Rósa Þóra Hallgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist í Reykjavík 4. maí 1951. Hún lést 5. apríl 2024 á heimili sonar síns á Akureyri, umvafin ástvinum sínum.

Foreldrar hennar voru Hallgrímur Hallgrímsson póstmeistari, f. 1909, d. 1984, og Torfhildur Magnúsdóttir, stöðvarstjóri Pósts og síma á Eskifirði, f. 1922, d. 2002.

Systkini Rósu Þóru eru: 1) Ingibjörg, f. 1953. 2) Hallgrímur, f. 1955, d. 2021. Dætur hans og Valgerðar Hebu Valgeirsdóttur eru a) Hildur Rós, f. 1972. Dóttir hennar og Michaels Millis er Birta. Eiginmaður Birtu er Styrkár Hallsson og dætur þeirra eru Salka Björt og Sóllilja. b) Heba Björg, f. 1975. 3) Jóhanna, f. 8. júlí 1958. Eiginmaður hennar er Halldór Jónasson. Dóttir þeirra er Sylvía Dögg, f. 1980. Sambýlismaður hennar er Sigurður Kjartan Kristinsson og dóttir þeirra er Eldey Jóhanna. Sonur Sylvíu Daggar og Inga Arnar Gíslasonar er Andreas Halldór.

Sonur Rósu Þóru og Sigurðar J. Sveinbjörnssonar er Hallgrímur, f. 1984. Eiginkona hans er Viktoría Fönn Jónsdóttir Kjerulf. Sonur þeirra er Adrian Þór.

Rósa Þóra ólst upp á Eskifrði. Hún sýndi snemma áhuga á íþróttum og tók virkan þátt í því íþróttastarfi sem í boði var, en sér í lagi handbolta. Hún lauk skyldunámi á Eskifirði en gagnfræðaprófi í Hagaskóla í Reykjavík. Að því loknu hóf hún nám við Kennaraskólann og útskrifaðist sem íþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni árið 1971.

Rósa Þóra starfaði við kennslu á Akranesi, Kirkjubæjarklaustri og Eskifirði fram til ársins 1975 að hún venti kvæði sínu í kross og innritaðist í Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1978. Hún hóf þá störf við hjúkrun og starfaði meðal annars á Landspítalanum, Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, Sjúkrahúsinu á Húsavík og í Hulduhlíð á Eskifirði. Árið 1991 hóf hún störf við Kristnesspítala og starfaði þar sem deildar-
stjóri og síðar sem forstöðuhjúkrunarfræðingur til starfsloka.

Útför Rósu Þóru fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 24. apríl 2024, klukkan 13.

Í dag fylgjum við elsku Rósu Þóru okkar síðasta spölinn. Þó vissulega hafi mátt vita í hvað stefndi er kveðjustundin svo sár og erfið og ótímabær. Það er svo margt sem hún átti eftir að gera. Hún átti að vera að njóta þess að uppskera eftir langan og farsælan starfsferil. Hún átti að vera að fylgjast með litla gullmolanum sínum Adrian Þór, sem hún dýrkaði og dáði, vaxa úr grasi og dafna. En það er ekki spurt að því.

Rósa Þóra var kona svo ótal margra kosta. Hlý og hjartahrein. Góð, gegnheil og greiðvikin. Sannur vinur vina sinna og fyrst til að koma þeim til varnar sem henni þótti vænt um. Hallmælti aldrei nokkrum manni og sá það besta í öllu og öllum. Aldrei kvartaði hún, þó vissulega hafi hún á tíðum haft ærna ástæðu til, sló frekar á létta strengi, gerði gott úr hlutunum og trúði því af einlægni að bjartari dagar væru framundan.

Það er svo sárt að missa sína. Þó samveran hafi ekki verið dagleg voru samskiptin það. Hún sá til þess. Hún var límið og lykillinn í litlu fjölskyldunni okkar og passaði upp á að við fylgdumst með hvert öðru. Og alltaf kvaddi hún með orðunum „Mér þykir vænt um þig.“

Rósa Þóra var elst okkar systkina og tók það hlutskipti sitt alltaf alvarlega. Hún var vakin og sofin yfir velferð okkar og alltaf tilbúin að hjálpa þegar á þurfti að halda. Þetta gilti jafnt um okkur systkini hennar og maka, systkinadætur og seinna meir öll „bestustu“ hennar sem voru afkomendur þeirra.

Fyrir það og fyrir hana verðum við ævinlega þakklát. Skarðið sem hún skilur eftir sig verður ekki fyllt.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Elsku Halli, Viktoría og Adrian Þór – ykkar missir er mikill. Megi minningin um dásamlega konu veita ykkur yl og vera huggun í sorginni.

Jóhanna
og Halldór (Dóri).

Ég horfði beint í augu systur minnar. Þau höfðu nú loksins opnast til fulls og ég skildi þegar hún horfði í augu mér að þetta yrði í síðasta skipti. Rósa Þóra var að kveðja. Ég vonaði að hún læsi úr augum mínum hvernig mér leið. Ég vonaði að hún læsi virðinguna og ástina sem ég bar í brjósti til hennar. Ég reyndi að sýna henni, án orða, þakklætið fyrir allt það sem hún hafði gert fyrir mig á lífsgöngu okkar saman.

Frá því að við yngri systkinin þrjú fæddumst tók Rósa Þóra ábyrgð á okkur að svo miklu leyti sem hún gat, verandi tveimur árum eldri en það næstelsta og sjö árum eldri en það yngsta. Hún var orkumikill og skemmtilegur krakki sem var fljótur að eignast vini. Að passa börn var því kannski ekki það sem hana langaði mest til þess að gera en hún setti langanir sínar í annað sæti. Samviskan bauð henni að hjálpa mömmu og pabba eins og hún gat. Eiginlega voru það samviskan og hjálpsemin sem réðu ferðinni þaðan í frá og fram á hennar síðasta dag. Hún lét einskis ófreistað til þess að hjálpa þeim sem henni þótti vænt um og þeir voru margir. Hún fylgdist grannt með velferð þeirra og daglegu lífi. Síminn var óspart notaður. Hún þurfti ekki annað erindi en að segja fólkinu sínu að henni þætti vænt um það um leið og hún aflaði frétta. Hún hvatti líka okkur hin til þess að vera duglegri að spjalla saman og hittast. Hún eignaðist einn son en hún elskaði líka öll hin börnin í fjölskyldunni eins og hún væri amma þeirra. Svo eignaðist hún sonarson. Þá var hún orðin mjög veik en kvartaði aldrei. Hún bara gladdist yfir ríkidæmi sínu og fram á hennar síðasta dag undi hálfs annars árs gamli augasteinninn hennar, Adrian Þór, sér daglega við leik í rúminu hennar ömmu. Hann sýndi henni bækur, var góður við hana og hló með henni. Rósa Þóra var nefnilega skemmtileg kona með hárfínan húmor og fjölskyldan mun sakna hennar ósegjanlega mikið.

Hún var hjartað í fjölskyldunni, hún var plásturinn á sárin og hún var borðinn sem batt okkur saman.

Nú er fölnuð fögur rós,

fellur tár á kinn.

Nú er slokknað lífsins ljós

sem lýsti veginn minn.

En minning ljúf sem merlar hlý

og mildar alla sorg

leiðir þig til lífs á ný

í ljóssins fögru borg.

(H.A.)

Elsku Halli, Viktoría og Adrian Þór. Ykkar missir er mestur en minningarnar lifa.

Mínar hjartans samúðarkveðjur.

Ingibjörg.

Það var í ágústmánuði, nánar tiltekið í Valaskjálf á Egilsstöðum fyrir nær 53 árum, sem við Rósa sáum hvor aðra í fyrsta skipti. Þá var hún stödd þar ásamt samkennurum sínum, en ég nokkrum borðum frá sat að snæðingi með bróður hennar. Þarna á þessum tíma urðu engin kynni okkar á milli – en það átti nú heldur betur eftir að breytast. Örlagadísirnar réðu ráðum sínum, spunnu sína þræði og sáu til þess að Rósa varð síðar meir mágkona mín, hún varð föðursystir dætra minna tveggja þeirra Hildar og Hebu, hún varð afasystir dótturdóttur minnar hennar Birtu og hún varð langafasystir langömmuskottanna minna tveggja þeirra Sölku og Sóllilju. Rósu þótti undurvænt um allar frænkurnar sínar, hafði alla tíð mikinn áhuga á öllu því sem þær tóku sér fyrir hendur, tók þátt og gladdist með þeim á stórum stundum í lífi þeirra og var alltaf til staðar ef á reyndi. Alla þá elsku og væntumþykju sem hún sýndi bæði mér og mínum alla tíð í öll þessi ár er ég og verð henni ævinlega þakklát fyrir. Fyrir mér var hún og verður alltaf einstök perla með gullhjarta.

Rósa var vinmörg enda á ferðinni ljúf, hláturmild og skemmtileg kona sem var sátt og sæl með allt sitt. Hún átti líka stóran frændgarð sem hún bæði sinnti og ræktaði einstaklega vel. Eftir að hún veiktist og heilsu hennar fór hrakandi sýndi það sig svo vel hversu ofurvænt öllum þeim sem hana þekktu þótti um hana.

Rósa eignaðist líka sitt eigið ríkidæmi í honum Halla sínum. Halli óx og dafnaði undir verndarvæng móður sinnar og fékk í veganesti að heiman allt það besta sem prýtt getur góðan einstakling. Enn bættist við ríkidæmið hennar Rósu þegar Halli og Viktoría eignuðust hann Adrian Þór sinn í október 2022. Lítill nafni mættur, langþráður ömmustrákur sem lýsti upp tilveru ömmu sinnar og gerði allt betra, þrátt fyrir veikindin og kvalirnar sem sífellt fóru versnandi. Það er sárt til þess að vita að þeirra tími varð ekki lengri. Elsku Halli, Viktoría og Adrian Þór, ykkar missir er mikill og söknuðurinn sár, megi almættið og allar góðar vættir gefa ykkur styrk og frið.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo gestrisin, einlæg og hlý.

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst ei framar á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Ég kveð þig að sinni, elsku mágkona sem varst og reyndist mér alla tíð eins og kærleiksrík systir.

Þar til næst.

Þín

Valgerður (Vala).

Elsku fallega, góða, einstaka Rósa frænka mín, Rósan okkar, okkar eigin sanna matríark!

Ég hef alltaf átt bágt að tala um tilfinningar og hvað þá að setja mínar eigin í orð. Í dag á ég ekki orðin til að segja umheiminum hvers virði þú ert mér og hvaða áhrif fjarvera þín hefur á mig.

Í barnslegri trú vonaði ég sjálfsagt að þú yrðir eilíf. Þú varst allt sem ég vil vera og allt sem ég er ekki. Límið okkar. Miðjan. Fastinn. Allt sem er gott. Allt sem er hreint og fallegt. Alltaf til staðar. Alltaf. Fyrir Andreas minn. Fyrir Eldeyju mína. Fyrir okkur öll í litlu fjölskyldunni okkar. Þú settir okkur alltaf í fyrsta sæti. Sjálfa þig ávallt aftar og aldrei baðstu um neitt í staðinn. Alltaf hringdirðu og tékkaðir á mér og okkur. Daglega. Alltaf.

Þangað til þú gast það ekki lengur. Ég veit þú vildir það elsku tanta mín og hugsaðir til mín og okkar. Daglega. Alltaf.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ekki hef ég kynnst annarri eins manneskju og þér elsku fallega, góða frænka. Ég vildi óska þess við hefðum fengið með þér meiri tíma.

Elsku Rósa, ég lofa að hugsa vel um Hallann þinn. Ég lofa að hugsa vel um brosmilda nafna þinn, systur þínar, öll „bestustu börnin“ og litlu fjölskylduna okkar. Ég lofa að halda heiðri þínum og hugulsemi á lofti og reyna að vera meira eins og þú. Alltaf blíð. Alltaf góð. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar. Daglega. Alltaf. Ég elska þig.

Þín

Sylvía.

Orð geta ekki lýst því hversu mikið við söknum þín, elsku besta Rósa. Tilveran er sannarlega ekki söm án þín. Þú varst ávallt boðin og búin, sú sem alltaf var hægt að leita til, sú sem alltaf studdi okkur og endaði samtöl með því að segja „mér þykir vænt um þig/ykkur“. Það var svo augljóst hversu vænt þér þótti um litlu fjölskylduna þína og hversu stolt þú varst af okkur öllum. Þú umvafðir okkur kærleik, varst alltaf til staðar og fylgdist svo vel með fólkinu þínu.

Þú hvattir okkur áfram í lífsins ólgusjó, og meira að segja þegar þú barðist hetjulega við sjúkdóminn sem síðar hafði betur, þá var þér alltaf jafn umhugað um velferð okkar. Aldrei kvartaðir þú yfir hlutskipti þínu og þú tókst á við veikindi þín með bjartsýni og baráttu að leiðarljósi.

Núna ertu komin á betri stað, elsku hjartans Rósa, þar sem þú ert laus við líkamlega þjáningu. Við, litla fjölskyldan þín, sitjum eftir í sorginni og höfum misst svo mikið. Það er erfitt að ímynda sér tilveruna án þín en við huggum okkur við það að við munum hittast aftur og vera saman á ný.

Við setjum hér inn ljóð sem samið var af æskuvinkonu þinni. Þér þótti ljóðið svo fallegt og sendir okkur það í skilaboðum. Okkur finnst þetta fallega ljóð lýsa þér svo vel, elsku Rósa, hetjan okkar, full af bjartsýni og kærleika.

Ég vakna þennan morgun

og vel að hann sé góður,

vel að hann sé yndislegur,

myrkur og hljóður.

Ég vel að kúra um stund

og staðnæmast við það

hve stórkostlegt sé lífið

ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja

að vandamálin fá

vistuð séu hjá mér

til þess eins að ljá

tilverunni ennþá fleiri

tilbrigði og fleti,

ég tek þeim opnum örmum

svo nýtt mér þau ég geti.


Og eftir litla stund

ég vel að fara á fætur,

faðma þennan morgun

og allar hans rætur,

hita mér gott kaffi,

af kærleik þess ég nýt.

Kexið smyr með osti,

í blöðin svo ég lít.

Ađ endingu ég segi

við þig sem þetta lest:

Þetta er góður dagur,

hafðu þađ sem best.

Ég óska þess að hugsanir

fallegar þig finni.

Faðmlag þér ég sendi

og kveð þig nú að sinni.
(Unnur Sólrún)

Minning þín er ljós í lífi okkar.

Okkur þykir vænt um þig, elsku Rósa frænka.

Þínar

Hildur og Heba.

• Fleiri minningargreinar um Rósu Þóru Hallgrímsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.