Pétur Guðfinnsson, fv. útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri Sjónvarpsins, lést á dvalarheimilinu Grund í gærmorgun, á 95. aldursári. Pétur fæddist á Eskifirði 14. ágúst 1929 en flutti árið eftir með foreldrum sínum til Reykjavíkur

Pétur Guðfinnsson, fv. útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri Sjónvarpsins, lést á dvalarheimilinu Grund í gærmorgun, á 95. aldursári.

Pétur fæddist á Eskifirði 14. ágúst 1929 en flutti árið eftir með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Foreldrar hans voru Marta Pétursdóttir húsmóðir og Guðfinnur Þorbjörnsson, vélstjóri og framkvæmdastjóri.

Pétur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949. Hann tók próf í frönsku og menningarsögu frá Sorbonne-háskóla í París 1950, diplómu í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Grenoble í Frakklandi 1952 og stundaði nám í hagfræði, rekstrarfræði og bókhaldi og sögu við Kaupmannahafnarháskóla 1953 til 1954.

Pétur var starfsmaður Evrópuráðsins í Strassborg frá 1955 til 1964 er hann var skipaður framkvæmdastjóri Sjónvarpsins 1. desember 1964, fyrsti starfsmaður þess. Pétur var jafnframt staðgengill útvarpsstjóra í fjarveru hans þar til hann tók við stöðu útvarpsstjóra árið 1996. Hann lét af störfum hjá Útvarpinu í ársbyrjun 1997 fyrir aldurs sakir. Pétur hlaut riddarakross fyrir forystustörf á vettvangi íslenskra fjölmiðla á nýársdag 2021.

Pétur átti mestan þátt í að Ríkisútvarpið Sjónvarp hóf útsendingar 30. september 1966. Hann sá um að skipulegga allt starf Sjónvarpsins frá öndverðu; ráða starfsmenn, mennta þá og senda á námskeið, bæði hérlendis og erlendis.

Pétur tók virkan þátt í evrópsku og norrænu samstarfi á sviði sjónvarpsmála. Hann var formaður Nordvision, samtaka norrænna sjónvarpsstöðva, 1988 til 1991. Hann sat í stjórn norræna sjónvarpssjóðsins frá stofnun hans 1987 og varaformaður stjórnar frá 1991 til starfsloka. Pétur átti um skeið sæti í alþjóðlegri dómnefnd Jean d'Arcy-sjónvarpsverðlaunanna. Þá var hann formaður ritnefndar Engeyjarættar en sú bók kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum árið 2011.

Eiginkona Péturs var Stella Sigurleifsdóttir, fulltrúi á skrifstofu bæjarstjóra Kópavogs, f. 1928, d. 2003. Börn þeirra eru: Ólöf Kristín, f. 1954, Áslaug, f. 1957, d. 2002, Pétur Leifur, f. 1961, d. 2008, og Elín Marta, f. 1963.

Pétur átti sjö barnabörn og sex barnabarnabörn.