Skáld Hótel Akureyri, Curio Collection by Hilton, mun rísa í miðbænum á Akureyri. Stefnt er að opnun sumarið 2025 en herbergi verða 70 talsins.
Skáld Hótel Akureyri, Curio Collection by Hilton, mun rísa í miðbænum á Akureyri. Stefnt er að opnun sumarið 2025 en herbergi verða 70 talsins.
Þrátt fyrir að okkur hafi tekist að leysa margar af lífsins gátum, þá höfum við ekki enn getað svarað spurningunni um það hvort hafi komið á undan, eggið eða hænan. Þetta er myndlíking sem við grípum oft til þegar við veltum fyrir okkur hvernig…

Þrátt fyrir að okkur hafi tekist að leysa margar af lífsins gátum, þá höfum við ekki enn getað svarað spurningunni um það hvort hafi komið á undan, eggið eða hænan. Þetta er myndlíking sem við grípum oft til þegar við veltum fyrir okkur hvernig hlutir þróast og af hverju, hvort og þá hvað hafi áhrif og því hvernig við metum orsakir og afleiðingar af einstaka hlutum.

Þetta á að sumu leyti við um ferðaþjónustuna hér á landi. Fyrir 20 árum hefði það þótt óðs manns æði að byggja nýtt hótel, enda voru ekki ferðamenn til staðar allan ársing hring til að fylla þau. Stóru hótelin lokuðu heilu álmunum yfir stóran hluta vetrarins, þau minni voru sum alveg lokuð og það var allur gangur á því hvort hótel á landsbyggðinni voru opin eða ekki. Svo kom ferðamannasprengja og við nægt gistirými. Mögulega tafði það frekari uppbyggingu ferðaþjónustunnar en mögulega hafði það einnig þau áhrif að hún óx heldur ekki upp úr öllu valdi. Það er sjálfsagt einhver lína þarna á milli.

Það má þó fagna þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað. Að öllu óbreyttu verður Ísland eftirsóttur áfangastaður til lengri tíma, jafnvel þó svo að fjöldi ferðamanna kunni að sveiflast eitthvað eftir árum. Án þess að fyrir því liggi vísindaleg könnun má ætla að hóflegur fjöldi ferðamanna á ári sé á bilinu 2-2,5 milljónir. Velgengni ferðaþjónustunnar byggist þó ekki eingöngu á fjölda ferðamanna, heldur skiptir máli hvenær þeir koma á árinu, hvert þeir fara um landið og hversu miklu fjármagni þeir verja meðan á dvöl þeirra stendur.

Það var til dæmis ánægjulegt þegar tilkynnt var í síðustu viku að til stæði að reisa nýtt 70 herbergja hótel á Akureyri undir merkjum Curio Collection, sem er eitt af undirvörumerkjum Hilton-keðjunnar. Einnig stendur til að reisa Curio hótel í Reykjavík. Hilton-hótelkeðjan hefur náð góðum árangri með vörumerki á borð við Curio, Canopy, Conrad og fleiri undirmerki. Í dag eru tvö hótel rekin í Reykjavík undir merkjum Curio og eitt undir merkjum Canopy. Það að þessum hótelum fjölgi hér á landi er ánægjulegt og enn betra að slík uppbygging eigi sér stað utan suðvesturhornsins. Við höfum séð mikla uppbyggingu eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu á liðnum áratug eða svo, flott og góð hótel sem laða að sér betur borgandi ferðamenn og auka trúverðugleika áfangastaðarins Íslands. Það sem okkur vantar er frekari uppbygging á landsbyggðinni. Það skal þó virða þeim það til tekna sem hafa á liðnum árum byggt upp öflug hótel víða um land – til dæmis Hótel Rangá, Grímsborgir, uppbyggingu Fosshótela víða um land, Sigló hótel, Hótel Búðir og fleiri, því þessi upptalning er ekki tæmandi.

Hvað Akureyri varðar hefur skortur á framboði á alvöru hótelum staðið uppbyggingu ferðaþjónustu fyrir þrifum. Í bænum eru fyrir Kea hótel og Berjaya Hotel (áður Icelandair hotel) ásamt öðrum minni hótelum. Þessi kærkomna viðbót mun til lengri tíma litið styrkja stöðu Akureyrar og Norðurlands sem spennandi áfangastaðar. Til lengri tíma litið mun eftirspurnin laga sig að framboðinu sem þegar er til staðar.