Fullbúið Veiðihús Six Rivers Project við Miðfjarðará í Bakkafirði verður opnað í maí og tekið í notkun fyrir sumarið. Tvö ný hús eru á teikniborðinu.
Fullbúið Veiðihús Six Rivers Project við Miðfjarðará í Bakkafirði verður opnað í maí og tekið í notkun fyrir sumarið. Tvö ný hús eru á teikniborðinu. — Ljósmynd/Six Rivers Project
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Ráðgert er að framkvæmdir við ný veiðihús við Hofsá í Vopnafirði og Hafralónsá í Þistilfirði hefjist í sumar eða í haust. Breyta þarf deiliskipulagi fyrir báðar byggingarnar og voru tillögur þar að lútandi kynntar nýverið. Bæði þessi hús eru á vegum breska auðmannsins Jims Ratcliffes.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Ráðgert er að framkvæmdir við ný veiðihús við Hofsá í Vopnafirði og Hafralónsá í Þistilfirði hefjist í sumar eða í haust. Breyta þarf deiliskipulagi fyrir báðar byggingarnar og voru tillögur þar að lútandi kynntar nýverið. Bæði þessi hús eru á vegum breska auðmannsins Jims Ratcliffes.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu kynnti Ratcliffe árið 2021 áform um að leggja minnst fjóra milljarða í byggingu nýrra veiðihúsa. Þegar hefur verið lokið við stækkun veiðihússins við Selá og nú er unnið að lokafrágangi við veiðihús við Miðfjarðará í Bakkafirði. Byggingin skiptist í tvær einingar sem tengdar eru saman með glergangi, samtals um 666 fermetrar að stærð. Þá er ónefnt glæsilegt hús í Vesturárdal sem Ratcliffe hyggst nýta fyrir sig og sína. Þar er í raun um að ræða sex hús saman í þyrpingu auk bílskúrs og hlöðu, alls um 1.400 fermetrar.

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Project, segir í samtali við Morgunblaðið að húsið í Bakkafirði verði opnað í maí og tekið í notkun fyrir sumarið. „Húsið hans Ratcliffes í Vesturárdal verður tilbúið í sumar. Það hefur tafist töluvert út af göllum og fleiru slíku. Við erum að vonast eftir að geta byrjað bæði á húsunum við Hafralónsá og Hofsá í sumar eða haust. Í það minnsta jarðvinnu, lagningu rafmagns, vatns og þess háttar. Það er auðvitað háð leyfum en er í ferli. Ef að líkum lætur getum við þá klárað húsið við Hofsá 2025 og tekið það í notkun 2026.“

Eftir því sem fram kemur í deiliskipulagstillögu sem kynnt hefur verið á vef Vopnafjarðarhrepps verður nýtt veiðihús við Hofsá allt að 1.300 fermetrar. Þar verður gisti- og veitingaþjónusta með gistirými fyrir allt að 25 manns með starfsmönnum. Að sögn Gísla verður gamla veiðihúsið við Hofsá notað fyrir silungasvæðið þegar fram líða stundir.

Í skipulagstillögu fyrir nýja lóð í landi Tungusels austan við Hafralónsá kemur fram að þar eigi að reisa tvær byggingar, veiðihús og starfsmannahús. Heildarflatarmál bygginga er áætlað um 1.260 fermetrar. Í húsunum verður veitinga- og gistiaðstaða fyrir allt að 20 gesti ásamt herbergjum fyrir starfsfólk. Ekki er ákveðið hvaða hlutverki núverandi veiðihús muni gegna í framhaldi byggingar á nýju veiðihúsi. Líklegast verður það áfram notað undir gistingu, tengt veiði í ánni, segir í tillögunni.

Gísli segir að sala veiðileyfa fyrir sumarið hafi gengið ágætlega þótt markaðurinn hafi oft verið líflegri en nú. „Við búum að því að eiga trygga viðskiptavini, bæði erlenda og innlenda, og ég held að við séum að uppskera eftir að hafa reynt að bæta aðstöðuna á undanförnum árum,“ segir Gísli. Hann segir það ekkert leyndarmál að reynt sé að höfða til vel stæðra viðskiptavina. Ekki sé bara verið að selja fólki veiðiferðir heldur heildarpakka. „Við erum að selja fólki íslenska náttúru með aðgangi að þessum laxveiðiám, þjónustu og góðri aðstöðu. Það er okkar módel til að geta fjármagnað uppbyggingarstarfsemi og rannsóknir.“