Donald Trump
Donald Trump
Saksóknarar í máli New York-ríkis gegn Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana kröfðust þess í gær að hann yrði sektaður um 10.000 bandaríkjadali fyrir að hafa brotið gegn fyrirskipunum dómarans í málinu, Juans Merchans

Saksóknarar í máli New York-ríkis gegn Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana kröfðust þess í gær að hann yrði sektaður um 10.000 bandaríkjadali fyrir að hafa brotið gegn fyrirskipunum dómarans í málinu, Juans Merchans.

Merchan bannaði Trump í síðasta mánuði að tjá sig eða skipa öðrum að tjá sig um möguleg eða þekkt vitni í málinu, auk þess sem honum var bannað að tjá sig um starfsfólk réttarins og fjölskyldumeðlimi. Þá var Trump einnig meinað að tjá sig um meðlimi eða skipan kviðdómsins. Sögðu saksóknarar að Trump hefði brotið gegn banninu í minnst tíu skipti, og vildu þeir að Merchan sektaði Trump um þúsund bandaríkjadali fyrir hvert skipti. Sögðu saksóknarar að svo virtist sem Trump vildi að sér yrði varpað í fangelsi fyrir ummæli sín.

Todd Blanche verjandi Trumps sagði í gær að skjólstæðingur sinn hefði ekki brotið gegn banninu og hann væri að reyna eftir bestu getu að fylgja ákvæðum bannsins. Sagði Merchan þá að Blanche væri að glata öllum trúverðugleika sínum hjá dóminum. Merchan ákvað hins vegar í gær að bíða með að kveða upp úrskurð sinn.