Jóhann Ágúst Hansen stýrir Gallerí Fold og hefur átt aðkomu að listaverkamarkaðnum í þrjá áratugi. Hann er bjartsýnn á markaðinn sem fyrr.
Jóhann Ágúst Hansen stýrir Gallerí Fold og hefur átt aðkomu að listaverkamarkaðnum í þrjá áratugi. Hann er bjartsýnn á markaðinn sem fyrr.
„Stundum er sagt að listaheimurinn sé svolítill kanarífugl. Við finnum fyrir því þegar fólk fer að draga saman. Þetta eru ekki lífsnauðsynjar. Ef þú hugsar um vextina sem eru í dag. Þú ert bara með miðlungs fjölskyldu sem hefur eitthvað aðeins umfram

„Stundum er sagt að listaheimurinn sé svolítill kanarífugl. Við finnum fyrir því þegar fólk fer að draga saman. Þetta eru ekki lífsnauðsynjar. Ef þú hugsar um vextina sem eru í dag. Þú ert bara með miðlungs fjölskyldu sem hefur eitthvað aðeins umfram. Fólk hefur kannski 100 þúsund krónur aukalega sem það getur notað í það sem það vill, t.d. keypt sér eitt listaverk á ári. Þetta er allt i einu horfið í vexti. Sá markaður hefur breyst mjög mikið.“

Þetta segir Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri Gallerís Foldar. Hann hefur komið að rekstrinum í þrjá áratugi en það var tengdamóðir hans, Elínbjört Jónsdóttir, sem stofnaði fyrirtækið árið 1990.

Hann segir að ákveðinn hluti markaðarins hafi orðið fyrir miklum áhrifum af völdum vaxtastigsins en kaupendur að dýrustu verkunum á markaðnum virðist ekki vera undir eins miklum áhrifum af stöðunni í hagkerfinu. Hann segir hins vegar að fleiri þættir hafi áhrif.

„Við finnum mikið fyrir því þegar það er óróleiki í hagkerfinu. Þegar verið er að tala um verkalýðsbaráttu eða verkföll þá finnum við að það slaknar strax á. Fólk heldur að sér höndum, það er ekki endilega að það hafi ekki efni á því heldur vill það bíða. Eins er þegar það eru kosningar […]“

Bendir hann á að í kórónuveirufaraldrinum hafi fyrirtækinu vegnað afar vel, raunar betur en nokkru sinni fyrr og síðar. Fólk hafi verið í mikilli þörf fyrir að fegra heimili sín og bústaði á sama tíma og það gat sig lítið hreyft, innanlands sem utan.

Jóhann Ágúst er nýjasti gestur Dagmála og ræðir þar meðal annars tískustrauma í myndlist. Segir hann að abstrakt-meistararnir hafi verið á miklum skriði síðustu áratugi en nú hafi þeir margir náð ákveðnu jafnvægi. Landslagsverk hafi gefið talsvert eftir, rétt eins og uppstillingar af höndum meistara áborð við Jón Stefánsson og Kristínu Jónsdóttur. Hann segist hins vegar sannfærður um að þessi verk muni að nýju ná vinsældum, það eigi við um alla klassík.

Á síðustu árum hefur uppboðsmarkaður með listaverk færst í síauknum mæli yfir í netheima og segir Jóhann Ágúst að sú þróun hafi gengið nokkru hægar yfir hér á landi en í mörgum nágrannalöndunum. Hann vill þó halda í klassísku uppboðsleiðina þar sem verk eru borin fram á svið og við hamarshögg séu verkin hvert á fætur öðru seld hæstbjóðanda. Í viðtalinu upplýsir listakaupmaðurinn hvor aðferðin skili betra verði þessi dægrin.