Gunnar J. Straumland segir á Boðnarmiði: Stundum er ég líkast til fullgagnrýninn á breyskleika mannanna. Til að bætta ráð mitt orti ég hugheila vorvísu: Best mér finnst að bæti geð, bót við andans stíflum, að væflast um og vera með vorsins mörgu fíflum

Gunnar J. Straumland segir á Boðnarmiði: Stundum er ég líkast til fullgagnrýninn á breyskleika mannanna. Til að bætta ráð mitt orti ég hugheila vorvísu:

Best mér finnst að bæti geð,

bót við andans stíflum,

að væflast um og vera með

vorsins mörgu fíflum.

Limra eftir Jón Jens Kristjánsson:

Á Sveini var mikill magi

og múndering gekk úr lagi

uns síðfrakka gráan

þeir saumuðu á' ann

í Seglagerðinni Ægi.

Svona var það. Magnús Halldórsson yrkir:

Byssan oft var býsna góð,

ef brestur varð á föngum.

En sögur lifðu sem og ljóð,

þó sylti þjóðin löngum.

Hafsteinn Reykjalin Jóhannesson horfði á RÚV eitt kvöldið:

Klám er ósmekk-legt og loðið,

líkist því sem er ó-soðið.

Teygjanlegt og til þess fallið,

að taka fyrir aðal-spjallið.

Já …

Klámið þar var leiðinlegt,

lýsir þeim sem njóta.

Gengur fram af fagri nekt

og fær menn til að blóta.

Limra eftir Kristján Eldjárn:

Ljúft er að láta sig dreyma

og líða um heima og geima.

En það er helvíti hart

að hugsa svo margt

að það hafist ei undan að gleyma.

Þórbergur Þórðarson orti:

Ég ann þér að ævikveldi,

elsku Helga mín,

og hugsa oft um það hnugginn

hver muni biðja þín.

Magnús Halldórsson yrkir:

Varla lengur virðast hrein,

vinstri grænu fötin.

Svo mun ekki síðra mein,

sjálfseyðingarhvötin.

Halldór Halldórsson spyr: Hríslan mín á holtinu er að líta í kringum sig á óvenju sólríkum degi! Henni finnst margir setja upp sólgleraugu, der og annan sólforðunarbúnað!

Þarf ég geislum sunnu að sóa

og setja upp derið?

Er vorið að koma og grundirnar gróa;

getur það verið?