Sigríður Árnadóttir fæddist í Rauðuskriðu í Aðaldal 3. september 1931. Hún lést 22. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Guðný Kristjánsdóttir og Árni Friðfinnsson. Guðný og Árni eignuðust sex börn og var Sigríður þriðja í röðinni. Eldri systur hennar voru Þóra Karítas og Hólmfríður, en yngri systkini Guðfinna, Theódór og Hjördís.

Hinn 21. desember 1961 giftist Sigríður Kristni Hilmari Jóhannssyni, f. 1929 á Hvammi í Þistilfirði, d. 2019. Foreldrar hans voru Kristín Sigfúsdóttir og Jóhann Ólafur Jónsson.

Börn Sigríðar og Kristins eru: 1) Berglind, f. 1961, í sambúð með Hálfdáni Daðasyni. Börn Berglindar og Gylfa Hammer Gylfasonar eru Kristín Jóhanna, f. 1993, í sambúð með Gylfa Þór Magnússyni, dóttir þeirra er Mía Lind, f. 2021. Gylfi Bergmar, í sambúð með Kristínu Birnu Júlíudóttur. 2) Árni, f. 1963, eiginkona hans er Margrét Sæmundsdóttir, sonur þeirra er Sigurður Jóhann, f. 1998. Sonur Margrétar er Kristján Tjörvi Kristjánsson, f. 1991, sambýliskona hans er Leonie Mitton. Fóstursonur Árna er Guðmundur Snorri Sigurðsson, f. 1978, eiginkona hans er Guðleif Ósk Árnadóttir, börn þeirra eru Þuríður Ásta, f. 2003 og Árni Reynir, f. 2013. 3) Jóhann Kristinn, f. 1967, d. 1978. 4) Guðni Hólmar, f. 1969, eiginkona hans er Helga Ósk Friðriksdóttir, börn þeirra eru Guðný Ósk, f. 1997 og Bjarki Þór, f. 2000, sambýliskona hans er Dagbjört Lára Bjarkadóttir.

Skólaganga Sigríðar var eins og þá tíðkaðist til sveita meðal barna og unglinga, en seinna fór hún til náms við Húsmæðraskólann á Laugum. Eftir það lá leið Sigríðar til Reykjavíkur, þar sem hún vann við heimilisaðstoð og á saumastofu. Síðar vann hún hjá Stefáni Finnbogasyni tannlækni.

Sigríður flutti til Þórshafnar 1960 og var framan af heimavinnandi húsmóðir. Seinna fór hún að vinna utan heimilis, m.a. við fiskvinnslu og við leikskólann og um árabil sá hún um kaffistofuna í Hraðfrystistöð Þórshafnar.

Útför Sigríðar fór fram frá Sauðárkrókskirkju 3. apríl 2024, í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Mamma ólst upp í Rauðuskriðu hjá foreldrum sínum, Guðnýju og Árna, og systkinum. Þar bjuggu einnig hjónin Hulda og Sigurður ásamt börnum sínum. Hulda og Guðný voru systur og Árni og Sigurður bræður. Börnin voru samtals 11 og þar bjó einnig föðurafi mömmu, Friðfinnur, ásamt Guðrúnu, konu sinni. Mikill samgangur var á milli þessara fjölskyldna sem bjuggu saman í húsi sem við í dag köllum Gömlu. Þar var því oft líf og fjör og samheldni mikil.

Mamma varð fyrir því óláni þegar hún var þriggja ára er hún var að skera í sundur spotta með hnífi að hún fékk hnífinn í annað augað og varð blind á því auga upp frá því. Þá fékk hún lömunarveiki sem barn og annar fótur hennar bæklaðist og gekk hún hölt eftir það. Aldrei kvartaði hún yfir þessu hlutskipti sínu.

Mamma og pabbi kynntust í Ásbyrgi og þau giftu sig um jólin 1961 á Þórshöfn. Það var gott að alast upp hjá þeim á Þórshöfn. Alltaf öryggi og skjól og mikill kærleikur. Mamma var heimavinnandi framan af og mikil húsmóðir.

Barnabörnunum fannst frábært að fá að fljúga á Þórshöfn á sumrin og dvelja um tíma hjá ömmu og afa. Afi kom á Rauð á flugvöllinn að sækja þau og síðan tók við endalaust dekur og notaleg samvera og alltaf var spilastokkurinn tekinn fram.

Mamma og pabbi bjuggu á Þórshöfn lengst af sínum búskap en fluttu síðar á Sauðárkrók, í íbúð í húsi sonar og tengdadóttur. Fyrstu árin voru þau með vetursetu þar en dvöldu á Þórshöfn yfir sumarmánuðina. Pabbi lést 10. desember 2019 en mamma bjó áfram á sínu heimili allt þar til heilsan fór að gefa sig síðastliðið haust. Mamma bjó sér notalegt heimili hvar sem hún var og þangað var alltaf gott að koma. Þar ríkti friður og ró. Hennar uppáhaldsstaður var þó Rauðaskriða. Þangað var farið í frí á hverju ári og eftirvænting mömmu var alla tíð mikil að komast þangað. Seinni árin var þetta ein hennar helsta tilhlökkun. Hún ljómaði þegar þangað var komið. Alltaf voru bakaðar pönnukökur og kaffið drukkið sunnan undir húsi ef veðrið var gott og að hennar mati var veðrið alltaf gott á þessum stað. Í Rauðuskriðu var rjómalogn sem líktist fáu eins og hún orðaði það í texta sem hún gerði.

Mamma var stórmerkileg kona og við sem henni stóðum næst eigum eftir að minnast hennar oft meðan við lifum. Hún hafði mikil áhrif á okkur öll. Engin læti eða hamagangur en verkin látin tala. Duglegri manneskja var vandfundin og henni féll sjaldan verk úr hendi. Hún var nýtin og vildi enga sóun. Stundum þótti niðjunum nóg um en í dag er þetta viðhorf lofað. Hún var mikil hannyrðakona og skilur eftir sig mikið af fallegum verkum sem við njótum áfram. Seinni árin voru margir sem kíktu í skúffuna hjá henni og völdu sér vettlinga, sokka eða húfu.

Alltaf stóð mamma með okkur og studdi og var tilbúin að rétta hjálparhönd. Umhyggja hennar var endalaus og hún greiddi okkar götu eftir sinni bestu getu. Aldrei var kvartað og hana vantaði aldri neitt. Þegar hún átti afmæli vildi hún aldrei neitt tilstand fyrir sig en vildi helst vera í Rauðuskriðu og fara í berjamó meðan hún hafði heilsu til þess. Hún bar alla tíð harm í brjósti eftir að hún missti Jóhann Kristin, son sinn, 11 ára gamlan.

Við kveðjum mömmu með miklu þakklæti og ást. Hún var alla tíð mikill klettur í okkar lífi og hennar verður sárt saknað.

Berglind, Árni

og Guðni.

Fallin er frá fyrrverandi tengdamóðir mín, Sigríður Árnadóttir eða Sigga eins og hún var alltaf kölluð. Sigga var sannkölluð sómakona. Þegar ég minnist hennar koma ákveðin gildi upp í hugann. Gildin eru hógværð og styrkur. Sigga var hógvær og sterk. Hún setti sjálfa sig ekki í fyrsta sæti, heldur fjölskylduna. Sigga dró hvergi af sér við að hugsa vel um maka, börn, barnabörn og langömmubarn. Vel var hugsað um slektið allt og fylgifiska. Þakka ég henni allan stuðning og hlýju sem hún sýndi okkur öllum, ekki síst Kristínu Jóhönnu og Gylfa Bergmar, börnum okkar Berglindar, alla tíð.

Margra góðra stunda má minnast með Siggu og Kidda á Þórshöfn þar sem þau hjónin áttu sitt heimili til fjölda ára. Alltaf var jafn gott að koma til þeirra hvort sem það var að sumri til eða um jól. Afslappað og þægilegt andrúmsloft ríkti á heimilinu og ys og þys samfélagsins var þar víðs fjarri.

Þar á norðurhjara vakti fallegur og snyrtilegur garður þeirra verðskuldaða athygli. Sigga var mjög natin við að hlúa að gróðrinum. Hún fylgdist með honum vaxa upp, dafna og blómstra, alveg eins og hún hlúði að og fylgdist með afkomendum sínum.

Hún naut þess að fara út í móa og upp um hlíðar í fjallagrasa- og berjamó. Minnist ég þess líka þegar hún málaði löng járnhandrið við tröppur og svalir á húsi þeirra á Þórshöfn eins og herforingi. Það var ekki lítið verk.

Á ungdómsárum sínum vann Sigga á saumastofu við Vesturgötu í Reykjavík. Á þessum tíma lagði hún upp í ferðalag til Majorka, en slíkt var fátítt á þeim tíma. Ræddi hún oft um hve blómin og gróðurinn var fallegur og litríkur þar og veður gott. Síðar fórum við fjölskyldan saman með Siggu og Kidda til Gran Canaria í hlýjuna og gróðurinn. Sigga dáðist að gróðrinum og Kiddi elskaði að sitja í sólinni. Þetta var skemmtilegur tími.

Við áttum margar góðar samverustundir í gamla bænum í Rauðu-Skriðu í Aðaldal þar sem Sigga ólst upp. Þar var Sigga í essinu sínu. Hún elskaði sveitina sína, náttúruna og allt það sem landið gaf af sér. Á milli þess að bera fram kræsingar eða grípa í spil fór Sigga út í náttúruna og gekk um flautandi og sönglandi af gleði. Skriða var sumarlandið hennar.

Siggu féll ekki verk úr hendi. Ef stund var laus þá prjónaði hún m.a. peysur, kjóla, húfur og sokka. Hún gerði falleg hvít rúmföt handa sínum nánustu með hekluðum bekk með upphafsstöfum hvers og eins. Jólin koma ekki fyrr en búið er að skipta um á Þorláksmessu og rúmfötin hennar Siggu eru komin á.

Á leiðum okkar norður í land höfum við Siv kíkt inn í kaffispjall til Siggu á Sauðárkróki, en þar bjuggu þau Kiddi sín efri ár. Þá var aldrei komið að tómum kofanum, alltaf galdraði Sigga fram kræsingar fyrir okkur. Við munum sakna þeirra góðu kaffi- og spjallstunda með henni.

Nú þegar komið er að leiðarlokum minnist ég Siggu með virðingu og hlýju. Þakka ég henni allar góðu og skemmtilegu samverustundirnar sem við áttum.

Ég votta Berglindi, Árna, Guðna og öðrum ástvinum Siggu mína innilegustu samúð vegna fráfalls hennar.

Gylfi Hammer Gylfason.

Sigríður Árnadóttir var ótrúleg kona. Hún var mesti nagli sem við höfum nokkurn tímann kynnst og við erum svo heppin að hún var amma okkar.

Nánast öll sumur fengum við barnabörnin að fara norður til ömmu og afa á Þórshöfn. Margar af okkar bestu æskuminningum eru þaðan.

Það var alltaf einstaklega ljúft að koma til ömmu og afa. Amma var yfirleitt búin að baka nokkrar sortir, prjóna á okkur og var tilbúin með spilastokkinn.

Ferðinni var yfirleitt heitið í Rauðuskriðu á sumrin á æskuheimili ömmu. Þar undi hún sér einstaklega vel og fannst hvergi betra í veröld að vera.

Sigga amma hefur reynst okkur einstaklega vel í gegnum ævina. Hún hefur kennt okkur svo margt sem mun ávallt fylgja okkur í gegnum í lífið. Við kveðjum ömmu með miklum söknuði og þakklæti.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei það er minning þín.

(Guðmundur G. Halldórsson)

Þín barnabörn,

Kristján Tjörvi Kristjánsson, Kristín Jóhanna Gylfadóttir, Gylfi Bergmar Gylfason, Guðný Ósk Guðnadóttir, Sigurður Jóhann Árnason, Bjarki Þór Guðnason.

Minningarnar um liðna tíð streyma fram við fráfall Siggu, eða Siggu Kidda eins og hún var ávallt kölluð. Hún kom inn í fjölskylduna þegar hún giftist Kidda bróður fóstru minnar. Æskuminningarnar, þegar Sigga og Kiddi komu inn í Sætún með stækkandi barnahópinn sinn, alltaf velkomin. Þar tóku þau til hendinni oftar en ekki við verkefnin sem voru ærin á stóru kúabúi. Kiddi í heyskapnum með Þórólfi, mokandi heyinu í heyblásarann, meðan Sigga sýslaði í eldhúsinu með Nöfnu fóstru minni. Það var mikill samgangur milli okkar á þessum árum og ekki gleymast kaupstaðarferðirnar okkar Nöfnu sem enduðu oftast í ilmandi kaffi hjá Siggu eftir innkaupin í kaupfélaginu.

Siggu var margt til lista lagt, hún töfraði fram gómsætan mat og kökurnar hennar voru í hávegum hafðar enda ekki annað hægt þar sem þær kitluðu ekki einungis bragðlaukana heldur glöddu einnig augað. Já, svo ekki sé minnst á allt það handverk sem kom úr smiðju Siggu, prjónað, heklað og saumað, allt var það rómað og lék í höndum hennar.

Umhyggja Siggu og vinátta var einstök sem birtist ekki síst þegar mest á reyndi og eitthvað bjátaði á. Mér er ofarlega í huga, við heimkomu mína með nýfædda dótturina, sem lá mjög á að komast í heiminn, allt það sem Sigga hafði keypt og undirbúið fyrir komu okkar heim. Ég er óendanlega þakklát og minnist þessa oft. Og einnig, þegar miðsonur dóttur minnar fæddist andvana, orti Sigga hugljúft saknaðarljóð til þeirra og færði þeim ásamt fögru handverki sínu. Svona var Sigga.

Þau Sigga og Kiddi misstu einnig son, Jóhann, ellefu ára gamlan, og varð hann okkur öllum mikill harmdauði. Hann dvaldist langdvölum á Sætúni og var mér sem bróðir. Hann lést aðeins nokkrum vikum eftir að Nafna fósturmóðir mín féll frá en þau voru mjög náin.

Eftir að Sigga og Kiddi fluttu á Sauðárkrók tóku þau sér margar ferðir á hendur að vitja æskuslóðanna í Þingeyjarsýslum og dvöldu oft í Rauðuskriðu. Þau héldu tryggð við heimahagana og eftir að Kiddi dó var Sigga áfram dugleg þar með börnum sínum og minnumst við fjölskyldan og þökkum þeirra góðu gestrisni þar.

Með innilegu þakklæti í huga kveð ég Siggu Kidda, alla vináttu hennar og góðverk. Hún minnti okkur ávallt á komu frelsarans og ljóssins með fyrsta jólakortinu sem barst inn um dyrnar í byrjun desember ár hvert. Þá vissum við að aðventan væri í garð gengin. Minning þeirra mætu hjóna, Siggu og Kidda, mun lifa í hjörtum okkar sem eftir lifum um ókomna tíð. Við fjölskyldan sendum innilegar samúðarkveðjur til Berglindar, Árna og Guðna og fjölskyldna þeirra.

Sigrún Davíðs (Sirra).