Sigurður bendir á að eftirspurn eftir flugsætum í Evrópu breytist um 31% á milli árstíma.
Sigurður bendir á að eftirspurn eftir flugsætum í Evrópu breytist um 31% á milli árstíma. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Flugfélaginu Play barst heldur betur góður liðsauki á dögunum þegar Sigurður Örn hóf þar störf. Hann býr að mikilli reynslu úr fluggeiranum og mun vafalítið setja mark sitt á reksturinn á komandi árum

Flugfélaginu Play barst heldur betur góður liðsauki á dögunum þegar Sigurður Örn hóf þar störf. Hann býr að mikilli reynslu úr fluggeiranum og mun vafalítið setja mark sitt á reksturinn á komandi árum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Play er í dag með tíu flugvélar í rekstri, vel fjármagnað og allt til staðar fyrir næstu skref. Félagið þarf að stækka og þróast. Kostnaður þarf að vera alþjóðlega samkeppnishæfur og þá verða stefnumarkandi ákvarðanir að vera réttar – og rétt tímasettar.

Flugrekstur er í eðli sínu mjög kvikur og fá flugfélög í heiminum sem skila miklum arði til eigenda sinna árlega. Munur á eftirspurn flugsæta í farþegaflugi í Evrópu frá maí til október annars vegar og nóvember til apríl hins vegar er um 153 milljónir flugfarþega, eða 31% munur eftir árstíma. Það er því mjög mikilvægt að viðskiptamódel flugfélaga í Evrópu þoli miklar sveiflur vel.

Eigendur, stjórnendur og starfsfólk Play hafa gert mjög vel með því að slíta barnsskónum í sérlega erfiðu rekstrarumhverfi. Líklega hafa fá flugfélög fengið meiri eldskírn: Kórónuveirufaraldurinn og jarðhræringar á jarðhræringar ofan í uppbyggingarfasa!

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Nýlega var ég á Annual Leaders Meeting hjá ASG; mjög gagnlegt yfirlit yfir stöðu, horfur og þróun flugrekstrar í heiminum. Ég bý vel að því að hafa starfað með gríðarlega öflugu fólki í flugrekstri, og ég held að ég sé með verðmæta – og talsvert öðruvísi reynslu en flestir Íslendingar – af alþjóðlegum flugrekstri.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Með því að vera í stöðugum samskiptum við fólk sem er klárara, reyndara og hæfara en ég. Og með því að spyrja spurninga og vilja halda áfram að læra.

Hugsarðu vel um líkamann?

Hugsa er líklega lykilorð hér. Framkvæmdin hefur verið fyrir neðan meðallag. Er samt búinn að vera duglegur í jóga eftir áramótin. Annars er það badminton, hestamennska, göngur, golf, fótbolti þegar skrokkurinn leyfir.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Það gæti verið gaman að bæta við sig hagfræði eða jafnvel nördast svolítið í sögu. Það er gaman að pæla í því hvert við erum að stefna, og hvaða stefna er best – ásamt því að átta sig á því hvaðan við erum að koma og af hverju.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Í flugrekstrarumhverfi Play verður spennandi að sjá hvaða áhrif nýjar, langdrægari og sparneytnari flugvélar munu hafa á hið íslenska „hub and spoke“-kerfi. Líklega mun landslagið breytast umtalsvert. En flöskuhálsar í framleiðslu nýrra flugvéla og uppsöfnuð þörf úr faraldrinum munu líka áfram hafa mikil áhrif á flugrekstur. Það er mikilvægt að geta aukið og dregið úr framboði hratt, án langtímafjárhagsskuldbindinga.

Sjálfum finnst mér svo stjórnvöld ekki gera nándar nærri nóg til að markaðssetja landið. Ísland er í stöðugri samkeppni um ferðamenn og ég óttast að við séum að dragast aftur úr nágrannaþjóðum, sem setja mun meiri fjármuni í að markaðssetja sitt land. IKEA er ekki að draga úr sinni markaðssetningu og þó þekkja flestir í heiminum IKEA. Ferðaþjónusta er ein stærsta atvinnugrein Íslands og við verðum að tryggja greininni vaxtarmöguleika.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Það er verðugt verkefni að einfalda íslenskt lagaumhverfi og það væri til bóta að almenn skynsemi fengi meira vægi við setningu laga en nú er. „Gullhúðunarárátta“ íslenskra þingmanna er svo sérkapítuli út af fyrir sig og alveg óþolandi.

Ævi og störf:

Nám: B.Ed. frá KHÍ 1996; Executive MBA (Valedictorian) frá Katz Graduate School of Business, University of Pittsburgh, 2006.

Störf: Framkvæmdastjóri rekstrar (e. COO) hjá Creditinfo Group 2002 til 2007; framkvæmdastjóri erlendrar viðskiptaþróunar hjá Spron 2007 til 2009; forstjóri og stjórnarformaður Ilsanta UAB 2009 til 2018; forstjóri GMR og Hringrásar 2014 til 2016; stjórnarmaður, forstjóri og stjórnendaráðgjafi hjá dótturfyrirtækjum Avia Solutions Group (ASG) 2016 til 2022; forstjóri og stjórnarformaður Bláfugls 2020 til 2022; aðalráðgjafi stjórnarformanns ASG 2022 til 2024; fr.kv.stj. viðskiptaþróunar hjá Play frá 2024.

Áhugamál: Hestamennskan er mínar ær og kýr. Hún þroskar og eflir mann í að hlusta á þá sem ekki geta tjáð sig með tali. Fótbolti kennir liðsanda – hvernig vel samsett lið getur sigrast á betri einstaklingum og áskorunum ef liðsheildin er góð. Svo hefur golfið verið að kenna mér auðmýkt síðastliðin ár. Ég er í eðli mínu sveitamaður (eins og við öll) og finnst gaman að brasa þar, verða drullugur og líkamlega þreyttur. Svo hef ég brennandi áhuga á mannlegri hegðun og breytni. Hafði um stund áhuga á stjórnmálum en það bráði af mér, eins og flestu venjulegu fólki, enda ákaflega erfitt að knýja fram breytingar í gegnum íslensk stjórnmál.

Fjölskylduhagir: Ég er hamingjusamlega giftur Margréti Stefánsdóttur og við erum með fjögur börn á aldrinum 13-25 ára á heimilinu – og einn 9 ára Samoyed, Samma. Hundurinn er með flesta Instagram-fylgjendur af okkur öllum, líklega til samans.