Stefán Þórarinn Ingólfsson fæddist í Reykjavík 1. febrúar 1951. Hann lést á Landspítalanum 11. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Jónína Salný Stefánsdóttir, f. á Mýrum í Skriðdal 3.11. 1928, d. 15.3. 2021, og Ingólfur Pálsson frá Hjallanesi í Landsveit, f. 1.9. 1925, d. 29.10. 1984. Stefán var elstur af sex systkinum, hin eru Halldóra Ingibjörg, f. 1953, d. 2004, Páll Rúnar, f. 1954, Hafdís Odda, f. 1959, Ingvi, f. 1967, og Fanney, f. 1969.

Stefán giftist Margréti Báru Einarsdóttur leikskólakennara, f. í Reykjavík 3. febrúar 1956. Börn þeirra eru: 1) Kolbrún, f. 19.1. 1988, maki Arnar Agnarsson, börn þeirra eru Sóldögg Lilja, f. 2017, Ýmir Örn, f. 2019, og Arnór Breki, f. 2020. 2) Lára Kristín, f. 27.12. 1990, maki Hjalti Óskarsson, börn þeirra eru Laufey, f. 2018, og Baldur, f. 2021. 3) Stefán Einar, f. 26.10. 1994, sambýliskona hans er Magnhildur Guðmundsdóttir.

Stefán Þórarinn lauk stúdentsprófi frá MR 1972. Lauk sveinsprófi í húsgagnasmíði frá Iðnskóla Hafnarfjarðar 1973. Hann stundaði nám í arkitektúr við Arkitektaháskólann í Osló 1973-1979. Stefán tók einnig áfanga í innréttingahönnun í Kunst og Handverkskolen í Osló 1978.

Stefán starfaði sjálfstætt í byrjun en síðar á ýmsum teiknistofum. Lengst af hjá Magga Jónssyni, þar vann hann við að teikna t.d. Fjölbrautaskóla Suðurlands, ásamt náttúru- og hugvísindahúsum HÍ (hönnun MJ). Seinna starfaði hann hjá ARKHD en þar vann hann
við að teikna sendiráðið í Berlín (hönnun Hjördísar og Dennis) og Hellisheiðarvirkjun (hönnun Tark) hjá teiknistofunni Tark til haustsins 2009. Stefán rak sína eigin teiknistofu til ársloka 2023 og teiknaði hús fyrir einstaklinga og fyrirtæki úti um allt land. Hann var í stjórn lífeyrissjóðs AÍ 1989-1991 og formaður 1990-1991.

Útför Stefáns fer fram frá Digraneskirkju í dag, 24. apríl 2024, klukkan 13.

Ég kvaddi ástkæran eiginmann minn um kvöldið þann 11. apríl, en hann hafði legið hátt í sjö vikur á Landspítalanum, það var í síðasta skiptið sem ég sá hann á lífi. Hann hafði verið í góðu skapi og virtist líða betur en oft áður. Hann ætlaði að horfa á fréttirnar og síðan á Liverpool-leik. Hann hafði dottað yfir leiknum, sofnað og vaknaði ekki aftur.

Núna get ég ekkert annað en rifjað upp allar góðu minningarnar sem við áttum saman, um góðan mann sem vildi allt fyrir alla gera, elskaði allt fólkið sitt og sérstaklega litlu barnabörnin fimm sem voru algjörir gimsteinar í hans augum.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir,

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(Hallgrímur J. Hallgrímsson)

Margrét Bára
Einarsdóttir.

Elsku pabbi minn.

Síðustu dagar hafa verið erfiðir og það er skrýtið að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hér með okkur. Veikindi þín síðastliðna tvo áratugi reyndu sannarlega á fjölskylduna og fyrst og fremst þig en þú mættir þeim alltaf með miklum styrk og æðruleysi. Þú fékkst ósk þína svo uppfyllta þegar þú kvaddir sársaukalaust og friðsamlega og við sem eftir stöndum reynum að tileinka okkur þessa góðu mannkosti þína til að takast á við missinn.

Þú kenndir mér svo margt og hlýjar minningar sem við deildum ylja. Þegar við byggðum saman sumarbústaðinn okkar við Apavatn, dyttuðum að heimilinu, horfum saman á Liverpool í blíðu og stríðu, spáðum í gíturum og amerískum bílum. Þú vildir alltaf að ég hefði bestu verkfærin í höndunum, hvort sem er í leik eða starfi – til dæmis þegar þú pantaðir fyrir mig Gibson-gítar drauma minna þegar ég var nýbyrjaður að læra á gítar.

Takk fyrir allt elsku pabbi, sjáumst seinna í sumarlandinu – ég veit þú passar upp á okkur þangað til.

Þinn sonur,

Stefán Einar.

Kvöldið sem pabbi lést hafði ég orð á því við Hjalta og börnin mín að nú væri sko loksins komið vor, kuldinn farinn að víkja og sumarið farið að minna á sig. Seinna um kvöldið fékk ég símtalið frá mömmu. Það var sumarlegt úti þetta kvöld og þegar við stóðum yfir pabba á nýrnadeildinni mátti jafnvel heyra fuglasöng fyrir utan spítalann. Þetta svikavor entist reyndar ekki lengi, en þannig lýsti sér líka nýrnabilunin sem pabbi hafði þróað með sér. Hans líf var orðið þannig að hann var hraustur þangað til hann var það ekki, og dagamunurinn orðinn mikill. En eins og með veðrið þennan dag þá var pabbi upp á sitt besta, miðað við dagana á undan. Þótt hann hafi verið veikur stóran hluta af lífi mínu lét hann okkur krakkana aldrei finna fyrir því. Hann hélt ótrauður áfram og lét veikindin ekki stoppa sig. Pabbi var uppátækjasamur og kunni að njóta einföldu hlutanna. Honum fannst dásamlegt að sitja úti á svölum í góðu veðri, heima eða í bústaðnum á Apavatni, og að setja græjurnar í botn og hlusta á Kinks eða Bítlana. Síðustu árin var hann orðinn mikill áhugamaður um fótbolta og horfði oft á leiki með Stefáni bróður. Annars brann hann fyrir starfi sínu sem arkitekt og hafði ekki mikið pláss fyrir önnur áhugamál á starfsævinni.

Þótt hann hafi hafið starfsferil sinn sem húsgagnasmiður, eins og pabbi hans, þá var hans köllun í lífinu að teikna hús. Hann talaði oft um námsárin í Noregi og hafði greinilega notið þess tíma. Ég leit mikið upp til pabba og var sjálf staðráðin í að fara í háskólanám og helst út að læra. Þegar náttúrufræðihús HÍ, Askja, var opnað fyrst tók pabbi mig og vinkonu mína með að skoða húsið. Allt frá því heillaðist ég af náttúruvísindum og eyddi miklum tíma í Öskju á háskólaárunum.

Pabbi var þrjóskur en á sama tíma alltaf léttur í lund og stutt í húmorinn. Hann fylgdi sínum verkum alltaf eftir og það voru óteljandi bíltúrar sem fóru í að kíkja á hús hér og þar um bæinn eða úti á landi. Nokkrum vikum áður en hann lést horfði hann út um gluggann, á nýja Landspítalann, andvarpaði og sagðist feginn að þurfa ekki að bera ábyrgð á fleiri húsum. Ég held að hann hafi verið mjög samviskusamur í sínu starfi og jafnvel verið undir of miklu álagi stundum.

Foreldrar mínir hvöttu mig alltaf áfram í alls konar skrítnum uppátækjum. Pabbi las allar smásögurnar mínar, lánaði mér myndbandsupptöku- og segulbandstækin sín svo maður gæti þreifað fyrir sér á ýmsum sviðum, horfði á hrikalegu stuttmyndirnar og tók þátt í fíflalátum með okkur. Hann dæmdi okkur aldrei og okkur krökkunum var alltaf treyst til að fara okkar eigin leiðir í lífinu.

Við fjölskyldan fórum með mömmu og pabba til Tenerife í febrúar 2023. Þá var pabbi orðinn mjög langt genginn með nýrnabilun og þurfti að leigja sér „scooter“. Þar fékk hann viðurnefnið „afi brumm brumm“ hjá börnunum mínum, en þau höfðu mjög gaman af því að keyra með afa. Við náðum að njóta vel og erum þakklát fyrir minningarnar.

Hvíldu í friði elsku pabbi.

Lára Kristín
Stefánsdóttir.

Elsku pabbi, nú sit ég hér og skrifa mín síðustu orð til þín.

Símtalið kom á fallegu vorkvöldi í apríl, öllum að óvörum. „Kolla, pabbi þinn er dáinn.“ Þetta eru orð sem ég gleymi aldrei. Ótal minningar koma upp í hugann; utanlandsferðirnar þegar við systkinin vorum lítil, ógleymanleg ferð með Norrænu á ópelnum okkar, ferðirnar í bústaðinn við Apavatn, dagsferðin í Friðheima síðasta sumar með þér, mömmu og krökkunum, þegar þið mamma mættuð upp á fæðingardeild þegar Sóldögg fæddist og svo mætti lengi telja. Efst í huga mínum er þakklæti. Þakklæti fyrir að fá þig sem pabba. Þú varst svo góður og blíður en líka ákveðinn og sterkur. Ég trúi ekki ennþá að þú sért farinn og komir ekki aftur, að ég geti ekki bara hringt í þig. Þín síðustu ár voru þrautaganga en ekki kvartaðir þú. Pabbi, þú varst besti afinn, Sóldögg, Ýmir og Arnór sakna þín og skilja ekki af hverju þú ert ekki heima hjá ömmu. Ég veit að þú fylgist með þeim þar sem þú ert. Takk fyrir allt pabbi minn, við munum sakna þín. Við sjáumst aftur seinna.

Er það eins og við héldum á
himnum?

Ertu friðsæll? Ertu frjáls á ný?

Vermir sól þig með hlýjum
geislum?

Er þín þraut loksins fyrir bí?

Vona'þú dansir skýjum á.

Vona'þú syngir heiðum himni frá.

Vona'þú heyrir söng minn til þín.

Þitt ljós lifir enn og aldrei dvín.

(Íris Hólm Jónsdóttir)

Þín dóttir,

Kolbrún (Kolla).

Elsku Stebbi bróðir, nú ert þú farinn í sumarlandið. Þó að það sé erfitt að kveðja þig þá hlýnar mér að vita til þess að mamma, pabbi og Inga systir taka vel á móti þér.

Við bræðurnir höfum brallað ýmislegt saman í gegnum árin. Komandi úr stórum systkinahópi var ýmislegt brallað saman á Lyngbrekkunni. Við kunnum að skemmta okkur saman og mamma var einstaklega þolinmóð þegar kom að hugmyndaflugi okkar, eins og koddaslagurinn, þar sem fjaðrirnar fuku um allt og mamma þurfti að þrífa eftir okkur allar fjaðrirnar. Bíladellan var mikil hjá okkur bræðrum. Þú varst mikill áhugamaður um Ford-bíla og áttir allmarga í gegnum tíðina.

Við bræðurnir unnum mikið með föður okkar Ingólfi á yngri árum.

Tókum þátt í að smíða skipið „Hótel Víking“ undir leiðsögn pabba. Fengum í ófá skipti að sigla skipinu, sem var mjög minnisstætt. Í hugann kemur líka ferðin okkar til Osló þar sem við vorum að vinna og þú varst í námi samhliða. Við urðum heillaðir af Noregi og áttum frábærar stundir þar saman. Allar útilegurnar, veiðiferðirnar og ævintýrin með þér Stebbi minn munu seint gleymast. Gaman þótti okkur Dísu að geta farið með ykkur Möggu á okkar slóðir til Kaliforníu haustið 2018. Áttum gæðastundir saman.

Það var alltaf ævintýri að ferðast með þér. Þú varst svo skemmtilegur karakter, hjálpsamur, vildir öllum vel, frændrækinn og alltaf með myndavélina á lofti. Vildir ná öllum skemmtilegu augnablikunum. Þú stóðst þig vel í afahlutverkinu og varst mjög stoltur af börnum þínum og barnabörnum. Þú barðist hetjulega í gegnum veikindin þín og varst alltaf harður af þér og jákvæður.

Þín verður sárt saknað og minning um frábæran bróður lifir.

Elsku Magga, Kolla, Lára Kristín, Stefán og fjölskyldur, við fjölskyldan vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Hvíldu í friði elsku bróðir.

Þinn bróðir,

Páll Rúnar (Palli).

Það er erfitt að sætta sig við þá staðreynd að það sé komið að kveðjustund en það má ylja sér við þá tilhugsun að foreldrar okkar og Inga systir taki vel á móti Stebba.

Fyrstu ár ævi minnar var Stebbi í Noregi í arkitektanámi. Hann kom heim af og til og í eitt skiptið færði hann mér fallega dúkku sem ég nefndi eftir honum og var kölluð Stebba. Við Ingvi fórum með foreldrum okkar að heimsækja hann til Noregs. Stebbi gerði þessa ferð okkar afar minnisstæða. Við gistum um tíma í bjálkahúsi á undurfallegum stað við vatn og þar sáum við í fyrsta skipti íkorna og maríubjöllur sem Ingvi vildi ólmur reyna að kippa með heim. Það er sennilegt að þarna hafi sumarbústaðadraumur minn orðið til, því þarna var dásamlegt að vera. Sumarbústaðadraumurinn rættist síðar, einmitt með hjálp frá Stebba sem teiknaði hann. En í Noregi eldaði Stebbi handa okkur þann allra besta mat sem við Ingvi höfðum smakkað en það voru kjúklingavængir sem hann skrökvaði að okkur að væru froskalappir.

Stebbi hafði mikinn áhuga á ljósmyndun og átti ógrynni af myndum. Hann tók líka slides-myndir og hélt myndasýningu fyrir okkur fjölskylduna á samverustundum. Hann var líka duglegur að deila myndum með okkur eftir að hann fór að koma þeim á stafrænt form.

Þar sem hann var svo mikill bílakall, sérstaklega Ford-áhugamaður, verð ég að rifja upp eitt skiptið í Veiðivötnum þar sem hann var á Ford-bíl sem var afturhjóladrifinn og komst engan veginn upp bratta brekku við Litlasjó. Hann brá á það ráð að bakka upp alla brekkuna og þannig komst hann leiðar sinnar. Það var mikið hlegið að þessu og þetta er ein af þeim minningum sem við þreytumst ekki á að rifja upp á góðum stundum.

Hann var natinn í eldhúsinu og kenndi mér meðal annars að baka fléttubrauð þegar ég var unglingur. Í frænkuhittingum dætra okkar frétti ég af ljúffengum mat sem Stebbi hafði töfrað fram fyrir þær stöllur sem ég var hvött af dótturinni til að læra af honum bróður mínum að gera.

Stebbi bróðir var einstaklega barngóður og hann lék og spilaði við okkur systkinin og ég man eftir að hafa hugsað þegar ég var yngri hvað börnin hans yrðu heppin með pabba og það voru þau svo sannarlega, öll þrjú. Stebbi kynntist einstökum lífsförunaut, henni Möggu, sem hefur sömuleiðis yndi af börnum og hefur hún helgað líf sitt vinnu með börnum. Missir þinn er mikill, Magga mín. Þegar barnabörnin þeirra Möggu komu í heiminn reyndist hann þeim góður afi og naut þess að vera með þeim en það er dapurt að hugsa hvað þau fengu stuttan tíma með honum.

Ekki hvarflaði að mér þegar ég heimsótti elsku Stebba bróður á spítalann um daginn að þetta væri síðasta skipti sem ég sæi hann. Þetta var svo góður dagur og hann frekar hress miðað við aðstæður. Læknar voru farnir að nefna heimferð og ég fór í að athuga hvort hægt væri að fá hjálpartæki til að auðvelda honum aðgengi upp tröppurnar heima.

Kveð ég yndislegan bróður með þakklæti.

Innilegar samúðarkveðjur, elsku Magga, Kolla, Lára, Stefán, tengdabörn, barnabörn og fjölskylda.

Fanney
Ingólfsdóttir.

Stefán Þ. Ingólfsson var bekkjarfélagi okkar til nokkurra ára. Við vorum í fornmáladeild svonefndri í MR sem stundum var kölluð latínudeild og útskrifuðumst þaðan 1972. Stefán lagði fyrir sig arkitektúr og vann lengst af við þá grein. Jákvæður var hann jafnan á skólaárunum, yfirlætislaus, brosmildur, prúður og stilltur vel, lagði aldrei annað en gott til mála. Hélt sig þó fremur til hlés þegar athafnir okkar félaga vildu einkennast af heldur miklum látum. Stefán var sá okkar sem best auga hafði fyrir flottum bílum. Kannski var það helst hönnun þeirra sem fangaði hug hans.

Við minnumst Stefáns með mikilli hlýju og sendum Margréti, börnum þeirra og barnabörnum samúðarkveðjur. Blessuð sé minning okkar kæra bekkjarfélaga og vinar.

Fyrir hönd bekkjarfélaga úr 6. B,

Ingvi Þór.