Raforkuskerðingar Kynda þarf með dísilolíu í sundlauginni á Hólmavík. Aðeins opið í einn pott og gufu.
Raforkuskerðingar Kynda þarf með dísilolíu í sundlauginni á Hólmavík. Aðeins opið í einn pott og gufu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ólafur Pálsson olafur@mbl.is Lág staða í lónum Landsvirkjunar virkjar heimild til að skerða afhendingu til kaupenda ótryggrar raforku. Orkubú Vestfjarða (OV) tapar 5 milljónum á dag en skerðingar til OV hófust 18. janúar. Ekki er vitað hvenær þeim lýkur.

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Lág staða í lónum Landsvirkjunar virkjar heimild til að skerða afhendingu til kaupenda ótryggrar raforku. Orkubú Vestfjarða (OV) tapar 5 milljónum á dag en skerðingar til OV hófust 18. janúar. Ekki er vitað hvenær þeim lýkur.

Elías Jónatansson orkubússtjóri segir skerðingum hafa átt að ljúka 30. apríl en alls óvíst sé að það gangi eftir. Jafnvel megi búast við skerðingarlokum um miðjan maí. „Við reiknuðum með að tapa um 520 milljónum króna á árinu vegna skerðinga en stefnum nú í um 600 milljónir. Þá verður tapið þrefalt meira en við svipaðar aðstæður 2022.“ Skerðingunni þá var aflétt eftir 54 daga en nú er reiknað með skerðingu í allt að 120 daga.

Kostnaðaraukinn er meiri en sem nemur öllum rekstrarafgangi af rafkyntum hitaveitum OV síðustu 10 ár.

Bitnar mest á skólakrökkum

Á Hólmavík er 25 metra sundlaug, busllaug, tveir heitir pottar og gufubað. Kynda þarf með dísilolíu og aðeins opið í pott og gufu – allt annað er lokað vegna raforkuskerðinga.

Sigurður M. Þorvaldsson, forstöðumaður eignasjóðs Strandabyggðar, segir að nú þegar hafi sveitarfélagið farið með 40 þúsund lítra af dísilolíu í starfsemi sundlaugarinnar. Starfsfólk sveitarfélagsins þurfi að vitja dælunnar annan eða þriðja hvern dag og dæla olíu á tvö þúsund lítra tankinn úr öðrum 10 þúsund lítra. Helga Rut Halldórsdóttir, umsjónarmaður íþróttamiðstöðvarinnar, segir alveg skelfilegt að sundlaugin sé lokuð. Segir hún suma pirraða en flesta sýna ástandinu þó skilning. Segir hún það bitna mest á krökkunum sem eiga eftir að fara í skólasund en fyrirséð er að keyra þurfi grunnskólanemana frá Hólmavík til sundnáms tæplega 30 kílómetra leið í sundlaugina Laugarhól í Bjarnarfirði.

Lifnar yfir aðsókn á sumrin

Helga segir að yfir vetrartímann sé aðsókn ekki ýkja mikil í sundlaugina, á milli fimm og tíu manns á dag en í janúar á þessu ári voru 414 manns búsettir í Strandabyggð. Yfir sumartímann lifni þó yfir aðsókn en tjaldsvæðið sé við hliðina á sundlauginni, sem hafi auðvitað mikil áhrif. Alltaf sé þó viss hópur fastagesta í líkamsrækt sem noti sundlaugina, pottana og gufuna.

Ótrúleg staða

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar, segir sveitarfélagið hafa þurft að upplifa skerðingu í gegnum tíðina en aldrei í svona langan tíma. Í byrjun janúar hafi verið tilkynnt að sennilega yrði skerðing til rúmlega tveggja mánaða en sá tími sé liðinn. Hann segir sveitarfélagið hafa þrýst á Orkubú Vestfjarða um svör en því miður fáist þau ekki nægilega skýr enda fái orkubúið ekki nægilega skýr svör frá Landsvirkjun.

„Þetta er í raun ótrúleg staða í landinu, að við séum að upplifa raforkuskort og skömmtun með þessum hætti. Það er ekki boðlegt á þessum tíma finnst okkur hér,“ segir Þorgeir sem telur stóra málið snúast um hver stefnan sé í landinu um framleiðslu á raforku.

Tækifæri til raforkuöflunar

„Hér í Strandabyggð eru virkjunarkostir eins og Kvíslatunguvirkjun, sem er sem betur fer á hreyfingu en því miður er stopp í Hvalárvirkjun,“ segir hann. Strandabyggð hafi þá ýtt á eftir því að borunum eftir heitu vatni verði lokið á Gálmaströnd en það myndi gjörbreyta stöðunni ef mikið magn heits vatns fyndist úti í fjarðarmynni að sögn sveitarstjórans. Elías orkubússtjóri segir engan geta sagt fyrir um veðrið á Íslandi og staða lóna velti á leysingum og vorrigningum. Landsvirkjun haldi orkubúinu upplýstu en geti ekki frekar en aðrir sagt til um hvernig veðrið hagi sér. Segir hann ekki búið að framlengja skerðingartímabilið með formlegum hætti þó útlitið sé ekki gott.

Helmingur raforku á svæðinu er fluttur inn með Vesturlínu. Elías segir tækifæri til frekari raforkuöflunar og nefnir 10 MW Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði og stórt verkefni um virkjun í Vatnsdal. „Við viljum kanna ofan í kjölinn hvort það fái að fara inn í rammaáætlun og svo eðlilega leið – fái sína úttekt í stjórnkerfinu. Síðan færi slík virkjun í umhverfismat ef hún færi í nýtingarflokk.“

Allir Vestfirðir á vatnsafli

Hann segir vatnsmælingar hafa staðið yfir í Vatnsdal síðan fyrir 1980 og að þar sé hægt að reisa 20 MW grunnvirkjun en einfalt að auka afl hennar upp í 30 MW án þess að framleiða endilega meiri orku.

Hægt væri að líta á þessi 10 auka MW sem varaafl fyrir svæðið. „Þegar Vesturlína verður straumlaus höfum við ekki nægt afl innan svæðisins í vatnsaflsvirkjunum þannig að hér er verið að dísilkeyra varaafl. Með 30 MW virkjun gætum við keyrt alla Vestfirði á vatnsafli og hefðum ekki þörf fyrir varaafl.“ Elías segir engan mun verða á umhverfisáhrifum af 20 MW virkjun og 30 MW. Virkjunin yrði eins og myndi nýtast við sama lónið.

Höf.: Ólafur Pálsson