Stúdentamótmæli Lögreglan í New York-borg handtók 133 mótmælendur í fyrrinótt við NYU-háskólann.
Stúdentamótmæli Lögreglan í New York-borg handtók 133 mótmælendur í fyrrinótt við NYU-háskólann. — AFP/Alex Kent
Lögreglan í New York-borg handtók 133 mótmælendur í fyrrinótt, en lögreglumenn ákváðu þá að rýma skólalóð Háskólans í New York, NYU. Þar höfðu nemendur og aðrir sem lýsa sig hliðholla málstað Palestínumanna í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs reist …

Lögreglan í New York-borg handtók 133 mótmælendur í fyrrinótt, en lögreglumenn ákváðu þá að rýma skólalóð Háskólans í New York, NYU. Þar höfðu nemendur og aðrir sem lýsa sig hliðholla málstað Palestínumanna í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs reist tjaldbúðir, en slík stúdentamótmæli hafa færst í aukana vestanhafs síðustu vikurnar.

Talsmenn lögreglunnar sögðu í gær að öllum 133 hefði verið sleppt úr haldi, en þeim verður gert að mæta fyrir dómara vegna sektarboðs fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar.

Talsmaður NYU sagði að ákvörðunin um að biðja lögregluna að rýma skólalóðina hefði verið tekin þar sem mótmælendur hefðu rofið þær varnargirðingar sem settar höfðu verið upp utan um tjaldbúðir þeirra, auk þess sem talið var að stór hluti mótmælenda væri ekki nemendur við skólann.

Bætti skólinn við í yfirlýsingu sinni að borið hefði á óspektum og fjandsamlegri hegðun, auk þess sem hluti mótmælenda hefði kyrjað ógnandi slagorð. Þá hefðu komið upp nokkur atvik sem bæru vott um gyðingahatur.

Sakaðir um gyðingahatur

Setumótmælin vestanhafs byrjuðu í síðustu viku við Columbia-háskólann í New York, og hefur myndast stór tjaldbúð mótmælenda á skólalóðinni þar. Lögreglan handtók þar rúmlega hundrað manns í síðustu viku, en þrátt fyrir það fjölgaði mjög í hópi mótmælenda við Columbia-háskólann um helgina. Þá hafa mótmælendur einnig komið sér upp búðum við skóla á borð við Yale, Harvard og MIT.

Hluti mótmælenda við Columbia hefur verið sakaður um ógnandi hegðun gegn nemendum við skólann af gyðingaættum en aðstandendur mótmælanna hafa borið þær ásakanir til baka.

Hvíta húsið sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu í fyrradag þar sem sagði að þótt Bandaríkjamenn hefðu rétt til þess að mótmæla á friðsamlegan hátt væru áköll um ofbeldi og hótanir gegn stúdentum af gyðingaættum og gyðingasamfélaginu hættuleg og samviskulaus, auk þess sem þau bæru vott um gyðingahatur.

Þá sagði í yfirlýsingu Hvíta hússins að það væri viðurstyggilegt að bergmála orðfæri hryðjuverkasamtaka, sér í lagi í kjölfar versta ofbeldisverknaðar í garð gyðinga frá lokum Helfararinnar.