Ágústa Guðmundsdóttir er meðstofnandi íslenska líftæknifyrirtækisins Zymetech sem sameinaðist Enzymatica árið 2016.
Ágústa Guðmundsdóttir er meðstofnandi íslenska líftæknifyrirtækisins Zymetech sem sameinaðist Enzymatica árið 2016. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Líftæknifyrirtækið Enzymatica, sem byggir meðal annars á íslensku hugviti, er þátttakandi í alþjóðaheilbrigðisherferð nú í aðdraganda alþjóðaheilbrigðisþingsins sem fram fer í lok maí í Genf í Sviss

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Líftæknifyrirtækið Enzymatica, sem byggir meðal annars á íslensku hugviti, er þátttakandi í alþjóðaheilbrigðisherferð nú í aðdraganda alþjóðaheilbrigðisþingsins sem fram fer í lok maí í Genf í Sviss. Um er að ræða röð heimildarmynda sem skýra frá leiðandi nýsköpun innan heilbrigðisgeirans, þar sem stjórnendur fyrirtækja fá tækifæri til að segja frá lausnum er varða alþjóðlegar heilbrigðisáskoranir. Eru heimildarmyndirnar meðal annars birtar á vef Reuters.

Heimildarmyndin um Enzymatica er að hluta til tekin upp á Íslandi enda er íslenskt hugvit hjartað í starfsemi fyrirtækisins. Myndin opnar á því að íslenska sjómanninum Jóhannesi Stefánssyni er fylgt eftir við störf sín. Hann lýsir því hvernig sjómennskan er honum í blóð borin og hversu harðneskjuleg íslensk sjómennska getur verið.

Byggir á íslensku hugviti

Í myndbandinu er sagt frá því að hér á árum áður hefði það vakið athygli íslenskra vísindamanna hversu góð húð væri á höndum íslenskra sjómanna, ólíkt því sem búast mætti við í ljósi þess að þeir slægðu fisk berhentir í kulda og erfiðum aðstæðum. Vísindamenn í Háskóla Íslands komust að því að slógið í Norður-Atlantshafsþorskinum, sem jafnan var kastað fyrir borð, var ríkt af ensími sem kallast trypsín. Virkni trypsínsins reyndist mikil við dæmigert hitastig mennskrar húðar og slímhúðar. Kallaði það á frekari rannsóknir sem leiddu til þróunar á vörum á borð við græðandi húðsmyrslið Pensím og munnúðans ColdZyme gegn sýkingum í efri öndunarfærum.

Munnúðinn er blanda af glýseróli og fyrrnefndum trypsínum. Úðinn myndar verndarhjúp í koki sem grípur veirur og kemur í veg fyrir að þær sýki frumur og fjölgi sér. Þannig dregur úðinn verulega úr veirumagni í líkamanum ef hann er notaður snemma við sýkingu og minnkar þannig, eða kemur í veg fyrir sjúkdómseinkenni, enda verður veirumagnið viðráðanlegt fyrir líkamann þökk sé verndarhjúpnum. Rannsóknir hafa sýnt að úðinn virkar vel gegn inflúensu og kvefi.

Pensím og ColdZyme voru þróuð af íslenska líftæknifyrirtækinu Zymetech, sem sameinaðist Enzymatica árið 2016. Zymetech var stofnað 1999 utan um rannsóknir vísindamannanna Ágústu Guðmundsdóttur og Jóns Braga Bjarnasonar og samstarfsmanna þeirra hjá Háskóla Íslands. Rannsóknir, þróun og ensímframleiðsla úr þorskinum fer áfram fram á Íslandi.

Háleit markmið

Enzymatica var í síðasta mánuði eitt fyrsta evrópska lækningavörufyrirtækið til að hljóta uppfærða CE-vottun á ColdZyme í samræmi við breytingar á Evrópureglugerð um lækningavörur (MDR). Fyrirtækið hefur unnið hörðum höndum að vottuninni undanfarin fimm ár, enda er hún forsenda fyrir markaðsleyfi vörunnar.

Sala Enzymatica nam 51 milljón sænskra króna í fyrra, eða tæpum 700 milljónum íslenskra króna. Markmið fyrirtækisins er að selja fyrir minnst 600 milljónir sænskar króna fyrir árslok 2026.

Vottun í hús

Í mars sl. varð Enzymatica eitt fyrsta evrópska lækningavörufyrirtækið til þess að fá nýja CE-vottun í takt við breytingar á Evrópureglugerð um lækngingavörur (MDR) vegna ColsZyme. Fyrirtækið hefur unnið hörðum höndum að endurskráningunni undanfarin fimm ár enda er vottunin forsenda fyrir áframhaldandi markaðsleyfi.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir