Flokksþing Framsóknarflokksins var haldið á Hilton Reykjavík Nordica um sl. helgi. Þar var forysta flokksins endurkjörin.
Flokksþing Framsóknarflokksins var haldið á Hilton Reykjavík Nordica um sl. helgi. Þar var forysta flokksins endurkjörin. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Á flokksþinginu lagði ég áherslu á þau mál sem við erum að vinna að, mikilvægi þess að efnahagsmálin séu tekin föstum tökum, að við vinnum öll sem eitt að því að ná niður verðbólgu og vöxtum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins í samtali við Morgunblaðið, spurður um helstu áherslumál flokksins sem formuð voru á þingi hans sem haldið var um sl. helgi.

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Á flokksþinginu lagði ég áherslu á þau mál sem við erum að vinna að, mikilvægi þess að efnahagsmálin séu tekin föstum tökum, að við vinnum öll sem eitt að því að ná niður verðbólgu og vöxtum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins í samtali við Morgunblaðið, spurður um helstu áherslumál flokksins sem formuð voru á þingi hans sem haldið var um sl. helgi.

„Við fjölluðum um þau mál sem hafa verið efst á baugi að undanförnu, eins og málefni útlendinga, orkumálin, mikilvægi Landsvirkjunar sem ég kallaði í minni ræðu krúnudjásn í raforkuframleiðslu landsins. Ég benti á þá staðreynd að fyrirtækið er orðið þúsund milljarða virði, án þess að nokkru sinni hafi verið lögð inn í það ein króna af eigin fé og á sama tíma hafa fyrirtæki og heimili í landinu borgað hvað lægst orkuverð í Evrópu. Það er ótrúleg staða sem við búum við,“ segir hann.

Þú nefnir orkumálin. Það virðist sem ekki sé talað um þau mál einum rómi við ríkisstjórnarborðið. Fram kom hjá nýjum formanni Vinstri grænna á dögunum að einföld leið til öflunar aukinnar orku væri að spara raforku sem til staðar er í kerfinu. Á flokksþinginu lést þú þau ummæli falla að Vinstri grænir væru í raun að kalla eftir lífskjararýrnun með því að kalla eftir að einhverjum fyrirtækjum væri lokað til að spara raforku.

„Ég sagði það í samtali á þinginu að þeir sem segja að ekki sé orkuskortur á Íslandi, þegar við upplifum það að verið er að skerða rafmagn, að heilu landshlutarnir og heilu atvinnugreinarnar – eins og fiskimjölsverksmiðjurnar – eru keyrðar á dísilolíu þótt þær eigi rafknúna katla, Vestfirðir eru keyrðir meira og minna á olíu, kalla á lífskjaraskerðingu. Þeir sem segja að hægt sé að spara orku með því að loka einhverjum fyrirtækjum eru auðvitað að segja að það eigi að segja upp því fólki sem þar vinnur og öllum þeim afleiddu störfum og þeim þjóðhagslega hagnaði og arðsemi sem er af slíku, kalla eftir skerðingu lífskjara. Mér finnst að þetta fólk verði að tala hreint út. Það er auðvitað orkuskortur, ef við ætlum að halda áfram á þeirri braut að byggja upp hér upp lífskjör á fjölbreyttum atvinnugreinum,“ segir Sigurður Ingi.

Bindur þú vonir við að hægt verði að gera átak í orkumálum, þegar formaður Vinstri grænna talar með þeim hætti sem hann gerir um þessi mál?

„Já, ég bind vonir við það að við munum sjá bæði Hvammsvirkjun og Búrfellslund fara af stað á næstu mánuðum. Ég bind vonir við að við náum að klára lagaumgjörð um vindorku og að við förum langt með heildarendurskoðun á rammaáætlun til að gera hlutina einfaldari og skilvirkari. Allt stefnir þetta í þá átt að við búum yfir nægjanlegri orku svo ekki komi til skerðinga og getum farið í orkuskipti sem eru klárlega mikill ávinningur, ekki bara fyrir loftslagið sem er auðvitað augljóst, heldur líka efnahagslegur. Allt skynsamt fólk hlýtur að sjá að við verðum að framleiða meiri orku með fjölbreyttari hætti en við höfum gert,“ segir Sigurður Ingi.

Á fundinum sakaði Lilja Alfreðsdóttir Samfylkinguna um að stela stefnumálum Framsóknarflokksins og spurður um það segir Sigurður Ingi að þeir framsóknarmenn hafi fylgst með hringferð Samfylkingarinnar þar sem m.a. var fjallað um heilbrigðismál.

„Þar lofuðu þau ýmist því sem heilbrigðisráðherrann, Willum Þór Þórsson, er þegar búinn að framkvæma eða er í heilbrigðisstefnu hans eða í byggðastefnu minni. Okkur fannst það vera vel í lagt að fara í hringferð með bækling um allt það sem við framsóknarmenn erum annaðhvort búnir að gera, erum að fara að gera eða er í stefnuskrá flokksins. Þegar maður er í pólitík vill maður fá sem flesta með í lið, en það er svolítið sérstakt að taka það upp sem sína stefnu, en gagnrýna okkur fyrir að gera ekki það sem við erum að gera,“ segir Sigurður Ingi.

Kraftmikið og öflugt þing

„Það sem stendur upp úr er að þetta var gríðarlega kraftmikið og öflugt flokksþing, vel sótt og þar ríkti mikil bjartsýni fyrir hönd lands og þjóðar. Málefnavinnan var góð og hafði verið í undirbúningi í aðdraganda þingsins sem og á því sjálfu og endurspeglaðist það í afgreiðslu stefnumálanna. Auðvitað komu upp einhver álitamál sem menn tókust á um og greiddu atkvæði um, sem er hið góða við lýðræðislega stjórnmálaflokka. Þar gefst fólki tækifæri til að láta ljós sitt skína, getur tekið þátt í málefnavinnu, fylgt tillögum sínum eftir sem ganga síðan til atkvæða og eru jafnvel samþykktar. Mér finnst þetta einkennandi hvað þarna ríkti mikið lýðræði og fólk hefur miklu meiri möguleika á að taka þátt í stjórnmálum en margur heldur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson