Í Ásmundarsal Nemendahópur úr Sjónlistadeild Myndlistaskólans í Reykjavík í heimsókn á sýningunni „Þú átt leik“.
Í Ásmundarsal Nemendahópur úr Sjónlistadeild Myndlistaskólans í Reykjavík í heimsókn á sýningunni „Þú átt leik“. — Ljósmynd/Vigfús Birgisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eygló Harðardóttir er fædd 24. apríl 1964 í Reykjavík. Hún er frumbyggi úr Breiðholtinu, ólst þar upp frá 5 ára aldri og bjó þar fram yfir menntaskóla. „Breiðholtið var svolítið eins og villta vestrið

Eygló Harðardóttir er fædd 24. apríl 1964 í Reykjavík.

Hún er frumbyggi úr Breiðholtinu, ólst þar upp frá 5 ára aldri og bjó þar fram yfir menntaskóla. „Breiðholtið var svolítið eins og villta vestrið. Uppbygging og allskonar byggingarefni í samblandi við náttúruna var mikill áhrifavaldur á uppvaxtarárunum. Elliðaárdalurinn í jaðrinum var algjör paradís fyrir krakka að kanna. Í Breiðholtinu á þeim tíma var bókabíllinn helsti menningarstaðurinn en ég var send á barnanámskeið í Myndlista- og handíðaskólann og síðar í Myndlistaskólann.“

Eygló gekk í Breiðholtsskóla, Ölduselsskóla og Hólabrekkuskóla og síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hún útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskólanum 1987 og lauk framhaldsnámi frá AKI – Academy of Art and Design í Hollandi 1990. Árið 2014 lauk hún MA í listkennslufræðum frá Listaháskóla Íslands. Eygló hefur starfað í ýmsum nefndum og stjórnum fyrir listasöfn, myndlistarskóla og fagfélög myndlistarmanna. Hún fékk Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2019 fyrir sýningu sína Annað rými í Nýlistasafninu.

Auk þess að vera myndlistarmaður starfar Eygló einnig sem stundakennari við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Þessa dagana er hún að skrá og ganga frá verkum eftir sýningatörn vetrarins. Í janúar á Vetrarhátíð varpaði hún ljóslistaverkinu Sviðsmyndir á Kópavogskirkju, þar sem glerlistaverk Gerðar Helgadóttur og form kirkjunnar voru útgangspunktar.

„Fyrir verkið þá bjó ég til fjórar sviðsmyndir á vinnustofu minni þar sem ljóskastarar, litað gler, litir, blýantur og pappír voru í aðalhlutverki og sviðsmyndirnar hreyfðar til, lýstar upp og kvikmyndaðar. Ég klippti síðan efnið saman í stutta kvikmynd. Í lok síðasta árs var ég með einkasýningu í öllu húsi Ásmundarsalar, sem voru þrjú sýningarrými og þaksvalir. Verk mín vinn ég yfirleitt inn í aðstæður eða sérstaklega fyrir sýningar til að skapa heildarupplifun. Í Ásmundarsal sýndi ég meðal annars frumverk bókverksins Þú átt leik sem kom út á samnefndri sýningu.“

Bókverkið Þú átt leik mun Eygló aftur kynna á Bókverkamessunni Reykjavík Art Book Fair sem fram fer í Listasafni Reykjavíkur í næsta mánuði. Hún hefur gefið út nokkur bókverk í samvinnu við ‘uns bókverkaútgáfu og Prent & vini. „Áhugi minn á bókverkagerð kemur til af áhuga á prentverki, pappír og flettieiginleikum bókverka. Fjölfeldi bókverkanna gerir kleift að þau ná til fleiri áhorfenda, óháð stað og tíma. Með gerð bókverka er mögulegt að auka samspil áhorfenda við listaverk með tilliti til þátttöku og hvert verk er hugsað sem sýningarrými í víðari skilningi en ef um hefðbundið sýningarrými væri að ræða.“

Það eru ýmis verkefni fram undan hjá Eygló. Í sumar tekur hún þátt í myndlistarsýningunni Nr. 5 Umhverfing sem að þessu sinni verður haldin innan sveitarfélagsins Hornafjarðar. „Ég á ættir að rekja austur í Lón og mun dvelja í Fundarhúsi Lónmanna bæði við undirbúning núna í vor og set síðan upp verk mitt þar í júní. Þorleifur frá Bæ í Lóni, langafi minn, vann við og hafði umsjón með smíði hússins sem er falleg bygging. Dvölin í Lóninu verður einnig upptaktur að fyrirhugaðri sýningu í Svavarssafni á Höfn 2025.“

Í haust er ferðinni heitið til Indlands í mánaðardvöl á vinnustofu í Varanasi. Eygló dvaldi þar í tvo mánuði rétt fyrir covid og sú dvöl varð uppspretta nokkurra verka sem hún sýndi í Ásmundarsal 2023. „Dvölin núna verður í góðum hópi annarra listamanna og afraksturinn verður sýndur á samsýningu í Listasafni Árnesinga 2025. Einnig mun ég í lok árs sýna í Höggmyndagarði Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík.“

Sterkur áhrifavaldur í myndlist Eyglóar var að hún starfaði meðfram myndlistinni við landvörslu í mörg sumur og var meðal annarra staða nokkur sumur við landvörslu í Lakagígum og Hvannalindum. „Í landvörslunni kynntist ég náttúruunnendum sem mátu náttúruvernd mikils. Á þeim árum, á einmenningsstöðum eins og Lakagígum og Hvannalindum, var dvalið við fremur frumstæðar en heillandi aðstæður, vatn var sótt út í læk, sólarsellur komu reyndar seinni árin og kamar í nágrenninu.

Dvölin inni á hálendinu og það að starfa ein á svona mögnuðu landsvæði hefur óneitanlega haft mikil áhrif á alla skynjun mína. Ég met landvörsluna mikils og tel að hún hafi verið öflugur skóli þegar kemur að þekkingu hvort heldur hún er fengin í gegnum allskonar fræði, grúsk, náttúruöflin, samskipti, skipulag eða líkamlega vinnu. Náttúrutúlkun og miðlun til ferðamanna er einstakt tækifæri til að kynnast landinu á margbrotinn hátt og er óneitanlega veganesti inn í myndlistina.“

Eygló er komin vel áleiðis með að endurbyggja hús við Þingvallavatn og markmiðið er að hafa þar starfsstöð, vinnustofu og dvelja þar hluta ársins. „Við Þingvallavatn upplifi ég kyrrð, tengingu við náttúruna og nálægð hálendisins. Skjaldbreiður og náttúrufegurð blasa við út um vinnustofugluggana. Einnig er ég búin að reisa gróðurhús og stefni á að vinna upp jarðveginn í vor og planta einhverju góðgæti.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Eyglóar er Ríkharður H. Friðriksson, f. 5.11. 1960, tónskáld og tónlistarmaður. Þau eru búsett í Reykjavík. Ríkharður á tvær uppkomnar dætur, Kristínu Helgu Ríkharðsdóttur, f. 1993, myndlistarmann og Jóhönnu Vigdísi Ríkharðsdóttur, f. 1991, lækni, tengdasoninn Hrafnkel Stefánsson, f. 1984, lækni og barnabarnið Ríkharð Stefán Hrafnkelsson, f. 2022.

Systkini Eyglóar eru Helga Björk Harðardóttir, f. 1961, sjúkraliði, Sóldís Harðardóttir, f. 1965, leikskólastjóri, og Sævar Harðarson, f. 1966, framkvæmdastjóri.

Foreldrar Eyglóar voru hjónin Hörður Eiríksson, f. 21.8. 1937, d. 15.10. 2023, járniðnaðarmaður, og Sigrún Guðmundsdóttir, f. 27.7. 1936, d. 1.6. 2018, húsmóðir og verslunarmaður. Þau voru búsett í Reykjavík.