Carpe Diem Öll hönnunin miðar að því að styrkleikar íbúanna nýtist sem best og þeir geti notið lífsins sem mest.
Carpe Diem Öll hönnunin miðar að því að styrkleikar íbúanna nýtist sem best og þeir geti notið lífsins sem mest. — Ljósmynd: Benjamin A. Ward/Nordic Office of Architecture
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is „Við vorum með fullt hús og það var mikill áhugi á erindunum,“ segir Jóhanna Helgadóttir arkitekt og skipulagsfræðingur hjá Nordic Office of Architecture á Íslandi, en í gær var hún ásamt Camillu Heier Anglero arkitekt hjá Nordic Office of Arcitechture í Osló með erindi í tilefni Hönnunarmars á skrifstofu Nordic í Hallarmúla 4. Erindi Jóhönnu fjallaði um mannlega nálgun í borgarhönnun og Camilla ræddi um Carpe Diem-heimilið í Bærum í Noregi sem er sérstaklega hannað fyrir einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma.

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við vorum með fullt hús og það var mikill áhugi á erindunum,“ segir Jóhanna Helgadóttir arkitekt og skipulagsfræðingur hjá Nordic Office of Architecture á Íslandi, en í gær var hún ásamt Camillu Heier Anglero arkitekt hjá Nordic Office of Arcitechture í Osló með erindi í tilefni Hönnunarmars á skrifstofu Nordic í Hallarmúla 4. Erindi Jóhönnu fjallaði um mannlega nálgun í borgarhönnun og Camilla ræddi um Carpe Diem-heimilið í Bærum í Noregi sem er sérstaklega hannað fyrir einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma.

Innihaldsríkara líf

„Carpe Diem er heimili fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma í bænum Bærum, rétt fyrir utan Osló í Noregi, en í bænum búa u.þ.b. 130 þúsund manns,“ segir Camilla um heimilið, sem hefur hlotið fjölda viðurkenninga, þar á meðal DOGA-nýsköpunarverðlaunin fyrir inngildingu í hönnun, en markmiðið var að búa til umhverfi þar sem íbúunum sé gert kleift að lifa sem eðlilegustu lífi í virku sambandi við umhverfi sitt, fá þjónustu og umönnun við hæfi og eiga innihaldsríkt líf þrátt fyrir sinn sjúkdóm.

Vaxandi þörf á úrræðum

Árið 2013 sáu bæjaryfirvöld í Bærum fram á að stöðugt stærri hópur greindist með einhvers konar heilabilunarsjúkdóm, og stöðugt yngra fólk væri komið í þann hóp, og það yrði með einhverjum hætti að bregðast við þeirri stöðu. „Þeir vissu af Hogewayk-verkefninu í Hollandi þar sem sérhannað heimili var fyrir fólk með heilabilun sem hafði vakið mikla athygli á heimsvísu og var eitt af fyrstu sérhönnuðu heimilunum fyrir heilabilaða í heiminum.“ Það var ákveðið að heimsækja Hollendinga og skoða aðstæður og Camilla segir að bæjaryfirvöld í Bærum hafi heillast af hugmyndinni og útfærslunni í Hogewayk og vitað strax að eitthvað í ætt við svona heimili þyrfti í Bærum til að mæta sífellt aukinni þörf og stuðla að nýrri og manneskjulegri nálgun við þennan viðkvæma hóp.

Hvernig veröld?

„Hugmyndin var að heimilið væri öruggur staður fyrir vistmenn, en á sama tíma vel tengt umhverfinu og almenningi til að mynda betri tengsl við umhverfið,“ segir Camilla og bætir við að bæjaryfirvöld eigi þakkir skildar fyrir að hafa haldið vel utan um verkefnið og fyrir skýra sýn. „Margir með heilabilun halda góðri skynjun á þáttum eins og lykt, sjón, snertingu og litum. Þú manst kannski ekki hvað hlutirnir heita, en þú getur fundið út úr því eftir öðrum leiðum.“

Litir notaðir markvisst

Hönnunin á Carpe Diem tók mið af þessu og stór garður í miðju bygginganna er hjarta heimilisins. Þar eru blóm og gróður, torg þar sem er lítil verslun, lítil krá, svæði til leikfimiiðkunar og torg með brunni, hárgreiðslustofa og margt fleira. Hver íbúðaeining er einstök og allar snúa út að garðinum með þægilegar tengingar í sameiginleg rými og fólki er gert eins auðvelt og hægt er að vera virkara og geta nýtt sér þá hæfni sem það hefur í daglegu lífi.

Skemmtileg notkun á litum er í hönnuninni, en hver inngangur í bygginguna hefur sína litapallettu sem auðveldar íbúum að rata um svæðið og vera þannig virkari og þeir upplifa meira öryggi á heimilinu. „Það spilar allt saman, að hafa aðgengi og umferð um heimilið einfalda og svo var leitast við að örva íbúa með því að hafa t.d. gróðurhús þar sem hægt er að sýsla við blómarækt, sem hefur vakið mikla gleði hjá íbúunum. Síðan er lítið hænsnabú á staðnum og ýmislegt fleira sem tengir fólk við sitt fyrra líf. Affallslögn er undir öllu útivistarsvæðinu svo auðvelt er að stunda hreyfingu utandyra allt árið.

Þá má ekki gleyma tengingunni við umhverfið, en í hádeginu koma börn í garðinn úr nærliggjandi skóla til að borða hádegisverð og það hefur góð áhrif á íbúana að heyra hlátur barnanna og finna þessa tengingu.“ Carpe Diem-heimilið er 18 þúsund fermetrar og var opnað árið 2020 og Camilla segir að reynslan af heimilinu hafi farið fram úr björtustu vonum.

Mannleg nálgun í skipulagi

„Það er mikil áhersla í skipulagsmálum í dag á að hanna mannvænt umhverfi sem er aðgengilegt fyrir sem flesta,“ segir Jóhanna og segir að mannlega nálgunin í hugmyndafræði Carpe Diem-heimilisins sé alveg í þeim anda. „Í dag miðar mikið af borgarhönnun við svokallað samgöngumiðað skipulag þar sem áhersla er á að samþætta borgarskipulag og almenningssamgöngur,“ segir hún og bætir við að ýmsum áskorunum þurfi að mæta, s.s. mannfjöldaukningu, breyttum aldurspýramída, auknum áherslum á bætta lýðheilsu og loftslagsmálum svo eitthvað sé nefnt.

„Við skipulagsgerð er mikilvægt að eiga samráð við hagsmunaaðila, fara í ítarlega og góða greiningarvinnu og eiga gott samtal við skipulagsyfirvöld til þess að bæjarhverfi endurspegli þörf íbúa og notenda. Síðan er mikilvægt að tryggja aðgengi sem flestra að fjölbreyttu og mannlegu samfélagi þar sem boðið er upp á fjölbreyttar samgöngur, þar sem verið er að jafna tækifæri og kjör fólks með því að hafa jafnari aðgang að þjónustu, menntun, störfum og öðru slíku. Þar erum við að vinna með hugtakið samgöngumiðað skipulag, þar sem unnið er með samþættingu borgarhönnunar og fjölbreyttra samgangna, horft er til blöndunar, öryggis, lifandi mannlífs, gæða og aðgengis að almenningsrýmum, grænna svæða og fleiri þátta sem gefa svæðum vistlegra og mannlegra yfirbragð.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir