Humza Yousaf (f.m.) hafði ekki fyrr komið lögunum í gegnum þingið en að skoska lögreglan þurfti að hefja rannsókn á ræðu hans frá árinu 2020 þar sem hann kvartaði yfir hve margir skoskir embættismenn væru hvítir.
Humza Yousaf (f.m.) hafði ekki fyrr komið lögunum í gegnum þingið en að skoska lögreglan þurfti að hefja rannsókn á ræðu hans frá árinu 2020 þar sem hann kvartaði yfir hve margir skoskir embættismenn væru hvítir. — AFP/Andy Buchanan
Það tók mig allt of langan tíma að átta mig á að innra með mér býr illkvittinn og hvassyrtur lítill púki. Litla púkanum mínum er lagið að finna bresti fólks og veikleika ef gera má grín að þeim og honum finnst fátt skemmtilegra en að upphefja sjálfan sig með því að lítillækka aðra

Það tók mig allt of langan tíma að átta mig á að innra með mér býr illkvittinn og hvassyrtur lítill púki. Litla púkanum mínum er lagið að finna bresti fólks og veikleika ef gera má grín að þeim og honum finnst fátt skemmtilegra en að upphefja sjálfan sig með því að lítillækka aðra. Það verður langtímaverkefni að skilja hvernig litli púkinn varð til: hann glímir greinilega við djúpstæða minnimáttarkennd og vanlíðan og sennilega fór hann á mis við einhvern félagslegan þroska í æsku.

Það er borin von að ætla að bera litla púkann út; hann hefur skotið rótum og myndi þurfa að framkvæma meiri háttar andlega stólpípu til að losa hann úr vistarverum sínum.

Ég vil hvort eð er ekki missa púkann. Hann gerir sitt gagn enda hefur hann gaman af að synda á móti straumnum og vera með smá mótþróa endrum og sinnum. Við réttar aðstæður getur stríðnin í litla púkanum verið afskaplega fyndin og bætt tengslin við annað fólk ef henni er beitt af lagni. Raunar leyfi ég mér að fullyrða að vinsælustu grínistar heims eigi sínum innri púka húmorinn að þakka.

Ég þarf bara að fara varlega þegar púkinn læðist fram svo hann taki ekki stjórnina. Oft hefur litli púkinn minn t.d. skrifað illkvittnislegar athugasemdir á Facebook, sem ég hef síðan haft rænu á að stroka út frekar en að birta. Stundum hefur hann meira að segja reynt að smygla sér inn í vikulega pistilinn í ViðskiptaMogganum en verið stöðvaður á síðustu stundu.

Það þarf ekki að dvelja lengi á samfélagsmiðlum til að sjá að alls konar fólk á fullt í fangi með púkana sína. Þá hjálpar ekki til að mannleg samskipti eru nákvæmnislist og auðvelt að birta litla fljótheitahugleiðingu á Facebook eða Twitter (þ.e. X) sem aðrir geta oftúlkað og rangtúlkað vegna þess að raddblæ og látbragð skortir, eða vegna þess að meiri upplýsingar vantar í textann.

Þegar litið er yfir sviðið er hreinlega ekki laust við að púkarnir leiði í dag umræðuna um öll helstu álitamál. Slík eru leiðindin og núningurinn.

Hver er tilbúinn að móðgast?

Maður skyldi ætla að þær óskrifuðu reglur sem gilda um mannleg samskipti myndu nægja til að refsa fólki fyrir illkvittni og dónaskap, en nú hafa stjórnvöld í Skotlandi gengið skrefinu lengra og gert það að glæp að vera með leiðindi í garð annarra. Ætti varla að koma lesendum á óvart að þessi nýja löggjöf, sem tók einmitt gildi þann 1. apríl, þykir vera meiri háttar ógn við frelsi fólks til að tjá sig og eiga eðlileg skoðanaskipti, enda veltur það á algjörlega huglægu mati hvaða ummæli brjóta í bága við ákvæði laganna.

Lögin sem um ræðir útvíkka hatursglæpalöggjöf Skotlands og eru orðuð þannig að það telst refsivert að „ógna“ eða „níðast á“ fólki á grundvelli kynþáttar, aldurs, fötlunar, kynhneigðar eða kynvitundar. Skoska lögreglan þarf að vinna úr öllum ábendingum sem berast um meint hatursummæli, og jafnvel ef ummælin flokkast ekki sem glæpur í skilningi laganna þarf að skrá þau sem „haturstengt atvik“ með upplýsingum um þann sem átti hlut að máli.

Breskir grínistar hafa farið fremst í flokki við að gagnrýna lögin og hafa réttilega bent á að uppistandarar og aðrir sprelligosar þurfi heldur betur að vara sig ef þeir troða upp á skoskri grundu, vilji þeir ekki hætta á að kalla yfir sig lögreglurannsókn. Það er jú ekki ásetningurinn sem skiptir máli, heldur hvort einhver í áhorfendaskaranum sé nægilega viðkvæmur og móðgunargjarn til að finnast það sem sagt er uppi á sviði særandi fyrir einhvern hóp fólks.

Rithöfundurinn J.K. Rowling gat ekki stillt sig um að leggja orð í belg en eins og margir lesendur vita hefur hún verið dugleg að gagnrýna þær öfgar sem einkenna trans-umræðuna, og hefur stundum sleppt sínum innri púka lausum á samfélagsmiðlum. Fór hún þá leið að birta færslu á X þar sem hún nafngreindi nokkrar transkonur sem dæmdar hafa verið fyrir kynferðisglæpi og klykkti út með því að segja að umræddir einstaklingar væru karlar en ekki konur. Þá sagðist hún fagna því ef ummælin yrðu til þess að hún yrði handtekin í næstu heimsókn sinni til Skotlands – okkar kona alveg óhrædd við að taka slaginn.

Hæfilega fær lögfræðingur gæti auðveldlega túlkað nýju lögin þannig að Rowling hafi framið glæp með því sem hún birti á X en ummælin voru óðara tilkynnt til lögreglunnar sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að bregðast við. Talsmenn trans-Skota voru verulega óhressir með að ekki skyldi vera tekið á ummælunum af meiri hörku – í þeirra huga var alveg ljóst að nota ætti lögin til að þagga niður í rithöfundinum.

Fyndnast er að Humza Yousaf forsætisráðherra Skotlands, sem á allan heiðurinn af því að hafa komið frumvarpinu í gegnum skoska þingið, varð sjálfur fyrir barðinu á eigin lögum strax á fyrsta degi. Fyrstu viku mánaðarins bárust skosku lögreglunni um 7.000 ábendingar um meiðandi hatursorðræðu og þar af voru nokkur þúsund vegna ræðu sem Yousaf flutti á skoska þinginu árið 2020. Yousaf, sem er sonur innflytjenda frá Pakistan, notaði ræðuna til að kvarta yfir því hvað hvítt fólk væri áberandi í pólitískum valdastöðum í Skotlandi, en reyndar vill það þannig til að rösklega 95% íbúa Skotlands eru hvít. Aftur komst lögreglan að þeirri niðurstöðu á einu augabragði að þingræða ráðherrans hefði ekki brotið í bága við lögin (og vonandi væri það hvort eð er hæpið að túlka ákvæði laganna afturvirkt).

Telegraph greindi frá því að flaumur tilkynninga vegna hugsanlegra hatursummæla hefði verið svo mikill að skoska lögreglan hefði þurft að láta rannsóknir annarra glæpa sitja á hakanum. Rannsaka þarf hverja einustu tilkynningu og er álagið slíkt að kalla hefur þurft lögreglumenn úr fríum og láta þá vinna yfirvinnu.

Sennilega kemur það lesendum mínum ekki á óvart að flokkur Yousafs, Skoski þjóðarflokkurinn, er vinstri-popúlískur, Evrópusinnaður sósíaldemókrataflokkur.

Tókst að banna eigin þjóðsöng

Yousaf getur kannski huggað sig við það að skosku hatursglæpalögin voru ekki heimskulegasta nýja reglusetningin þennan mánuðinn. Það eru stjórnvöld í rússneska sjálfstjórnarlýðveldinu Téténíu sem hafa vinninginn að þessu sinni – með fyrirvara um að enn eru sjö dagar eftir af apríl.

Ráðherra menningarmála í Téténíu tilkynnti það á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum að ákveðið hefði verið að banna tónlist sem er hægari en 80 slög á mínútu og hraðari en 116 slög. Með þessu hyggjast stjórnvöld standa vörð um téténskan „hugsunarhátt og tónlistartakt“ og varðveita menningararf þjóðarinnar fyrir komandi kynslóðir. Lesendum til glöggvunar er popp-, raf- og rokktónlist yfirleitt á bilinu 120 til 130 slög á mínútu og því er vestræn nútímatónlist nú sama sem ólögleg í Téténíu. Það sama á við um mörg sígild verk og munu téténskar útvarpsstöðvar væntanlega þurfa að fella út allstóra parta ef 9. sinfónía Beethovens verður sett á fóninn.

Rétt eins og með skosku hatursglæpalöggjöfina er markmið téténska tónlistarbannsins í sjálfu sér ekki slæmt, en útfærslan er alveg galin og skammsýnin algjör.

Bangsalegu hómófóbarnir sem ráða ríkjum í Téténíu eru ekki þekktir fyrir að stíga í vitið og í þetta skiptið yfirsást þeim að rússneski þjóðsöngurinn er 76 slög á mínútu og þjóðsöngur Téténíu 78 slög. Ekki nóg með það heldur er oft flókið tónfræðilegt úrlausnarefni að ákvarða í hvaða takti lag er spilað. Það sem einn upplifir sem 80 slög á mínútu getur virkað á annan hlustanda sem 160 slög. Rétt eins og með hatursorðræðu þá veltur það á huglægu mati hvort tónverk er í þessum taktinum eða hinum.

Ekki fylgir sögunni hvort téténska menntamálaráðuneytið hefur sett á laggirnar nýja stofnun þar sem lögfræðingar og tónfræðingar, vopnaðir taktmælum, hlusta núna á tónlist dægrin löng til að ákvarða á vísindalegan hátt hvaða lög er leyfilegt að spila. Téténskum tónlistarmönnum hefur þó verið gefinn frestur til 1. júní til að breyta tónsmíðum sínum í samræmi við skilyrði laganna.

Gaman verður að sjá hvað það mun taka stjórnmálamennina langan tíma að átta sig á að nýja tónlistarbannið mun ekki gera neitt til að styrkja téténskan tónlistararf, ekki frekar en nýju skosku hatursglæpalögin munu gera neitt til að draga úr fordómum og stuðla að heilbrigðari samfélagsumræðu þar í landi.