Ásgeir Þormóðsson fæddist 20. september 1945. Hann lést 5. apríl 2024. Útför hans fór fram 23. apríl 2024.

Elsku Geiri minn. Hér er kveðjan mín sem barst ekki í tæka tíð. Ég vil að þú vitir að þú átt alltaf stað í mínu hjarta. Þú komst með gleði, kraft og glæsileika inn í líf mitt í hvert sinn sem þið Vala hittuð foreldra mína. Þú varst eins og stormsveipur sem alla athygli og hylli fékk hvar sem þú varst staddur. Þér fylgdi alltaf þessi stemningskraftur sem sogaði allt til sín með undirleik og hlátrasköllum. Mikið sem mér fannst gaman að hlusta á frásagnir þínar frá hversdagslegu amstri sem þú sveipaðir ljóma á hástemmdu sögusviði. Eldhugur varstu og hjartað oft logandi heitt. Því fékk ég að kynnast í gegnum það sem okkur er svo kært og tengdi okkur saman en það er tónlistin. Þú varst svo hrifnæmur á fegurðina í tónunum og þrátt fyrir píanóglamrið og feilnóturnar þá heyrðirðu tungumál hjartans þar sem ég sat óörugg við píanóið. Þú kenndir mér hvað það er að sameinast á tónsviðinu þar sem tilfinningarnar fá rödd og andinn frelsi. Þú spilaðir á hljóðfærið eins og þú hefðir aldrei gert annað. Alltaf þegar þú komst, frá því ég var hrokkinhærð smástelpa, var gaman. Tónlistin lýgur ekki og eitt er víst að þú, Geiri, hefur hjartalag sem snert hefur líf mitt og sál svo aldrei gleymi. Ég kveð þig í minningunni með laginu okkar, Only love can make a memory, og sé þig svo um síðir þegar minn tími er kominn til að fara heim. Vertu sæll Geiri minn, þangað til.

Áslaug Einarsdóttir.