Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Það eru skýrar vísbendingar um að eftirspurn eftir ferðum til Íslands sé heldur dræmari en ferðaþjónustan hafði vonast til. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við ViðskiptaMoggann

Það eru skýrar vísbendingar um að eftirspurn eftir ferðum til Íslands sé heldur dræmari en ferðaþjónustan hafði vonast til.

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Við höfum fylgst vel með þessu og allt frá því að eldgosin hófust í Grindavík hafa verið ýmsar óvissublikur á lofti. Verðbólgan hefur verið þrálátari hér en annars staðar og á samkeppnismörkuðum okkar hefur verið meira púður lagt í markaðssetningu,“ segir Jóhannes Þór.

Hann útskýrir að markaðssetning ferðaþjónustunnar skiptist í tvennt, annars vegar markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað og hins vegar fyrirtækjamarkaðssetningu. Mikilvægt sé að þessar tvær gerðir markaðssetningar vinni saman.

„Við höfum séð að samkeppnislönd okkar eins og Noregur og Finnland eru bæði mun ódýrari en við og hafa þar að auki markaðssett sig betur sem áfangastað. Við höfum séð að leit að Íslandi á leitarvélum hefur snarminnkað en hefur aukist að Noregi,“ segir hann.

Jóhannes bætir við að auk þess séu vísbendingar um að verðmætin sem við fáum af hverjum ferðamanni fari minnkandi.

„Við höfum séð að gistinóttum á hvern ferðamann er að fækka ef miðað er við tölur frá síðasta ári. Við erum ekki með nýrri tölur en miðað við tilfinninguna þá teljum við að það muni halda áfram.“

Bláa lónið hefur áhrif

Spurður hvaða áhrif hann telji að umræðan um eldsumbrotin muni hafa á eftirspurn eftir ferðum til Íslands til lengri tíma segir Jóhannes að erfitt sé að segja til um það.

„Það er samt í því samhengi vert að minnast á hlut Bláa lónsins. Fólk á samfélagsmiðlum er mikið að spá í því hvort það verði opið því margir heimsækja Ísland til þess að fara í Bláa lónið. Margir gera ráð fyrir að fara þangað og það verður áfall fyrir ferðina þeirra ef það er ekki opið. Bláa lónið er mikilvægt vörumerki svo það skiptir miklu máli í því ljósi.“