Í Hansenberg Arna Thoroddsen bregður á leik með hundi.
Í Hansenberg Arna Thoroddsen bregður á leik með hundi.
Arna Thoroddsen hóf nám í dýrahjúkrun í Tækniskólanum Hansenberg í Kolding í Danmörku í ársbyrjun og vinnur nú á Dýralæknastofu Dagfinns á Skólavörðustíg og er það hluti námsins. Hún segist lengi hafa stefnt að því að verða dýralæknir, keyra á milli …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Arna Thoroddsen hóf nám í dýrahjúkrun í Tækniskólanum Hansenberg í Kolding í Danmörku í ársbyrjun og vinnur nú á Dýralæknastofu Dagfinns á Skólavörðustíg og er það hluti námsins. Hún segist lengi hafa stefnt að því að verða dýralæknir, keyra á milli sveita og hesthúsa og sinna hestum, en eftir að hafa unnið á Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti og fengið upplýsingar um dýrahjúkrunarnámið hafi hún ákveðið að byrja á því. „Mér fannst mjög skemmtilegt að vinna á spítalanum og féll alveg fyrir þessum námsmöguleika, fannst hann mjög spennandi.“

Dýr hafa heillað Örnu frá æsku. „Ég ólst upp með hestum,“ útskýrir hún. Áhuginn á hestamennsku hafi reyndar aðeins minnkað á unglingsárunum en þá hafi hún hænst þeim mun meira að hundum. „Ég hef alltaf verið sjúk í hunda og á óskalista mínum var hundur alltaf í 1., 2. og 3. sæti. Eftir að ég eignaðist hund langaði mig bara í fleiri. Ég hef alltaf haft áhuga á dýrum og viljað vinna með dýrum.“

Skemmtun

Námið skiptist í tíu vikna bóklegt og verklegt nám í Hansenberg tvisvar á ári og vinnu á dýralæknastofu þess á milli. Önnur önn Örnu hefst í ágúst, en námið er alls fimm annir, samtals um þrjú og hálft ár. „Þetta er skemmtilegt fyrirkomulag og ég læri mikið á því að vinna,“ segir hún.

Boðið er upp á fjölbreytt nám í Hansenberg og líkir Arna skólanum við Tækniskólann. Meðal annars sé hægt að læra að annast dýr í dýragarði. Skólinn eigi dýragarð og þar kenni margra grasa. „Þar er meðal annars hundahús, þar sem nemendur í dýrahjúkrun geta æft sig í meðhöndlun hunda,“ segir Arna. „Á fyrstu önninni fengum við tækifæri til að greina ýmislegt í fari þeirra undir handleiðslu kennara.“

Nokkrir Íslendingar hafa verið í skólanum og nú eru Arna og Inga Björg Magnea Bjarnadóttir samstiga í náminu. „Við ákváðum að vera ekki saman í herbergi á heimavistinni til að kynnast fleiri nemendum og ná fyrr tökum á dönskunni.“

Þó Arna hafi lengi gælt við að vera dýralæknir lærði hún fatahönnun í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. „Þá ætlaði ég mér að verða fatahönnuður, því ég hélt að ég gæti ekki orðið dýralæknir,“ segir hún og bætir við að margir í móðurætt sinni hafi verið og séu skapandi í höndunum. „Mér fannst fatahönnunin skemmtileg en eftir stúdentsprófið langaði mig mest til að vinna með dýr. Ég tók því u-beygju og er mjög þakklát fyrir það.“

Áður en Arna sótti um í Hansenberg tók hún eina önn í líffræði í Háskóla Íslands til að undirbúa sig fyrir frekara nám. „Ég var líka með hugann við að fara í dýralæknisfræði en þegar ég fékk inngöngu í dýrahjúkrunarnámið í fyrstu tilraun ákvað ég að prófa það, sjá til hvernig mér litist á enda nægur tími til að skipta aftur um skoðun. Fyrsta önnin var skemmtileg, það er yndislegt að vinna hérna og ég er alveg opin fyrir því að verða dýralæknir síðar.“