Hindrunum rutt úr vegi í örorkulífeyriskerfinu

Stórtækar breytingar á örorkulífeyriskerfinu voru kynntar á mánudag. Breytingarnar eiga að skila einfaldara kerfi, hærri greiðslum og gera fólki kleift að vinna án þess að strax komi til skerðinga á greiðslum. Sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra að þetta væru mestu breytingar, sem gerðar hefðu verið á kerfinu frá upphafi.

Samkvæmt breytingunum verður almennt frítekjumark 100 þúsund krónur og getur fólk í hlutastarfi verið með allt að 350 þúsund krónur á mánuði í atvinnutekjur án þess að bætur skerðist.

Lengi hefur verið fundið að því að örorkulífeyriskerfið letji til atvinnuþátttöku og refsi fólki jafnvel fyrir að vinna. Það taki því ekki fyrir fólk með örorkulífeyri að vinna vegna þess að lífeyririnn skerðist um leið.

Færa má rök að því að þetta hafi hafi komið í veg fyrir að fólk færi út á vinnumarkað þótt það ætti þangað fullt erindi og það getur verið afdrifaríkt. Vitað er að eftir því sem lengri tími líður verður erfiðara að fara út á vinnumarkaðinn að nýju. Þessar breytingar gætu því breytt lífi margra.

Þegar rætt er um vinnumarkaðinn beinist talið yfirleitt að atvinnuleysi, en atvinnuþátttaka skiptir ekki minna máli. Þar hefur Ísland notið mikillar sérstöðu. Hér er þátttaka á vinnumarkaði mun meiri en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Þróunin hefur hins vegar verið í átt til minni atvinnuþátttöku. Það er því til mikils að vinna að leiðin sé greið út á vinnumarkaðinn.

En þátttaka á vinnumarkaði snýst ekki bara um hvort og með hvaða hætti lífeyrir skerðist með henni. Hún snýst líka um endurhæfingu og aðstoð við að endurheimta heilsu og kraft, sjálfstraust og áræði. Þar eru sett fram metnaðarfull markmið og það þarf að tryggja bolmagn til að standa undir þeim.

Með breytingunum er einnig boðað að horfið verði frá örorkumatinu í núverandi mynd. Nú á að meta getu til virkni á vinnumarkaði. Þar verði ekki aðeins horft til læknisfræðilegra þátta heldur einnig færni í samspili við umhverfi og aðstæður með það fyrir augum að „styðja fólk til að nýta sem best alla sína getu“ eins og það var orðað í kynningu ráðuneytisins. Vitaskuld verður ekki hægt að fullyrða um árangurinn af þessu fyrr en á reynir, en þetta gefur til kynna að frekar eigi að horfa til þess sem fólk er fært um að gera en hvað það geti ekki gert.

Guðmundur var spurður hvers vegna væri verið að gera þessar viðamiklu breytingar og svaraði því til við mbl.is að í sinni núverandi mynd væri það flókið og ógagnsætt. Litlir hvatar væru til atvinnuþátttöku og mörg tækifæri fólgin í því að koma í veg fyrir ótímabæra örorku.

Hann sagði mikilvægt að grípa inn í fyrr þegar fólk veiktist, slasaðist eða yrði fyrir áfalli: „Okkur er að takast að koma fleirum aftur út á vinnumarkaðinn og það er gríðarlega jákvætt.“

Hægt væri að tíunda fleiri breytingar til batnaðar í þessum aðgerðum. Má þar nefna að tryggja fólki framfærslu meðan það er á biðlistum eða fer á milli kerfa.

Þessar breytingar kosta sitt. Í frétt Morgunblaðsins í gær kemur fram að heildarútgjöld greiðslukerfisins vegna örorku- og endurhæfingar muni aukast um 18,1 milljarð á ári. Hins vegar muni áherslan á endurhæfingu skila ávinningi upp á allt að átta milljörðum á ársvísu. Hafi breytingarnar þau áhrif að færri þurfi örorkulífeyri og þátttaka verði meiri á vinnumarkaði mun það sömuleiðis hafa áhrif. Hefur verið reiknað út að ávinningurinn af endurhæfingu og kerfisbreytingum muni vega upp aukinn kostnað að fimm árum liðnum. Þá gætu þessar breytingar breytt lífi fólks með hætti, sem ekki verður metinn til fjár.

Verði frumvarp um þessar breytingar samþykktar munu þær taka gildi 1. september á næsta ári. Frumvarpið er ekki gallalaust og mun það ugglaust breytast eitthvað í meðförum þingsins, en nái þessar breytingar fram að ganga í grundvallaratriðum gæti það markað tímamót í þessum málaflokki.