Vinsældir Gyðir Elíasson er ánægður með viðtökur sýningarinnar í Garði.
Vinsældir Gyðir Elíasson er ánægður með viðtökur sýningarinnar í Garði. — Morgunblaðið/Einar Falur Ingólfsson
„Þessar viðtökur voru mjög ánægjulegar,“ segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson bókaútgefandi með meiru. Óhætt er að segja að sýningin Undir stækkunargleri þar sem Gyrðir Elíasson sýndi myndverk sín í Garði í Suðurnesjabæ hafi slegið í gegn

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þessar viðtökur voru mjög ánægjulegar,“ segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson bókaútgefandi með meiru.

Óhætt er að segja að sýningin Undir stækkunargleri þar sem Gyrðir Elíasson sýndi myndverk sín í Garði í Suðurnesjabæ hafi slegið í gegn. Alls voru um tólf hundruð myndir til sýnis og sölu og seldust þær afar vel. Svo vel að löng röð myndaðist síðasta sunnudag þegar kaupendur sóttu myndir sínar.

Gyrðir baðst undan viðtali þegar Morgunblaðið hafði samband við hann eftir helgina en vísaði á útgefanda sinn, Aðalstein Ásberg. Hann segir að sýningin hafi vakið mikla athygli. „Hún var mjög sérstök auðvitað. Þarna voru myndir af öllum smæðum og gerðum, getur maður sagt. Það hefur enginn sýnt slíkt,“ segir hann en mörg myndverkanna voru örsmá. „Verðið var hófstillt og það vafðist ekki fyrir neinum að kaupa mynd ef hann langaði í. Mér finnst að Gyrðir hafi þarna stimplað sig skemmtilega inn í myndlistargeir­ann, með óvenjulegum hætti.“

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu var útlitið ekki mjög bjart hjá Gyrði síðasta haust þegar hann fékk ekki krónu við úthlutun starfslauna listamanna og var svo í kjölfarið hunsaður þegar kom að tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Síðan þá hefur mikill áhugi verið á ljóðatvennunni Dulstirni/Meðan glerið sefur. Hefur hún verið endurprentuð í tvígang og er ein mesta selda ljóðabók síðari ára. Aðalsteinn viðurkennir fúslega að þessi viðsnúningur, aukin sala og vinsældir myndlistarsýningarinnar, sé afar kærkomið fyrir skáldið. „Að sjálfsögðu. Ég vona nú að þetta komi öllu á réttan kjöl. Í ofanálag hefur komið kippur í sölu á eldri bókum Gyrðis, sem er mjög ánægjulegt.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon