Læk Höfundarnir segjast virkilega ánægðir með bókina sem einnig er fáanleg sem hljóðbók á Hljóðbókasafninu.
Læk Höfundarnir segjast virkilega ánægðir með bókina sem einnig er fáanleg sem hljóðbók á Hljóðbókasafninu. — Morgunblaðið/Eggert
Barnabókahöfundarnir Gunnar Helgason og Bergrún Íris Sævarsdóttir fagna útgáfu smásagnasafnsins Læk í dag en um er að ræða 18 smásögur sem unnar eru í samstarfi við nemendur á mið- og unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Barnabókahöfundarnir Gunnar Helgason og Bergrún Íris Sævarsdóttir fagna útgáfu smásagnasafnsins Læk í dag en um er að ræða 18 smásögur sem unnar eru í samstarfi við nemendur á mið- og unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar. Þá fer útgáfuhófið sjálft fram á Thorsplani í Hafnarfirði og hefst það kl. 09 en það verður haldið í tveimur hollum þar sem von er á um 3.000 manns. Blaðamaður settist niður með höfundunum til að forvitnast nánar um þetta lestrarverkefni sem er hugsað til að efla lestur og lesskilning grunnskólabarna.

„Það var Kristín María Thoroddsen, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sem fékk þessa hugmynd og fór með hana inn á skólaskrifstofuna. Þau vildu fá hafnfirska höfunda til að semja lestrarhvetjandi bók í samstarfi við nemendur skólanna og í framhaldinu var talað við okkur Bergrúnu,“ segir Gunnar inntur eftir því hvernig hugmyndin að bókinni hafi kviknað.

Vildu virkja sem flesta

Fór verkefnið þannig fram að höfundarnir tveir sömdu níu smásögur hvor, Gunnar fyrir unglingastigið og Bergrún Íris fyrir miðstigið. „Allir krakkar á mið- og unglingastigi í Hafnarfirði þurftu að skrifa niður hugmynd að söguþræði, sögupersónu og sögustað. Sumir skrifuðu bara eina línu eða eitt orð en aðrir skrifuðu mjög nákvæma söguþræði. Síðan voru allar hugmyndirnar settar í pott og svo drógum við í beinni útsendingu,“ útskýrir Gunnar. „Já, og það lýðræðislega og fallegasta við þetta var að við urðum að skrifa um það sem kom upp úr pottinum, við gátum ekki valið hvað okkur fannst best,“ bætir Bergrún Íris við. Í framhaldinu heimsóttu þau svo skólana þar sem þau ræddu við nemendurna. „Það gerðum við til að segja hvar við værum stödd og hvað við værum að pæla. Í mínu tilfelli kallaði ég eftir smá aukahugmyndum, ef ég var til dæmis eitthvað fastur með söguþráðinn eða að velta nöfnunum fyrir mér. Mesta umræðan skapaðist oft í kringum nöfnin því þau stungu gjarnan upp á samnemendum sínum sem vildu kannski ekkert endilega vera með. Þannig að þá þurfti að finna ný nöfn og ég endaði á því að hafa svo til engin nöfn úr skólunum,“ segir Gunnar.

Þá segja þau heimsóknirnar í skólana hafa verið hreint út sagt stórkostlegar og orðið til þess að sögurnar fengju meiri dýpt. „Ég fór einmitt inn í skólana og vann að persónusköpuninni með börnunum út frá sögupersónunöfnunum. Ég spurði til dæmis: Hver er uppáhaldsmaturinn hans? Á hann gæludýr? Hvernig fötum klæðist hann? Þá fengu miklu fleiri að hafa eitthvað að segja um söguna,“ segir Bergrún Íris og tekur fram að börnin séu í raun meðhöfundar. „Akkúrat, og þegar sögurnar voru tilbúnar sendum við þær í skólana og hver skóli las sína sögu. Krakkarnir gátu svo í framhaldinu sent inn teikningar við sögurnar þannig að myndirnar í bókinni eru eftir krakkana í Hafnarfirði,“ bætir Gunnar við.

Börn elska að lesa upp fyrir sig

Spurð að því hvort einhver munur hafi verið á nálguninni að verkefninu á milli skólastiga segir Bergrún Íris svo ekki vera. „Nei, hann var merkilega lítill. Miðstigið er kannski svolítið ófeimið enn þá en feimnin á það til að kikka inn eftir 7. bekk, eða hvað finnst þér?“ spyr hún og lítur á Gunnar sem viðurkennir hins vegar að hafa lent í smá vandræðum. „Ég hef aldrei skrifað hreinræktaða unglingasögu áður og þarna þurfti ég að skrifa níu unglingasögur sem áttu að ganga upp í bók með miðstigssögum. Ég þurfti því að endurskrifa tvær sögur, eina sem ég var byrjaður á og eina sem ég var búinn með því hún var ekki alveg við hæfi,“ segir hann og skellihlær.

„Krakkar elska samt að lesa upp fyrir sig og þess vegna eru sögurnar alveg jafn spennandi og hræðilegar því ég veit alveg hvað miðstigið þolir. Þau þola nánast allt og við erum oft að vanmeta lesendur alveg rosalega og gleymum því að við vorum kannski sjálf að lesa Stephen King þegar við vorum unglingar eða þá að langamma var að lesa Grimms-ævintýrin og þau voru miklu blóðugri en þau eru í dag,“ segir Bergrún Íris. „Já, og sögurnar eftir H.C. Andersen líka,“ skýtur Gunnar inn í. „Einmitt, þetta er allt subbulegur hryllingur,“ segir Bergrún Íris svo við skellum öll upp úr.

„Ekkert um okkur án okkar“

Innt eftir mikilvægi verkefnisins segja þau gríðarlega þörf á að efla lesskilning barna og auka áhuga þeirra á lestri. „Ég held að eins og í svo mörgu þá sé þetta hugtak „ekkert um okkur án okkar“ rosalega mikilvægt. Við erum alltaf að hugsa hvað sé börnunum fyrir bestu án þess að tala við þau en loksins í þessari bók er hreinlega verið að biðja börnin um að koma að borðinu og skrifa með okkur. Þannig að ég held að það hljóti að vera stórkostleg breyting,“ segir Bergrún Íris og Gunnar tekur undir þau orð. „Það eiga allir eftir að lesa þessa bók í Hafnarfirði og þetta eru sögur sem við vitum að þau vilja lesa því þetta er viðfangsefni sem þau völdu. Svo má ekki gleyma því að hver einasta barnabók er lóð á vogarskálarnar. Ef það er eitthvað í þeim sem þeim finnst skemmtilegt eða þau tengja við, þá er það alltaf til góðs.“

Segjast þau fyrst og fremst gríðarlega þakklát öllu teyminu sem kom að bókinni. „Þar ber að nefna læsisfræðing verkefnisins, Bjarteyju Sigurðardóttur, sem hélt okkur svolítið innan girðingar þegar við vorum að hlaupa of langt. Svo fær Hafnarfjarðarbær að sjálfsögðu hrós fyrir að kýla á þetta verkefni sem og Simmi Breiðfjörð fyrir gríðarlega flotta bókarkápu.“ Bæta þau því við að lokum að útgáfudagurinn sé engin tilviljun. „Við, Kristín María og Bjartey ákváðum að velja þennan útgáfudag vegna þess að bók er besta sumargjöfin. Níutíu prósent barna fara í frí í bústað, í tjaldútilegu eða til útlanda svo munið almennt að nesta börn með bókum. Sjáið til þess ávallt og í öllum aðstæðum að þau séu með bók meðferðis í töskunni.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir