Ég er ekki kominn með hið fullkomna svar en eftir að hafa leyft þessari pælingu að velkjast um í huga mér síðustu mánuði er ég sannfærður um að ranga svarið sé að reyna að segja unglingnum Steinari Þór hvað einhver miðaldra karl í Kópavogi, sem ég sannarlega væri fyrir honum, sé að gera í dag.

Atvinnulíf

Steinar Þór Ólafsson

Samskiptafræðingur

Barnabækur Richards Scarrys um dýrin í Erilborg hafa gengið kynslóða á milli síðustu 60 árin. Ég skoðaði þær í þaula í æsku og nú eru þær aftur orðnar vinsælar á náttborðinu hjá börnunum mínum. Bækurnar um íbúa Erilborgar eru margar og fjölbreyttar en fjalla í grunninn um daglegt líf og störf dýranna sem fást við sömu verkefni og við mannfólkið. Ég veit ekki hvort þessi flokkur barnabóka sé sérstaklega skilgreindur en bækur Richards Scarrys eru einar af ótalmörgum sem eiga að gefa börnum innsýn og innblástur um hvað hægt sé að fást við þegar maður verður fullorðinn. En slíkar bækur og önnur fræðsla hefur sennilega sjaldan skipt meira máli en núna þegar skólaforðun fer vaxandi og námsárangur íslenskra nemenda dvínandi í alþjóðlegum samanburði.

Nýlega var hleypt af stokkunum nýju verkefni þessum málum til stuðnings sem nefnist Stækkaðu framtíðina í umsjón Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Verkefnið gengur út á að fullorðið fólk úr öllum kimum samfélagsins skrái sig sem sjálfboðaliða til að segja grunnskólanemendum frá starfi sínu og þannig veita þeim (vonandi) innblástur til að verða það sem þau langar til og finna fyrir auknum áhuga og tilgangi í námi sínu. Yfirskrift herferðarinnar til að fá okkur fullorðna fólkið til að skrá sig sem sjálfboðaliða er „Vertu hvatningin sem þú hefðir þurft“ og sú setning hefur setið í mér allt síðan verkefnið var sett af stað í byrjun árs.

Ég var einn af þessum nemendum sem voru kjöldregnir í gegnum skólakerfið og stend í mikilli þakkarskuld við foreldra mína en ekki síður kennara í Hvassaleitisskóla og Verzlunarskólanum sem tóku að sér hið vanþakkláta starf að koma mér í gegnum hverja önnina á fætur annarri. Því hef ég mikið velt fyrir mér hvaða ráð ég myndi veita sjálfum mér fengi ég að heimsækja mig í skólann þegar ég var á fermingaraldri til þess að reyna að koma mér í gírinn.

Ég er ekki kominn með hið fullkomna svar en eftir að hafa leyft þessari pælingu að velkjast um í huga mér síðustu mánuði er ég sannfærður um að ranga svarið sé að reyna að segja unglingnum Steinari Þór hvað einhver miðaldra karl í Kópavogi, sem ég sannarlega væri fyrir honum, sé að gera í dag.

Um ráðleggingar gilda svipuð lögmál og um „best fyrir“-dagsetningar á matvælum. Hvorugt er yfirleitt ónýtt þegar komið er fram yfir þessa dagsetningu en verður frekar skrítið og súrnar oft. Svo að þrátt fyrir að töluvert lengra sé þangað til ég lýk minni starfsævi en frá því að ég var unglingur ólst ég samt upp fyrir tíma t.d. snjallsíma og samfélagsmiðla sem störf mín í dag hverfast mikið í kringum. Sennilega er því lítil hjálp í að reyna að mótívera mig um hvaða spennandi hlutir bíða manns í framtíðinni því þau ráð hafa sennilega ekki 20 ára „best fyrir“-dagsetningu. Eina heilræðið með góðu geymsluþoli er því að hugsa einfaldlega ekki of mikið um framtíðarstörfin. Enda sýndu 8 af hverjum 10 þeirra 400 manns sem svöruðu könnun minni á Linkedin að þau væru ekki að fást við það í dag sem þau töldu sig ætla að gera í framtíðinni þegar þau voru 15 ára.

Hvort sem þú endar á að vinna við eitt af störfunum sem finna má í bókum Richards Scarrys eða annað það sem framtíðin ber í skauti sér skiptir því mestu máli að læra að tileinka sér nýja þekkingu því að sú færni er tímalaus. Þannig stenstu ysinn og þysinn í því sem verður okkar eigin Erilborg í framtíðinni.