Hádegisfundur He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, flutti erindi.
Hádegisfundur He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, flutti erindi. — Morgunblaðið/Eggert
Baldur Arnarson baldura@mbl.is He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, segir viðræður standa yfir um beint flug til Íslands. Rætt sé um að það geti orðið að veruleika á næstu þremur til fimm árum en hann vilji gjarnan hraða því ferli. Nefndi hann Air China sérstaklega í þessu efni.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, segir viðræður standa yfir um beint flug til Íslands. Rætt sé um að það geti orðið að veruleika á næstu þremur til fimm árum en hann vilji gjarnan hraða því ferli. Nefndi hann Air China sérstaklega í þessu efni.

Þetta kom fram á hádegisverðarfundi í kínverska sendiráðinu í Reykjavík í gær. Hófst hann með því að He sendiherra hafði framsögu um stöðu efnahagsmála í Kína. Tilefnið var að leiðrétta ýmsar ætlaðar rangfærslur um kínverskt efnahagslíf. He vakti athygli á því að kínverska hagkerfið hefði vaxið mikið á síðustu árum. Eftir því sem þjóðarframleiðslan ykist munaði meira um hvert prósentustig í hagvexti. Þótt hægt hefði á hagvexti væri hagkerfið að stækka mikið ár hvert.

Upp virðiskeðjuna

Sendiherrann ræddi einnig hvernig kínversk stjórnvöld legðu vaxandi áherslu á virðisaukandi framleiðslu í stað mannaflafreks iðnaðar, samhliða hækkandi tæknistigi í landinu. Þá meðal annars með smíði rafbíla og þjarka. Jafnframt setti hann áform um beint flug milli Kína og Íslands í samhengi við fjölda kínverskra ferðamanna á Íslandi og taldi fullvíst að fyrri met myndu falla með greiðari flugsamgöngum. Hægagangur við afgreiðslu á vegabréfsáritunum í sendiráði Íslands væri flöskuháls.

Þá sagði hann unnið að endurbótum á fríverslunarsamningi Kína og Íslands. Með tíð og tíma gæti Ísland orðið mikilvægur staður fyrir umskipun á kínverskum vörum til Evrópu og sú starfsemi m.a. kallað á uppbyggingu vöruhúsa hér á landi.

Vakti athygli í Kína

He vakti svo með velþóknun athygli á ummælum Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur Reykfjörð utanríkisráðherra á fundi Atlantshafsráðsins í Vilnius í júlí í fyrra og sýndi klippu af fundinum. Ummælin hefðu vakið athygli í Kína. Þórdís Kolbrún var þá í pallborðsumræðum ásamt m.a. bandaríska diplómatanum Sherri Goodman sem sagði það áskorun fyrir NATO og Bandaríkin að verða ekki of háð Kína og ýmsum ríkjum, ekki síst Afríkuríkjum, í orkuskiptunum fram undan. Mörg lykilefnin fyrir nýja orkutækni væru unnin í Kína og sótt í námur Afríku.

Þórdís Kolbrún sagðist í kjölfarið taka undir margt sem sagt var. Rætt væri um hversu háð Vesturlönd væru orðin Kína og að draga þyrfti úr áhættu í því samhengi (e. de-risking). Hins vegar væri ekki skýrt hvað átt væri við með þeirri hugtakanotkun.