Valur Amanda Andradóttir fór vel af stað á nýju keppnistímabili.
Valur Amanda Andradóttir fór vel af stað á nýju keppnistímabili. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Amanda Jacobsen Andradóttir sóknarmaður Vals var besti leikmaðurinn í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Amanda átti mjög góðan leik og fékk tvö M fyrir frammistöðu sína hjá blaðinu þegar Valur sigraði Þór/KA, 3:1, …

Amanda Jacobsen Andradóttir sóknarmaður Vals var besti leikmaðurinn í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Amanda átti mjög góðan leik og fékk tvö M fyrir frammistöðu sína hjá blaðinu þegar Valur sigraði Þór/KA, 3:1, í fyrsta leik deildarinnar á Hlíðarenda á sunnudaginn en hún skoraði tvö markanna og var stöðugt ógnandi við mark Akureyrarliðsins.

Amanda er 21 árs gömul og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki hér á landi síðasta sumar þegar hún kom til Vals frá Kristianstad í Svíþjóð og skoraði fjögur mörk í tíu leikjum. Hún er því komin með sex mörk í fyrstu 11 leikjum sínum í Bestu deildinni.

Mörk í fjórum löndum

Amanda hafði því fyrir 21 árs afmælið skorað í efstu deildum fjögurra Norðurlanda. Hún skoraði eitt mark fyrir Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni, fjögur fyrir Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni og þrjú fyrir Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni.

Hún lék þó áður á Íslandi, fyrst með Víkingi og síðan með Val í yngri flokkunum.

Knattspyrnuhæfileikana á hún ekki langt að sækja því faðir hennar er Andri Sigþórsson og föðurbróðir er Kolbeinn Sigþórsson, báðir fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmenn.

Amanda hefur verið í íslenska landsliðshópnum frá haustinu 2021 og skorað tvö mörk í 19 A-landsleikjum en áður skoraði hún 10 mörk í 12 leikjum með U16 og U17 ára landsliðunum.

Vigdís fékk líka tvö M

Einn annar leikmaður fékk tvö M fyrir frammistöðu sína í fyrstu umferðinni en það var hin 19 ára gamla Vigdís Lilja Kristjánsdóttir sem skoraði tvívegis fyrir Breiðablik í sigri á Keflavík í fyrrakvöld, 3:0.

Þær Amanda og Vigdís eru báðar í fyrsta úrvalsliði tímabilsins sem sjá má hér fyrir ofan en þar eiga Breiðablik, Víkingur, FH, Þróttur og Valur tvo leikmenn hvert félag og Fylkir á einn.