddgeir Kristjánsson stjórnaði. Ég fór tiltölulega seint að vinna á vestmanneyskan mælikvarða, eða 10 ára, í frystihúsi við að slíta humar. Þar vann ég á sumrin fram að menntaskólaárunum en þá var ég á sjó. Þau úthöld voru æði misjöfn en ríkastur varð ég eftir sumarið ‘67 með Óskari á Háeyri sem var uppalningur pabba og naut ég góðs af því. Löngu seinna sagði hann á opinberum vettvangi að ég hefði verið ágætur sjómaður en afleitur kokkur – og ég sem hélt að það væri öfugt.

Ég fór í Menntaskólann að Laugarvatni og lauk þaðan stúdentsprófi 1969. Þar kom ég í allt aðra og framandi veröld og kynntist fjölmörgu fólki frá ólíkum stöðum. Það var nánast uppljómun fyrir slöttólfa af ströndinni og úr sveitunum að kynnast vel heimsmanni eins og Jóhanni S. Hannessyni. En þarna voru líka fleiri vel menntaðir og góðir kennarar. Laugarvatn var þá tiltölulega einangrað og þurftu þessir rúmlega 100 nemendur sem þarna voru að búa til allt sitt félagslíf og skemmtun sjálfir. Ég var nokkuð ötull við þá iðju og hefði vel mátt beina meiri atorku að náminu. Til dæmis var rekið kaffihús á mínu herbergi tvö seinni árin þarna. Mesta furða að vinur minn og herbergisfélagi gæti lært sína stærðfræði og endað sem doktor í teóretískri eðlisfræði. Sumarið ‘69 var ég í mjög vel borgaðri byggingarvinnu á Grænlandi.

Eftir stúdentspróf hóf ég nám í íslensku og sagnfræði við Háskóla Íslands og lauk BA-prófi í báðum þeim greinum 1975 og stundaði síðan framhaldsnám í íslenskum bókmenntum til 1978. Lauk prófi í uppeldis- og kennslufræði 1985. Ég var býsna virkur í stúdentapólitíkinni sem þá var mjög fjörug, sat í ýmsum stjórnum og nefndum og var formaður Stúdentaráðs HÍ 1972-1973. Þá unnu vinstri menn fyrst meirihluta eftir langt íhaldstímabíl, sem þeir héldu svo lengi.

Ég varð heimsfrægur á Íslandi vorið 1971 þegar ég var stýrimaður Framboðsflokksins eða O-flokksins sem var grínframboð til Alþingis sem vakti mikla athygli. Þvílíkt og annað eins hafði aldrei þekkst fyrr, að gera með framboði til Alþingis grín að hinum háleitu stjórnmálum og virðulegu stjórnmálamönnum. Þetta var einn angi uppreisnar ‘68-kynslóðarinnar, tilraun til þess að ögra kerfinu og reyna á þolmörk lýðræðisins.

Ég fór að kenna haustið 1975, fyrst sem stundakennari við Fósturskóla Íslands og Kennaraháskólann, en var ráðinn til MH 1977 og starfaði þar nærri óslitið til 2019 eða í 42 ár. Þar kenndi ég íslensku, sagnfræði, tjáningu, leiklist o.fl. Í svona stórum skóla er svigrúm til kennslu fjölbreytilegra valáfanga og var ég lengi duglegur við slíka iðju og gekk sumt af því mjög vel svo sem áfangi um eldvirkni og mannlíf með vini mínum Georg Douglas og áfangi um galdra og galdrabókmenntir. Fróðlegt var einnig að kenna frá upphafi móðurmál við Alþjóðlegu brautina í MH þar sem kennt er eftir alþjóðlegri námskrá og komast að því að við stöndum mjög vel í samanburði við aðra í móðurmálskennslu. Það var líka skemmtilegt verkefni að vera í nokkur ár fylgdarsveinn Þorgerðar Ingólfsdóttur á ferðum með MH-kórunum um heiminn.

Ég fór snemma að skipta mér af félagsmálum kennara. Var kosinn í stjórn HÍK (Hins íslenska kennarafélags) 1980 og var viðloðandi kjarabaráttu kennara næstu rúmlega 30 ár eða svo. Ég gegndi þar ýmsum hlutverkum, sat í stjórn, var varaformaður, ritstjóri, sat í samninganefndum o.fl. Mest tók á þegar ég var formaður verkfallsstjórna í stóru kennaraverkföllunum 1995 og 2000-2001. Einnig sat ég í stjórn BHM og var þar varaformaður í tvö ár. Vonandi hefur þetta strögl okkar skilað einhverjum árangri því mér sýnist að kennarar séu nú ekki eins brjálaðir yfir kjörum sínum og við vorum. En kannski fylgist ég bara illa með.

Meðfram kennslu var ég um tíma bókmennta- og leikhúsgagnrýnandi t.d. við Helgarpóstinn lengst af meðan hann kom út (1979-1987) og Ríkisútvarpið (1988-1992) svo og Tímarit Máls og menningar. Einu sinni þýddi ég einn reyfara úr sænsku og samdi nokkuð af námsefni sem gefið var út. Sat í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1989 og 1990 og í stjórn Launasjóðs rithöfunda 1995-1998. Eitt ár vann ég í Finnlandi við að halda fyrirlestra um Ísland og íslenska menningu hjá norrænni stofnun sem ekki er lengur til. Lengi tók ég þátt í norrænu samstarfi, fyrst á vegum stúdenta og seinna á vegum kennarasamtaka og BHM.

Ég hef verið nokkuð virkur í stjórnmálum sérstaklega hér á Seltjarnarnesi þar sem ég hef átt heima í rúm 50 ár, þó hvorki sé Tesla í innkeyrslunni né ehf. í húsinu. Hér er verkefnið að reyna að stríða íhaldinu okkar eftir mætti en það hefur átt hér völdin um hálfa eilífð þó senn sjái vonandi fyrir endann á því. Ég var fyrsti varabæjarfulltrúi fyrir Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur eitt kjörtímabil, sat í skólanefnd í ein 20 ár og fleiri nefndum m.a. áfengisvarnarnefnd (var ekki endurkjörinn) sem var afar fróðlegt.

Mitt helsta áhugamál er að lesa bókmenntir og fræðirit, hlusta á góða tónlist og fara í leikhús, en einnig að fylgjast með mannlífinu og þjóðmálum. Ég skemmti mér við að vera úti í náttúrunni og hlusta á fuglana en ekki síður við að hitta góða vini og ræða málin.“

Fjölskylda

Eiginkona Gunnlaugs er Ósk Magnúsdóttir, f. 31.1. 1949, fv. sendiráðsstarfsmaður, móttökustjóri, bókavörður og kennari. Þau hafa búið á Sæbóli á Seltjarnarnesi þar sem Ósk er fædd og átti heima, þar til hún veiktist mjög alvarlega og varð vistmaður á hjúkrunarheimilinu Seltjörn. Foreldrar hennar voru hjónin Magnús Guðmundsson, f. 1907, d. 2001, vélstjóri, og Björg Sigurjónsdóttir, f. 1916, d. 1999, húsmóðir.

Börn Gunnlaugs og Óskar eru 1) Kári, f. 27.9. 1975, kvikmyndagerðarmaður, rithöfundur og leiðsögumaður. Maki: Árný Björg Bergsdóttir, f. 24.7. 1974, framkvæmdastjóri. Sonur þeirra er Baldur, f. 1.8. 2014, og 2) Freyja, f. 10.1. 1979, klarínettuleikari og skólameistari Menntaskóla í tónlist. Maki: Egill Arnarson, f. 14.12. 1973, ritstjóri. Dóttir þeirra er Iðunn, f. 19.7. 2018.

Systkini Gunnlaugs: Kristín, f. 3.5. 1951, fv. alþingiskona og sagnfræðingur í Reykjavík; Eyjólfur, f. 16.5.1957, d. 20.5. 1984, og Ólafur, f. 19.9. 1960, byggingatæknifræðingur í Reykjavík.

Foreldrar Gunnlaugs voru hjónin Friðmey Eyjólfsdóttir, f. 14.11. 1923, d. 20.10. 2016, hjúkrunarfræðingur, og Ástgeir Ólafsson (Ási í Bæ), f. 27.2. 1914, d. 1.5. 1985, sjómaður, bæjarritari, rithöfundur og skáld. Þau bjuggu í Vestmannaeyjum til 1968 og eftir það í Reykjavík.