Hringhamar Svanur Karl á framkvæmdasvæðinu í Hafnarfirði í gær.
Hringhamar Svanur Karl á framkvæmdasvæðinu í Hafnarfirði í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristján Jónsson kris@mbl.is Þótt fasteignamarkaðurinn á Íslandi hafi kólnað í verðbólgunni má greina töluvert lífsmark í sölu íbúðarhúsnæðis. Í það minnsta hafa 22 íbúðir af 36 í Hringhamri á Völlunum í Hafnarfirði selst, að sögn Svans Karls Grjetarssonar, húsasmíðameistara og framkvæmdastjóra MótX ehf.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Þótt fasteignamarkaðurinn á Íslandi hafi kólnað í verðbólgunni má greina töluvert lífsmark í sölu íbúðarhúsnæðis. Í það minnsta hafa 22 íbúðir af 36 í Hringhamri á Völlunum í Hafnarfirði selst, að sögn Svans Karls Grjetarssonar, húsasmíðameistara og framkvæmdastjóra MótX ehf.

„Nú eru rúmar tvær vikur frá því að við hófum að selja og 22 íbúðir eru farnar af 36. Er það framar öllum vonum. Auk þess eru einhverjir áhugasamir kaupendur sem hafa látið merkja sér íbúðir í öðrum byggingum sem við erum með en við erum með þrjár blokkir á svæðinu,“ útskýrir Svanur og nefnir að til standi að fá Svansvottun. „Í þessum áfanga í Hringhamri 9-19 erum við að byggja 118 íbúðir. Við viljum meina að við séum að leggja okkur fram í því að bjóða góðar fasteignir. Við erum að fara með byggingarnar í Svansvottunarferli [opinbert umhverfismerki Norðurlandanna] og erum að endurnýta orku, flokkum allt sorp og gætum þess að ekki séu notuð nein efni sem gætu gefið frá sér einhver eiturefni. Mögulega hefur þetta áhrif á kaupendur þótt erfitt sé að segja til um það,“ segir hann.

Telur verðinu stillt í hóf

Spurður hvort fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér á heildina litið, segir Svanur erfitt að fullyrða neitt þótt vísbendingar séu um það.

„Við erum reyndar að verðleggja íbúðirnar í takti við hvernig markaðurinn hefur verið og tökum á okkur hluta af þessu með því að vera einnig byggingaraðili. Við byggjum okkar íbúðir sjálfir og fremur fáir á landinu eru bæði að byggja og selja íbúðir,“ segir Svanur.

Hann telur einnig að það geti hjálpað að í úthverfunum sé nú meira hugað að þjónustu en áður, hvort sem það séu verslanir, veitingastaðir eða annað. „Fólk þarf ekki að sækja eins margt í miðbæjarkjarna og áður. Hafnarfjörður hefur staðið sig vel í því að byggja upp sterka innviði, skrifstofuhúsnæði og þjónustu. Auk þess eru samgöngur inn í hverfið á Völlunum orðnar miklu betri eftir að hægt var að koma um Áslandið.“