Fallout Lucy (Ella Purnell) fer bláeygð úr hvelfingu 33 eftir stríðið.
Fallout Lucy (Ella Purnell) fer bláeygð úr hvelfingu 33 eftir stríðið. — Ljósmynd/Amazon Prime
Streymisveitan Amazon Prime hóf nýlega sýningar á sjónvarpsþáttunum Fallout, en þeir eru byggðir á samnefndum tölvuleikjum, sem gerast í framtíð þar sem kjarnorkustríð lék mannkynið grátt árið 2077

Stefán Gunnar Sveinsson

Streymisveitan Amazon Prime hóf nýlega sýningar á sjónvarpsþáttunum Fallout, en þeir eru byggðir á samnefndum tölvuleikjum, sem gerast í framtíð þar sem kjarnorkustríð lék mannkynið grátt árið 2077. Leikirnir voru mjög vinsælir þegar undirritaður var yngri, og var því kannski aldrei að sökum að spyrja að þeir myndu enda á hvíta tjaldinu eða sjónvarpsskjánum.

Í tölvuleikjunum náði hluti mannkynsins að lifa af kjarnorkustríðið með því að hafast við í hvelfingum djúpt ofan í jörðu sem stórfyrirtækið Vault-Tec lét hanna. Venjulegast kemur hins vegar eitthvert babb í bátinn sem rekur einhvern meðlim hvelfingarinnar upp á yfirborðið, en þar kemur í ljós að þeir sem eftir urðu ofanjarðar hafa myndað sitt eigið samfélag í kjölfar gjöreyðingarinnar, sem oft stangast hressilega á við það samfélag sem þekktist í hvelfingunum.

Aðstandendur þáttanna eiga mikið hrós skilið að mínu mati fyrir hversu vel þeir hafa náð að fanga anda tölvuleikjanna, á sama tíma og þættirnir eru vel gerðir með áhugaverðum söguþræði. Ein þekktasta lína leikjanna hljóðar einmitt upp á að „stríð breytist aldrei“, en þema bæði þáttanna og leikjanna er í raun að það er mannkynið sjálft sem tekur litlum breytingum í breyskleika sínum, þótt stökkbreytt sé á yfirborðinu.