Sending Hafnfirðingurinn Elín Klara Þorkelsdóttir og Framarinn Steinunn Björnsdóttir eigast við í Úlfarsárdal en Elín Klara fór mikinn í leiknum.
Sending Hafnfirðingurinn Elín Klara Þorkelsdóttir og Framarinn Steinunn Björnsdóttir eigast við í Úlfarsárdal en Elín Klara fór mikinn í leiknum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elín Klara Þorkelsdóttir fór mikinn fyrir Hauka þegar liðið vann dramatískan sigur gegn Fram í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik í Úlfarsárdalnum í gær. Leiknum lauk með fjögurra marka sigri Hauka eftir…

Handboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Elín Klara Þorkelsdóttir fór mikinn fyrir Hauka þegar liðið vann dramatískan sigur gegn Fram í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik í Úlfarsárdalnum í gær. Leiknum lauk með fjögurra marka sigri Hauka eftir framlengingu, 27:23, en Elín Klara skoraði átta mörk í leiknum, þar af fimm úr vítaköstum.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Fram náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, 7:3. Haukum tókst að minnka muninn í eitt mark en Framarar voru sterkari á lokamínútum fyrri hálfleiks og leiddu 13:11 í hálfleik.

Mikið jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik og Framarar leiddu með þremur mörkum þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, 23:20. Haukar skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins en Elín Klara jafnaði metin fyrir Hauka með marki úr vítakasti eftir að leiktíminn rann út. Hafnfirðingar voru svo mun sterkari í framlengingunni þar sem Frömurum tókst ekki að skora og Haukar tóku því forystuna í einvíginu, 1:0.

Inga Dís Jóhannsdóttir og Birta Lind Jóhannsdóttir skoruðu fimm mörk hvor fyrir Hauka en Harpa María Friðgeirsdóttir var markahæst Framara með sex mörk. Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði fimm.

Annar leikur liðanna fer fram á Ásvöllum föstudaginn 26. apríl, en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu.

Náðu tíu marka forskoti

Þá unnu Íslandsmeistarar Vals afar sannfærandi sigur gegn ÍBV í fyrsta leik liðanna í hinu undanúrslitaeinvíginu á Hlíðarenda. Leiknum lauk með sex marka sigri Vals, 28:22, en Sigríður Hauksdóttir fór mikinn fyrir meistarana í leiknum og skoraði sjö mörk.

Valskonur fóru vel af stað og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins. Valskonur náðu mest níu marka forskoti í fyrri hálfleik, 12:3, en ÍBV tókst að laga stöðuna á lokamínútunum og Valur leiddi 18:11 í hálfleik.

Valskonur byrjuðu síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri og þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka var munurinn á liðunum tíu mörk, 26:16. Eyjakonur náðu að laga stöðuna en Valur fagnaði öruggum sigri í leikslok.

Thea Imani Sturludóttir skoraði fimm mörk fyrir Val og Þórey Anna skoraði fjögur. Þá varði Hafdís Renötudóttir 12 skot í markinu. Sunna Jóhannsdóttir var markahæst hjá ÍBV með sex mörk og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fimm.

Annar leikur liðanna fer fram í Vestmannaeyjum á föstudaginn kemur, 26. apríl.