Mótmæli Grindvíkingar mótmæla því hversu langan tíma taki að afgreiða umsóknir og gera kaupsamninga.
Mótmæli Grindvíkingar mótmæla því hversu langan tíma taki að afgreiða umsóknir og gera kaupsamninga. — Morgunblaðið/Eggert
Óskar Bergsson oskar@mbl.is Fjölmargir aðilar koma að undirbúningi og gerð kaupsamninga fyrir fasteignafélagið Þórkötlu vegna uppkaupa á húseignum Grindvíkinga, að því er fram kemur í skriflegum svörum Þórkötlu við fyrirspurnum Morgunblaðsins.

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Fjölmargir aðilar koma að undirbúningi og gerð kaupsamninga fyrir fasteignafélagið Þórkötlu vegna uppkaupa á húseignum Grindvíkinga, að því er fram kemur í skriflegum svörum Þórkötlu við fyrirspurnum Morgunblaðsins.

Nýtur félagið stuðnings víða úr stjórnsýslunni, meðal annars frá sýslumannsembættum. Þegar allt er talið starfa á bilinu 20 og 30 manns að verkefnum félagsins um þessar mundir. Þar af eru um tíu manns sem sinna verkefnum þess nær eingöngu.

Eins og fram hefur komið hafa Grindvíkingar mótmælt vinnubrögðum Þórkötlu harðlega. Því er haldið fram að verið sé að mismuna einstaklingum og að það dragist að veita fólki nauðsynleg svör. Reglum sé breytt og þeir einir fái afgreiðslu sem eiga skuldlausar eignir.

Fer fyrst til sýslumanns

Samkvæmt svörum Þórkötlu um verklagið er skjalagerðin í grunninn rafræn og fer í gegnum kerfi sýslumanna, það sama og heldur utan um umsóknir aðila. Eftir að umsókn hefur verið samþykkt og öllum nauðsynlegum gögnum verið skilað inn verður til rafrænn kaupsamningur. Hann er þá sendur fólki sem er boðað í rafræna undirritun. Samningar eru undirritaðir rafrænt af bæði Þórkötlu og seljendum. Í kjölfarið fara samningarnir í gegnum rafræna þinglýsingu.

Umsókn fer fyrst til yfirferðar hjá starfsfólki sýslumanns sem sér til þess að allar grunnupplýsingar séu réttar. Stjórn félagsins fer síðan yfir fyrirhuguð kaup á sérstökum fundum sem haldnir eru á 2-3 daga fresti. Ferlið er að miklu leyti rafrænt og skjalagerð því ekki með hefðbundnum hætti. Það eru nokkrir aðilar sem koma að vinnslunni. Þeir kaupsamningar sem búið er að gera voru allir undirritaðir rafrænt. Væntingar standa til þess að yfir 100 kaupsamningar verði undirritaðir í þessari viku. Stefnt er að því að halda þeim afköstum áfram og að klára 150 umsóknir í vikunni eins og fram kom í samtali Sigurðar Inga Jóhannssonar við mbl.is í síðustu viku. Ekki stendur til að útvista kaupsamningsgerð á starfandi fasteignasölur.

Í svörum Þórkötlu segir að kaupsamningsgerð sé að mestu rafræn og því mat fyrirtækisins að þessi leið hafi verið sú hraðvirkasta sem í boði var.

„Þórkatla fylgir lögum sem sett hafa verið um starfsemina og þar er ekki fjallað um slíka aðstoð. Þetta er því spurning fyrir þá sem fara með löggjafarvaldið,“ segir í svörunum.

Í mótmælum Grindvíkinga var því haldið fram, sem fyrr segir, að einstaklingum væri mismunað og þeir einir fengju afgreiðslu sem ættu skuldausar eignir.

Því svarar Þórkatla skriflega á þennan veg:

„Á sunnudag var endanlega gengið frá undirritun á samningum við 18 lánveitendur, sem er forsenda fyrir því að við getum almennt unnið að frágangi skuldsettra eigna. Við vinnum nú að útfærslu á samskiptum við lánastofnanir um uppgreiðslu lána og stöðu lána á kaupsamningsdegi.“

Flóknara ferli

100 samningar í vikunni

Ferlið hjá Þórkötlu hefur verið flóknara og tímafrekara en áætlað var.

Nú þegar undirbúningsvinna er að klárast ættu hlutirnir að gerast hraðar og vænta má þess að gengið verði frá 150 umsóknum í vikunni auk þess sem 100 kaupsamningar verði undirritaðir í þessari viku eins og fram kom í máli fjármálaráðherra á mbl.is í síðustu viku.