— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Níutíu prósent Íslendinga hafa notað stafrænar lausnir Dokobit án þess að átta sig endilega á því, enda fer notkunin fram um heimabanka og ótal önnur kerfi sem bjóða upp á stafrænar auðkenningar og undirskriftir

Níutíu prósent Íslendinga hafa notað stafrænar lausnir Dokobit án þess að átta sig endilega á því, enda fer notkunin fram um heimabanka og ótal önnur kerfi sem bjóða upp á stafrænar auðkenningar og undirskriftir. Lausnir Dokobit eru leiðandi á þessu sviði á íslenska markaðinum en félagið hefur síðan árið 2021 verið í eigu norska tæknifyrirtækisins Signicat eins og Ólafur Páll Einarsson framkvæmdastjóri Dokobit á Íslandi útskýrir í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Signicat er með um 500 starfsmenn á 18 skrifstofum víða um Evrópu. Signicat hefur stækkað mjög hratt á síðustu árum og hefur verið tilnefnt sem eitt af 1.000 hraðast vaxandi fyrirtækjum í Evrópu í þrjú ár í röð,“ segir Ólafur.

Breiðasti stuðningurinn

Hann segir að fyrirtækið sé með breiðasta stuðninginn við rafræn skilríki í heiminum, 35 skilríki alls, þar á meðal íslensk rafræn skilríki frá Auðkenni.

Ólafur segir að Signicat hafi á síðasta ári náð nokkrum merkilegum áföngum.

„Við höfum til dæmis framkvæmt yfir 450 milljón auðkenningar og 22 milljón rafrænar undirskriftir. Yfir 13.000 fyrirtæki frá 44 löndum nota lausnina okkar sem hluta af sinni starfsemi.“

Á Íslandi bjóða að sögn Ólafs þrír birgjar upp á sambærilegar lausnir.

„Þegar horft er til fjölda undirskrifta í hverjum mánuði erum við langsamlega stærst.“

Um verðlagningu segir Ólafur að sökum þess hve mikið magn af undirskriftum Dokobit notar frá Auðkenni í hverjum mánuði njóti viðskiptavinir þess í lægra verði.

Var sérfræðingur SIM-korta

Spurður um eigin aðkomu að geiranum segir Ólafur að áhugi hans á rafrænum skilríkjum hafi vaknað þegar hann var starfsmaður hjá Símanum sem sérfræðingur SIM-korta.

„Á þeim tíma höfðu bankarnir byrjað að setja rafræn skilríki upp á almenn greiðslukort og síðar sérstök kort sem Auðkenni gaf út. Síminn hafði mikla trú á að þessi virkni sem við þekkjum í dag myndi á endanum færast yfir í símann. Sá bolti byrjaði fyrst að rúlla um leið og leiðréttingin svokallaða var framkvæmd. Þá þurftu aðilar að nota rafræn skilríki til þess að geta ráðstafað fjármunum sem þeir fengu til baka frá stjórnvöldum. Fram að því höfðu ekki margir þjónustuveitendur bætt við stuðningi til að nýta þessi skilríki. Margir sáu heldur ekki tilganginn eða ábatann af því að sækja sér rafræn skilríki á meðan aðrir voru ekki byrjaðir að styðja þau. Á þeim tíma voru aðilar aðallega að nota auðkenninguna en mun færri notuðu rafrænu undirskriftirnar,“ útskýrir Ólafur.

Innsæið sagði Ólafi að rafrænu undirskriftirnar væru næsta byltingin á markaðinum. Mikil þörf væri fyrir slíkar lausnir á Íslandi.

„Rafrænar undirskriftir byggjast á flókinni tækni og umhverfi sem er háð ýmsum lögum og reglugerðum. Það gerði þær óaðgengilegar fyrir minni aðila sem hefðu þurft að sækja sér mikla sérþekkingu. Ég ákvað því að stofna fyrirtækið SmartWorks til að gera tækni, sem áður var flókin, einfalda og aðgengilega þannig að sem flestum væri fært að nýta hana.“

Þekkti umhverfið

Ólafur segir að á þeim tíma sem hann stofnaði SmartWorks, 2016, hafi hann búið að því að þekkja umhverfið vel. Hann hafi vitað hvaða aðilar voru komnir lengst í Evrópu.

„Dokobit í Litháen var þar fremst í flokki en þeim hafði gengið vel í öllum Eystrasaltslöndunum. Ævintýrið byrjaði allt með einum pósti sem ég sendi stofnandanum í gegnum Linkedin. Ég keypti mér í kjölfarið flugmiða til Vilnius. Ég man að við fyrstu sýn höfðu þeir miklar áhyggjur af því að Ísland væri alltof lítið land til þess að verðskulda einhverja áherslu. En ég náði á endanum að sannfæra þá um að það væri mikil þörf fyrir lausnir eins og Dokobit á Íslandi.“

Ólafur segist hafa verið fullur bjartsýni í kjölfarið.

„Ég hélt að þetta myndi vaxa mun hraðar en það gerði en við tóku nokkur mögur ár hvað tekjur varðaði. Ég þurfti að nota öll götin í sultarólinni áður en notkunin tók eitthvað við sér að ráði,“ segir Ólafur og brosir.

2020 kom byltingin

Árið 2020 kom loks byltingin sem Ólafur hafði séð fyrir og hann byrjaði að fjölga starfsfólki.

„Þegar covid-heimsfaraldurinn skall á sáum við enn aðra stökkbreytingu hjá okkur með umtalsverðri aukningu í notkun bæði undirskrifta og auðkenninga. Ein ástæðan var sú að þegar bankar og fleiri fyrirtæki þurftu að loka starfsstöðvum og gátu ekki stundað venjuleg viðskipti fóru allir á fullt í að útbúa rafræna ferla. Við fengum öldu af fyrirspurnum sem okkur tókst að sinna nokkuð hnökralaust, ekki bara á Íslandi heldur í öllum þeim löndum sem við höfum starfsemi í.“

Í mars sl. seldi Ólafur SmartWorks til Signicat. Ólafur segir að SmartWorks hafi í raun orðið fórnarlamb eigin velgengni.

„Þegar Signicat sá þann vöxt sem við höfðum náð á íslenska markaðinum sýndu þeir mikinn áhuga á að innlima okkur að fullu. Með því að sameinast Signicat fær Ísland mun meira vægi hjá fyrirtækinu. Fyrir sameininguna buðum við aðeins lausnir undir vörumerki Dokobit á Íslandi en fljótlega mun úrvalið af lausnum aukast.“

Spurður hvernig lausnin sé frábrugðin hinum tveimur lausnunum á markaðnum, Signet og Taktikal, segir Ólafur að auk hins breiða stuðnings og hagstæðs verðs sem áður er getið sé lögð áhersla á einfaldleika við innleiðingar, boðið sé upp á lausnir fyrir allan lífsferil skjala og yfirburða þekkingu á sviði rafrænna undirskrifta og traustþjónustu.

„Í þessum bransa skiptir traust öllu máli. Fyrirtæki eru að velja birgja á sviði sem þau skilja lítið eða ekkert. Þau vilja vera viss um að aðilinn sem þau velja grípi þau, sama hvaða nýjar spurningar myndast í framtíðinni, og hafi burði til að mæta þeirra þörfum.“

Allir bankarnir með

Allir viðskiptabankarnir á Íslandi nota lausnir frá Signicat að sögn Ólafs. Þá eru flestar fasteignasölur og bílasölur á Íslandi viðskiptavinir ásamt stéttarfélögum, fjártæknifélögum o.fl.

„Munurinn í dag frá því sem áður var er að núna eru það ekki aðeins stærri fyrirtæki sem nota rafrænar undirskriftir heldur fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Mesti vöxturinn á síðustu árum hefur verið hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum í kjölfar rammasamnings sem við gerðum í útboði Ríkiskaupa.“

Spurður almennt um þróun í geiranum á næstu árum segir Ólafur að rafrænar undirskriftir séu ekki lengur munaðarvara heldur staðall í viðskiptum fyrir fyrirtæki sem vilja bjóða góða þjónustu og setja viðskiptavini í fyrsta sæti.

„Kröfur neytenda hafa líka aukist mjög hratt. Fólki finnst skrítið í dag að þurfa að gera sér ferð til að skila gögnum á pappír. Ég held að rafrænu skilríkin muni breytast töluvert og við sjáum að þau eru í auknum mæli að fara af SIM-kortunum yfir í smáforrit eins og Auðkennisappið. Í Bandaríkjunum er Apple-tæknifyrirtækið t.d. hætt að setja SIM-kortarauf í nýjasta iPhone-símann. Ef það sama gerist í Evrópu þýðir það að notendur geta ekki lengur notað rafræn skilríki á SIM-kortum heldur verða í staðinn að nota Auðkennisappið. Ef skilríkin færast yfir í app-umhverfi held ég einnig að við munum á einhverjum tímapunkti hætta að nota PIN-númerin og nota frekar andlitsgreiningu eða fingrafar til að beita skilríkjunum.“

Landamæri afmást

Þá telur Ólafur að landamæri muni afmást meira og meira þannig að ekki skipti jafn miklu máli hvort þú sért með íslensk eða erlend rafræn skilríki.

„Íslenskur ferðamaður í Noregi gæti þá t.d. sótt sér þjónustu með sínum íslensku rafrænu skilríkjum. M.ö.o. það skipti ekki máli hvaðan skilríkin eru ef þú getur sannað á öruggan hátt að þú sért þú,“ segir Ólafur að lokum.