Brynhildur Fjölnisdóttir fæddist á Fæðingarheimili Reykjavíkur 28. maí 1967. Hún lést á Landspítalanum 6. apríl 2024 eftir stutt en erfið veikindi vegna krabbameins.

Foreldrar hennar eru Arndís Guðmundsdóttir, f. 1. apríl 1938, og Fjölnir Stefánsson, f. 9. október 1930, d. 24. nóvember 2011.

Systur hennar eru Ingibjörg, f. 31. október 1958, maki Brynjar Kvaran, f. 16. janúar 1958, börn þeirra Hlíf og Fjölnir, og Þorbera, f. 20. janúar 1962, maki Karl Sesar Karlsson, f. 19. maí 1962, börn þeirra Stefán Björn, Arnhildur og Hrafnkell.

Dóttir Brynhildar er Arndís Anna Pétursdóttir, f. 8. janúar 2010. Faðir hennar er Grétar Pétur Geirsson, f. 24. september 1958, en þau Brynhildur slitu samvistir.

Brynhildur ólst upp frá fæðingu í Kópavogi og bjó þar alla tíð fyrir utan sjö ár í Danmörku.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og burtfararprófi í einsöng frá Tónlistarskóla Kópavogs. Auk þess lauk hún námi í einsöng og hljómfræði í Árósum og kirkjusöngvaraprófi frá Roskilde Kirkemusikskole.

Á yngri árum var hún sumarstarfsmaður hjá Tryggingastofnun og eftir heimkomu frá Danmörku starfaði hún um skamma hríð hjá Ríkisútvarpinu. Hún söng einnig með kór Kópavogskirkju.

Útför Brynhildar verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 24. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku Brynhildur, litla systir mín. Ljósir, síðir slöngulokkar. Mikill viljastyrkur og sterkar skoðanir alla tíð. Fagurkeri, örlát og stórtæk. Kröfuhörð, ekki síst gagnvart sjálfri sér, og þrautseig. Húmorinn og hláturinn, en saman gátum við spunnið bullið uns gargað var úr hlátri. Útsaumssnillingurinn. Nostalgían alltumlykjandi. Söngkonan og tónlistarunnandinn. Listunnandinn. Sagnfræðingur og innanhússhönnuður í hjartanu. Fróðleiksbrunnur um konungsfjölskyldur Evrópu langt aftur í aldir. Júróvisjónsérfræðingurinn sem reyndi að halda okkur meðaljónunum í fjölskyldunni við efnið í aðdraganda keppninnar. Safnarinn sem vildi ekkert hálfkák, annaðhvort að eiga allt komplett eða ekkert. Utanlandsferðirnar saman, en þær voru nokkrar og síðast í fyrravor yndisleg systraferð til Köben.

Litla systir mín, sem ávallt var svo stór hluti af mínu lífi, verður það áfram, en tilhugsunin um að héðan af verði það einungis í formi minninga er óraunveruleg. Hún greindist með krabbamein í desember síðastliðnum, svo aðdragandinn að fráfalli hennar var ekki langur.

Hún skilur eftir sig augasteininn sinn og yndi okkar allra, dótturina Arndísi Önnu, sem nú hefur misst svo óendanlega mikið. Brynhildur átti þá ósk heitasta að fá að sjá hana vaxa úr grasi og vera til staðar fyrir hana en hún vissi líka að við myndum grípa dóttur hennar mjúklega og þétt.

Takk fyrir allt.

Þín systir,

Þorbera.

Okkur langar með örfáum orðum að minnast kærrar vinkonu sem hefur verið kölluð burt allt of fljótt.

Við kynntumst Brynhildi í MH fyrir rúmlega 40 árum. Það tókst strax náin vinátta með okkur enda áttum við ýmislegt sameiginlegt, ekki síst tónlistina. Það var góður vinkonuhópur sem myndaðist í MH á þessum árum en Brynhildur var leiðtoginn, sem skutlaðist með okkur um bæinn á litla brúna bílnum sínum. Svo unnum við saman á sumrin og ferðuðumst til útlanda. Við heimsóttum Brynhildi í Árósum í Danmörku þar sem hún lagði stund á framhaldsnám í söng og í Kaupmannahöfn þar sem hún var búsett um tíma. Áður hafði hún lokið burtfararprófi í söng frá Tónlistarskóla Kópavogs.

Brynhildur var glæsileg, vel lesin og listræn. Hún var fróð um menn og málefni hér á landi sem erlendis og aldrei kom maður að tómum kofunum hjá henni. Hún var líka réttsýn og lét sig varða málefni líðandi stundar. Allt sem tengdist Danmörku eða Bretlandi var í sérstöku uppáhaldi, sérstaklega „de kongelige“. Fagurkerinn Brynhildur skreytti heimili sitt hvort heldur í Danmörku eða í Kópavoginum á afar hlýlegan og smekklegan hátt og þá einkum með danskri hönnun og eigin útsaumslistaverkum.

Það var alltaf gaman að vera með Brynhildi enda hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom. Hún var með eindæmum orðheppin og hafði einstakt lag á að lyfta öðrum upp. Hún var jákvæð að eðlisfari en líka hörkutól og aldrei heyrði maður hana kvarta þótt hún hafi glímt við meira í lífinu en við hin.

Það var mikil gleði þegar Brynhildur eignaðist Arndísi Önnu. Hún var augasteinn móður sinnar og það var yndislegt að sjá þær saman. Það er sárt til þess að hugsa að eftir allt sem Brynhildur þurfti að yfirstíga þá var það krabbameinið sem kom í veg fyrir að hún gæti fylgt Arndísi Önnu eftir í lífinu og séð hana vaxa og dafna.

Í amstri hversdagsleikans urðu samverustundirnar færri með árunum þó að við höfum heyrst reglulega. Hin síðari ár átti Brynhildur frumkvæði að því að hóa í gömlu vinkonurnar úr MH og rifja upp gamla tíma og fagna nýjum tímamótum með og án barna. Þetta voru eftirminnilegar stundir þar sem margt var skrafað og hlegið dátt.

Minningin lifir um einstaklega góða vinkonu með dillandi hlátur.

Við vottum Arndísi Önnu og fjölskyldu Brynhildar innilega samúð.

Kristín, Anna Þóra
og Jón Pétur.

Leiðir okkar Brynhildar lágu saman árið 2007. Árið 2010 eignumst við dótturina Arndísi Önnu sem var mikil himnasending. Við vorum engir unglingar þegar dóttir okkar fæddist en Arndís Anna var og er einstakt barn, hefur alltaf verið mjög meðfærileg og með gott geðslag. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim kærleik sem ríkti á milli þeirra mæðgna. Uppeldi Arndísar Önnu var gott, mikil ást og kærleikur einkenndi þeirra samband alla tíð. Brynhildur hafði öll þau góðu gildi í forgrunni við uppeldið á Arndísi Önnu sem hún mun búa að alla tíð.

Brynhildur var mikill kvenskörungur, gat verið föst fyrir ef því var að skipta, hafði sterka réttlætiskennd og hún var mikil jafnaðarmanneskja. Það var alltaf gaman að ræða pólitík við Brynhildi, þar kom maður ekki að tómum kofunum. Hún hafði miklar og sterkar skoðanir þegar kom að pólitík, hún vildi fyrst og fremst meiri jöfnuð og að allir fengju að njóta sín á sínum forsendum og þar vorum við algjörlega á sömu blaðsíðu.

Brynhildur hafði mikið dálæti á breska og danska konungsfólkinu, alltaf þegar eitthvað merkilegt var þar að gerast þá var blásið í lúðra og skálað í kampavíni, danski fáninn eða sá breski dreginn fram og allt skreytt í bak og fyrir. Ég er viss um að Brynhildur hefur verið konungborin í fyrra lífi.

Brynhildur var mikill húmoristi og oft var mikið hlegið á Hlíðarveginum, alltaf fór maður heim í betra skapi frá Brynhildi. Hún var með mjög gott geðslag, var ávallt í góðu skapi og sá alltaf hlutina í jákvæðu ljósi. Hún þurfti stundum að ýta við mér þegar henni fannst ég fara yfir strikið, þannig var Brynhildur.

Það var gott að leita til hennar þegar ég þurfi ráð og oft hringdi hún í mig þegar ég var að skrifa á fésið og benti á margt sem betur mátti fara í þeim skrifum sem reyndist oftar en ekki rétt. Hún hefur reynst mér ákaflega vel og á ég henni margt að þakka, þú gerðir mig að betri manni.

Kæra Brynhildur, takk fyrir samfylgdina og allar þær ánægjustundir sem við áttum saman sem voru margar og munu aldrei líða mér úr minni. Guð vaki yfir þér og varðveiti.

Grétar Pétur Geirsson.

Elsku frænka.

Það er sárt að geta ekki komið á Hlíðarveginn og heyrt þinn dásamlega og káta hlátur aftur. Það er sárt að Arnhildur Elín mun ekki alast upp við glensið og gamanið sem alltaf umlukti þig. Það þurfa allir eina frænku sem gantast og potar í mann þegar maður þarf sem mest á því að halda og þú varst alltaf sú frænka fyrir mig.

Við munum sakna þín mikið og það er erfitt að hugsa til þess að þú munir ekki vera í fermingu Arnhildar Elínar og minna hana svo á fermingarafmælið um ókomin ár. Þú munt heldur ekki kynnast syni okkar, eins og þú varst spennt að fá að hitta hann.

Þú hefur alltaf verið til staðar og þetta verður skrítin framtíð án þín.

Ástarkveðjur,

Stefán Björn, Jóhanna María og Arnhildur Elín.

Nú leita minningar orða. Þær koma sem myndir frá löngu liðnum tíma sem geyma ungdóminn, skrefin inn í fullorðinsárin, miðbik ævinnar, hversdaginn og gærdaginn. Minningarnar eru hlaðnar litum og þær elta hver aðra. Brynhildur Fjölnisdóttir var marglita og dásamleg manneskja. Hún var jafn litrík og dönsku glerverkin sem hún safnaði af natni og ástríðu. Brynhildur var bæði skemmtileg og frámunalega orðheppin. Hláturinn hennar var mestur og bestur. Tepruskapur og hræsni voru Brynhildi fjarri. Hlátursköstin skipta hundruðum þar sem hún útlistaði á sinn einstaka hátt grátbroslega atburði. Þá hlífði Brynhildur sjaldnast sjálfri sér enda bæði hreinskiptin og greind. Mennskan átti hjarta Brynhildar. Því réði bæði upplag og örlög. Barn að aldri greindist hún með taugahrörnunarsjúkdóm sem ágerðist með árunum, vægðarlaus. Brynhildur mundi alla merkisdaga og var fyrst allra til að óska heilla og hamingju. Spurði frétta af öðrum af raunsönnum áhuga og samlíðan. Hún var fallega hrifnæm og heil. Brynhildur kunni sannarlega að fara vel með gleði og sorg. Enda hóflega ströng og gat verið oggulítið stíf. Hún bjó yfir hæfilegri fortíðarþrá, án áráttu, enda bæði rómantísk stemningsmanneskja og eiðsvarinn royalisti.

Í dag er elsku Brynhildur minningunum falin. Stelpan sem ég sá fyrst snemma hausts í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Árið var 1983. Hún átti súkkulaðibrúnan Daihatsu Charade. Þennan með kýrauganu. Ljósustu strípurnar, hækja, síður þunnur og ljós jakki í anda tímans, keyptur erlendis. Púðluhundur í framsæti. Hversu smart var hægt að vera? Hún skyldi verða vinkona mín. Og það varð. Og nú þegar minningarnar fá orð geymi ég ótal dýrmætar myndir. Skríkjandi stelpur á kremuðu teppi í Sigvaldahúsi í Kópavogi fyrir framan sjónvarpið að horfa endalaust og aftur á vinina bresku í tvítjakkafötum, dragandi á eftir sér æskulúinn bangsa. Eða kjánalega en samt svo leynilega sæta rómana um ástir og örlög elskenda sem kynnast í lest eða um söguhetjur sem rísa úr fátækt til frama. Brynhildur skólaði mig til í konungsfræðum, fékk mig til að safna silfri og kenndi mér að meta Ceciliu Bartoli. Sendi mér löng og galsafengin bréf frá Danmörku og ég lærði að hugsa hlýtt til Dana. Hátt á sextugsaldri gátum við enn kýtt um hvaða leikari væri fríðastur allra þá stundina. Og síðan var emjað úr hlátri. Brynhildur var stelpan sem þótti óumræðilega vænt um foreldra sína og talaði um þau af stolti og væntumþykju. Systur hennar og fjölskyldur þeirra voru hennar heimahöfn en mesta gæfan og augasteinninn var einkadóttirin, Arndís Anna. Ég mun aldrei gleyma gleðinni þegar ég fékk fréttir af lífinu sem hafði kviknað eða stundinni þegar ég fékk skilaboð í upphafi nýs árs um að heilbrigð stúlka væri fædd. Þá var grátið af gleði.

Og nú verð ég að búa til nýja minningu, sunnarlega í Evrópu. Brynhildur situr, vel til höfð að vanda, við glugga í fornu glæsihýsi, bleiku að lit. Þetta er herbergi með útsýni. Ljósu lokkarnar hennar glóa við lágsetta sól. Ég kíki yfir öxlina og báðar sjáum við hvar glittir í bakhlutann á frægum breskum leikara sem öðrum er horfinn. Hún gólar af kæti, ég brosi og saman grátum við úr hlátri.

Erna Sverrisdóttir.

Með djúpa sorg í hjarta kveð ég hjartans Brynhildi frænku sem lést í blóma lífsins eftir stutt en afar erfið veikindi. Eftir sitja ættingjar og vinir með brostið hjarta og ótal spurningar sem ekki fást svör við, mikið getur lífið verið ósanngjarnt og raunveruleikinn grimmur. Brynhildur lætur eftir sig fallegu einkadótturina Arndísi Önnu sem nú syrgir sárar en orð fá lýst.

Ég minnist Brynhildar frænku úr bernsku sem stóru frænku með ljósa fallega hárið og dillandi hláturinn. Jólaboðin hjá langömmu Guðrúnu þegar við yngri kynslóðin þjöppuðum okkur saman inni í herbergi í litlu íbúðinni á Reynimelnum og þá var gaman og mikið hlegið. Í minningu minni var Brynhildur frænka ekki sú sem tranaði sér fram í þessum jólaboðum en vera má að aldursmunur okkar frænkna setji þar blæ sinn á minninguna. Seinna þegar þorrablót urðu að hefð innan stórfjölskyldunnar þá kynntist ég frænku minni betur.

Brynhildur frænka var svo sannarlega stór karakter sem kunni að nýta sér sviðið með hárbeittum húmor og útgeislun. Hún var gædd þeim eiginleika að geta slegið grafalvarlegum hlutum upp í grín en um leið gerði hún það á sinn fágaða hátt svo eftir var tekið. Þessi hæfileiki frænku naut sín vel í ritmáli þar sem hún valdi orð sín af natni þegar hún t.d skrifaði færslu á feisbúkk eða setti athugasemd við umræðuþræði sem löðuðu að sér mörg hláturstjáknin.

Brynhildur frænka var mikill royalisti og nýtti hún hvert tækifæri til þess að fylgjast með nýjustu vendingum meðal kóngafólksins. Ég grínaðist við hana undir það síðasta að hún yrði alltaf mín konunglega frænka enda enginn sem gæti borið þann titil með jafn miklum sóma og elsku Brynhildur sem situr vafalaust nú við tedrykkju með Díönu prinsessu.

Elsku frænka barðist hetjulega fyrir lífi sínu í gegnum veikindi sín. Þegar ég hitti hana eftir að hún veiktist sagði hún mér að hún óttaðist ekki dauðann, henni þætti bara óbærileg tilhugsunin um að deyja frá dóttur sinni, sólargeislanum í lífi hennar. Við ræddum líf eftir dauðann og vorum sammála um að dauðinn væri ekki endalokin. Ég efast því ekki eitt andartak um að Brynhildur vakir yfir stelpunni sinni og gætir hennar hvert fótmál.

Um leið og ég bið góðan Guð að geyma elsku Brynhildi frænku sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur til elsku Arndísar Önnu, Addýjar, systra og fjölskyldunnar allrar og bið að þau fái styrk á þessum erfiðu tímum.

Þín frænka,

Elva Dögg.

• Fleiri minningargreinar um Brynhildi Fjölnisdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.