Lagasetning stjórnvalda vegna slita á ÍL-sjóði gæti dregið dilk á eftir sér.
Lagasetning stjórnvalda vegna slita á ÍL-sjóði gæti dregið dilk á eftir sér. — Morgunblaðið/Sverrir
Lánasjóður sveitarfélaga (LS) telur í umsögn sinni við frumvarp stjórnvalda um slit á ógjaldfærum opinberum aðilum að lögin gætu verið til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á möguleika opinberra stofnana og fyrirtækja sem undir lögin falla til að fjármagna sig á markaði

Lánasjóður sveitarfélaga (LS) telur í umsögn sinni við frumvarp stjórnvalda um slit á ógjaldfærum opinberum aðilum að lögin gætu verið til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á möguleika opinberra stofnana og fyrirtækja sem undir lögin falla til að fjármagna sig á markaði.

Tilefnið er boðuð lagasetning stjórnvalda um reglur um réttarstöðu þeirra sem eiga kröfur á hendur opinberum aðilum í slitameðferð, sem á til að mynda við fjárhagsvanda og yfirvofandi gjaldþrot Íbúðalánasjóðs (ÍL-sjóðs), sem ViðskiptaMogginn fjallaði nýlega um.

Heftir aðgengi að markaði

„Ef fjárfestar vilja kaupa skuldabréf sem er gefið út af einhverjum þeim aðilum sem falla undir gildissvið laganna þurfa þeir að framkvæma sérstaka skoðun á því. Til að mynda þurfa fjárfestarnir að afla sér lögfræðiálits um þau áhrif sem lögin kunni að hafa á skuldabréfin. Af því leiðir að lagasetningin mun hefta aðgengi opinberra stofnana og fyrirtækja að markaði, sem vilja eða verða að fjármagna sig með því að gefa út skuldabréf,“ segir Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri LS, í samtali við ViðskiptaMoggann, spurður nánar um neikvæðu áhrifin.

Aðspurður bendir Óttar á fyrirhugaðar framkvæmdir Sorpu, sem er í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið þarf á næstu árum að ráðast í byggingu á nýrri sorpbrennslustöð fyrir um 30 milljarða króna, sem kemur til með að vera fjármögnuð að hluta til með skuldabréfaútgáfu.

Vilja ekki falla undir lögin

Óttar tekur undir gagngrýni Seðlabankans, sem ViðskiptaMogginn fjallaði um á dögunum, um að lagfæra þurfi frumvarpið á þann veg að bankinn verði undanskilinn gildissviði laganna til að tryggja að aldrei sé neinn möguleiki á því að bankanum verði slitið með þeim hætti sem kveðið er á um í frumvarpinu.

„Í ljósi þess að stjórnvöld ætli sér að búa svo um hnútana að lögin eigi að gilda um allar opinberar stofnanir og fyrirtæki, sem eru rekin með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga, væri það gagnlegt ef stjórnvöld gerðu nákvæmlega grein fyrir hvaða aðilar ættu að falla undir gildissvið laganna, þar sem Seðlabankinn fellur undir gildissviðið sem útilokar ekki að hann gæti orðið gjaldþrota. Af því má draga þá ályktun að önnur opinber fyrirtæki eins og ÁTVR, Landspítalinn, RÚV og fleiri stofnanir gætu einnig verið tekin til gjaldþrotaskipta. Þarna eru því aðilar sem vilja alls ekki falla undir gildissvið laganna og hafa ekki beðið um það,“ útskýrir Óttar.

Fjármögnun innviðaverkefna

Óttar bendir einnig á möguleg áhrif sem lögin gætu haft á samvinnuverkefni í innviðafjárfestingum, svonefnd PPP-verkefni ( e. Public Private Partnership). Það eru innviðafjárfestingar sem ríkið og einkaaðilar standa saman að, eins og brúarsmíði eða gangagerð.

„Hvernig eiga einkaaðilarnir að treysta ríkinu til að eiga og reka félag um innviðafjárfestingar? Ríkið ábyrgist stundum framkvæmdina sem einkaaðilar lána inn í. Þegar ríkið ákveður að setja lög til þess að losna undan skuldbindingum sínum eins og með ÍL-sjóð er ekkert sem segir að ríkið geri það ekki aftur ef það telur að fjárfestingin standi höllum fæti,“ segir Óttar að lokum.