Svanhildur Konráðsdóttir
Svanhildur Konráðsdóttir
Árið 2023 einkenndist af grósku og betra jafnvægi í rekstri og starfsemi eftir nokkuð krefjandi aðstæður fyrri ára.

Svanhildur Konráðsdóttir

„Eldborg naut sín til hins ýtrasta. Þessar fátíðu heimsóknir erlendra hljómsveita eru grettistak í okkar menningarlíf og svo mikilvægar og þakklátar!“ „Þetta voru svakalegir tónleikar, algjörlega frábær upplifun!“ „Þetta var unaðskvöld í Hörpu…takk fyrir mig!“

Svona umsagnir gesta um frábæra tónleika Bamberg-sinfóníuhljómsveitar í Eldborg síðastliðið laugardagskvöld eru afar staðgott veganesti inn á aðalfund Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss í dag þar sem við gerum upp árangurinn af rekstri og starfsemi hússins á liðnu ári.

Árið 2023 einkenndist af grósku og betra jafnvægi í rekstri og starfsemi eftir nokkuð krefjandi aðstæður fyrri ára. Kjarnastarfsemin var kraftmikil og fjölbreytt með 1.398 viðburðum sem er 10% aukning á milli ára. Listviðburðir voru 811 og ráðstefnutengdir viðburðir voru samtals 560.

Harpa starfar í samræmi við skýr markmið um samfélagsábyrgð. Skuldbindingin er að skapa menningarleg, samfélagsleg og efnahagsleg verðmæti og fara vel með auðlindir og umhverfi. Við viljum leggja okkur fram um að þetta fallega listaverk í eigu þjóðarinnar sé nýtt með ábyrgum og öflugum hætti til að hámarka þá verðmætasköpun.

Fjárfesting sem skilar arði

Rekstrarniðurstaða ársins varð umtalsvert betri en áætlun gerði ráð fyrir og eiginfjárhlutfall helst stöðugt. Það er að mörgu að hyggja þegar rekstur Hörpu er skoðaður. Tekjur af umfangsmiklu tónleikahaldi koma til dæmis ekki nema að örlitlum hluta fram í ársreikningi félagsins því allur þorri miðasöluviðburða er haldinn af öðrum en Hörpu. Heildarvelta miðasölu í Hörpu nam um 1.256 m.kr. og skapaði atvinnu fyrir stóran og fjölbreyttan hóp listafólks, tæknifólks, skipuleggjenda og annarra sem gera svona fjölbreytt viðburðahald mögulegt. Þegar að auki er talin veltan í veitingaþjónustu í Hörpu fer nærri að innanhússhagkerfið losi um 5 milljarða. Afleiddar tekjur starfseminnar hafa enn ekki verið kortlagðar en gjaldeyristekjur af alþjóðlegu viðburðahaldi eru verulegar þótt veltan sem sýnileg er í bókum Hörpu nemi ef til vill ekki nema um 10-15% af heildarverðmætunum.

Heimssvið og heimavöllur

Dagskrárstefna Hörpu undirstrikar hlutverk hússins sem heimssviðs fyrir fyrsta flokks alþjóðlega listviðburði, heimavallar fyrir íslenska tónlist og opins borgartorgs sem rúmar allt litróf samfélagsins; fjölskylduvæna og aðgengilega viðburði, grasrót tónlistarlífs og -náms, margs konar markaði, mót og hátíðir. Áhersla á aðgengi og inngildingu einkenndi dagskrárgerð og fjölmörg samstarfsverkefni Hörpu. Áfram eru börn og fjölskyldur boðin sérstaklega velkomin en heildarfjöldi viðburða sem tengjast barnamenningu var alls 171 og þar af rúmlega þriðjungur á vegum hússins. Alþjóðlegir stórviðburðir eins og leiðtogafundur Evrópuráðsins, Reykjavik Global Forum og Arctic Circle undirstrika svo mikilvægi húss eins og Hörpu fyrir virka þátttöku Íslands í samfélagi þjóðanna.

Fólkið okkar

Harpa leggur áherslu á að vera eftirsóttur vinnustaður fyrir þau sem vilja starfa í faglegu, skapandi og menningartengdu umhverfi. Við fjárfestum í uppbyggilegri og jákvæðri vinnustaðamenningu því öryggi, vellíðan og helgun starfsfólks helst órjúfanlega í hendur við farsælan rekstur. Við spyrjum reglulega um líðan og viðhorf starfsfólks og fékk Harpa hæstu einkunn sem félagið hefur fengið í könnun VR á fyrirtæki ársins 2023. Heildareinkunnin var 4,44 þar sem ánægja og stolt starfsfólks, viðhorf til stjórnunar og mat á gæðum starfsanda voru þeir þrír þættir sem skoruðu hæst.

Starfsfólk Hörpu er í leiðtogahlutverki í fjölmörgum spennandi og mikilvægum verkefnum sem munu halda áfram að efla starfsemi og auðga samfélagslegt framlag Hörpu á komandi árum svo um munar.

Höfundur er forstjóri Hörpu.

Höf.: Svanhildur Konráðsdóttir