Varsjá Jens Stoltenberg, Donald Tusk og Rishi Sunak gerðu liðskönnun á skriðdrekasveitum frá bæði Póllandi og Bretlandi fyrir fund sinn í gær.
Varsjá Jens Stoltenberg, Donald Tusk og Rishi Sunak gerðu liðskönnun á skriðdrekasveitum frá bæði Póllandi og Bretlandi fyrir fund sinn í gær. — AFP/Sergei Gabon
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í gær að Bretar ætluðu sér að senda aukna hernaðaraðstoð við Úkraínu, á sama tíma og hann hét því að Bretar myndu auka útgjöld sín til varnarmála upp í 2,5% af þjóðarframleiðslu sinni fyrir árið 2030.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í gær að Bretar ætluðu sér að senda aukna hernaðaraðstoð við Úkraínu, á sama tíma og hann hét því að Bretar myndu auka útgjöld sín til varnarmála upp í 2,5% af þjóðarframleiðslu sinni fyrir árið 2030.

Hernaðaraðstoð Breta að þessu sinni er metin á 500 millljónir sterlingspunda, eða sem nemur um 87,4 milljörðum íslenskra króna. Er þetta stærsti aðstoðarpakkinn sem Bretar hafa sent til þessa, en alls hafa þeir varið sem nemur um þremur milljörðum punda, eða um 525 milljörðum íslenskra króna, í aðstoð við Úkraínumenn.

Sunak sagði að staða alþjóðamála hefði ekki verið jafnhættuleg frá lokum kalda stríðsins og að Bretar mættu alls ekki vera værukærir. Bretar verja nú þegar um 2,3% af þjóðarframleiðslu sinni til varnar- og öryggismála, en engu að síður er um að ræða mestu útgjaldaaukningu Breta til málaflokksins í um þrjátíu ár.

Sunak sagði að Bretar þyrftu að verja meiru til varnarmála þar sem þeir stæðu nú frammi fyrir „öxli einræðisríkja“ sem hefðu ekki sömu gildi og Bretar og hefðu sig nú sífellt meira í frammi. Nefndi Sunak þar sérstaklega Rússland, Íran, Norður-Kóreu og Kína.

„Ég trúi því að við verðum að gera meira til þess að verja land okkar, hagsmuni okkar og gildi okkar,“ sagði Sunak og bætti við að þótt Bretar væru ekki á barmi styrjaldar yrði breskur varnarmálaiðnaður nú betur undirbúinn fyrir stríð, þar sem skotfæraframleiðsla yrði stóraukin.

Áætlað er að Bretar muni árið 2030 verja um 87 milljörðum sterlingspunda til varnarmála, en það verður aukning um 23 milljarða punda á næstu sex árum frá því sem nú er. Þar af eru 10 milljarðar punda eyrnamerktir framleiðslu á skotfærum og eldflaugum.

Senda langdrægar flaugar

Sunak greindi frá ákvörðun sinni í Varsjá, þar sem hann fundaði með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, og Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands. Ræddu þeir sérstaklega stöðuna í Úkraínu og varnir Póllands, en Bretar hafa nú um 400 hermenn í Póllandi, sem eru hluti af varnarliði Atlantshafsbandalagsins þar.

Bretar ætla að senda til Úkraínu rúmlega 1.600 eldflaugar, bæði til árása á stöðvar Rússa og til að aðstoða við loftvarnir Úkraínu. Þá munu þeir einnig senda langdrægar Storm Shadow-eldflaugar, sem Úkraínumenn hafa einkum nýtt til þess að trufla birgðalínur Rússa fyrir aftan víglínuna.

Bretar ætla einnig að senda 400 farartæki til Úkraínu til að auðvelda flutninga á fótgönguliði, en meginhluti þeirra er brynvarinn. Þá er einnig gert ráð fyrir um fjórum milljónum skotfæra fyrir riffla og vélbyssur.

Sunak fer svo til Berlínar í dag, þar sem hann mun ræða við Olaf Scholz Þýskalandskanslara um frekari aðstoð við loftvarnir Úkraínu, en Þjóðverjar hafa þegar heitið því að senda eitt Patriot-loftvarnarkerfi til viðbótar við þau sem þeir hafa þegar sent til landsins.

Bandaríkin undirbúa sendingu

Tilkynning Breta kom sama dag og öldungadeild Bandaríkjaþings tók frumvarp fulltrúadeildarinnar um hernaðaraðstoð við Úkraínu, Ísrael og Taívan til umræðu. Benti allt til þess að frumvarpið yrði samþykkt, þar sem 80 þingmenn samþykktu gegn 19 mótatkvæðum að umræðan gæti farið fram.

Umræða í deildinni stóð enn yfir þegar Morgunblaðið fór í prentun, en Biden Bandaríkjaforseti hugðist undirrita frumvarpið sem gildandi lög við fyrsta tækifæri. Frumvarpið veitir Bandaríkjastjórn heimild til þess að senda hernaðaraðstoð til Úkraínu upp á 60,8 milljarða bandaríkjadala, og á heimildin að gilda út þetta fjárlagaár, eða fram í lok september.

Bandaríska CNN-fréttastofan hafði eftir heimildarmönnum sínum í gær að Bandaríkjastjórn væri þegar byrjuð að undirbúa hernaðaraðstoð upp á einn milljarð bandaríkjadala, eða um 140 milljarða íslenskra króna. Munu Bandaríkjamenn meðal annars senda langdrægar ATACMS-flaugar til Úkraínu í fyrsta sinn, en áður höfðu Bandaríkin sent meðaldræga útgáfu af ATACMS-kerfinu til landsins.