Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar segir að fyrirtækið hafi háleit markmið um sölu Collab.
Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar segir að fyrirtækið hafi háleit markmið um sölu Collab. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Andri Þór Guðmundsson hefur starfað sem forstjóri Ölgerðarinnar frá árinu 2022. Hann segir að það hafi skipst á skin og skúrir í rekstrinum en Ölgerðin hafi alla tíð lagt áherslu á öfluga vöruþróun. Andri segir að hann hafi ávallt verið mikill talsmaður sjálfbærnivegferðar en sér þyki reglu­verkið vera of íþyngjandi á köflum.

„Þótt Ölgerðin sé yfir 100 ára gamalt, rótgróið fyrirtæki þá lítum við á okkur fyrst og fremst sem fyrirtæki í vexti og tölurnar hafa sýnt fram á það,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í samtali við ViðskiptaMoggann.

Andri hóf störf hjá Ölgerðinni í maí 2002 en þá starfaði hann sem ráðgjafi. Stuttu síðar var hann ráðinn fjármálastjóri fyrirtækisins og í nóvember 2002 var gengið frá ráðningu hans sem forstjóra.

„Árið 2007 kaupum við Októ Einarsson, fráfarandi stjórnarformaður Ölgerðarinnar, 70% í Ölgerðinni og Danól sem voru sérstæð fyrirtæki á þessum tíma og síðan þá höfum við verið í félagi saman og leitt fyrirtækið á markað þar sem við erum í dag.“

Andri segir að það hafi gengið á ýmsu í rekstrinum í gegnum tíðina og reksturinn hafi á köflum reynst krefjandi. Um tíma hafi fyrirtækið til dæmis skuldað 10x EBITDA en í dag skuldar Ölgerðin 1x EBITDA.

„Það má segja að ansi margt hafi breyst og dæmi um það er að við kynntum á dögunum að Ölgerðin hygðist greiða hluthöfum sínum arð í fyrsta sinn á þessari öld. Það er óhætt að segja að það hafi skipst á skin og skúrir en vöxturinn hefur sannarlega verið ævintýri líkastur,“ segir Andri og bætir við að frá árinu 2002 hafi fyrirtækið verið í 13% árlegum vexti og síðastliðin þrjú ár vaxið um 73,5%.

„Það verður að teljast vel af sér vikið fyrir 111 ára gamalt fyrirtæki, en við höfum ávallt haft þá stefnu að bjóða betri þjónustu og breiðara vöruúrval. Framlegðin frá eigin vörumerkjum var í kringum 42% af heildarframlegð fyrirtækisins árið 2015 en er nú um 50%. Það er í samræmi við þessar auknu áherslur sem við höfum lagt á að byggja upp eigið vörumerki og þetta eru áþreifanleg verðmæti. Það geta allir misst viðskiptasambönd en við missum ekki okkar eigin vörumerki.“

Andri segir að í gegnum tíðina hafi ekki orðið miklar breytingar á samkeppnisumhverfinu.

„Við höfum alltaf verið að keppa við stóra og sterka aðila í gos- og bjórframleiðslu. Við höfum aðgreint okkur frá samkeppninni með betri þjónustu og öflugri vöruþróun. Við höfum sem fyrirtæki alltaf haft það sem lykilatriði að staðna ekki, heldur þróa og koma með nýjar vörur á markað.“

Innanlandsstarfsemi Ölgerðarinnar skiptist í þrjú tekjusvið en þau eru Egils óáfengt, Egils áfengt og Danól.

Andri segir að þessi svið séu skipulögð út frá viðskiptavinunum en ekki vörunum. Óáfenga sviðið þjónustar stórmarkaði og skyndibitastaði meðan áfenga sviðið er með ÁTVR, hótel og veitingastaði. Þriðja sviðið er svo Danól en því er skipt í þrjá hluta; matvörusvið, stóreldhús og loks sérvörusvið sem er mjög öflugt í snyrtivörum.

Eigum til að flækja lífið um of

Andri kveðst vera mikill talsmaður sjálfbærnivegferðar en honum finnst þó á köflum regluverkið og kröfurnar vera of íþyngjandi.

„Þótt almennt eftirlit sé bæði nauðsynlegt og heilbrigt, er eftirlitsumhverfið alltaf að verða fyrirferðarmeira og kröfurnar sem settar eru á okkur varðandi sjálfbærni, skýrslugjöf og annað verða sífellt meiri. Það kostar bæði tíma og peninga að skrásetja allar þessar fjárhagslegu upplýsingar í samræmi við þessar Evrópureglur.“

Myndir þú segja að þessar reglur væru að einhverju leyti óþarfar?

„Nei, ég ætla ekki að halda því fram, ég tel að það væri óvarlegt. Ég er mikill talsmaður sjálfbærnivegferðar en hér á Íslandi eigum við það til að flækja lífið um of, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Við höfum verið að gullhúða þessar Evrópureglur og það mætti gera minna af því þar sem þetta krefst sífellt meiri orku og tíma frá fyrirtækjunum.“

Ölgerðin er með þrjú tekjusvið og fjórða stoðin er útflutningur. Útflutningsstarfsemi fyrirtækisins samanstendur annars vegar af Iceland Spring, en sú starfsemi er í sérstöku félagi þar sem megnið af tekjunum kemur frá Bandaríkjunum, og hins vegar af útflutningi á virknidrykknum Collab.

„Við fengum engar tekjur frá útflutningi á Collab á síðasta ári en við gerum ráð fyrir að við fáum tekjur af sölunni á þessu reikningsári. Við viljum mögulega á seinni stigum fá inn erlenda fjárfesta sem geta stutt okkur í að auglýsa vörumerkið víðar en við höfum þegar gert, en við lítum á útflutninginn á Collab sem langtímaverkefni og reiknum með að það verði ekki hagnaður á útflutningnum næstu árin.“

Ölgerðin hefur gefið út að reiknað sé með að minnsta kosti 200 milljóna króna neikvæðum áhrifum á EBITDA á þessu ári.

Háleit markmið varðandi Collab

Sala á Collab er nú hafin í Danmörku og Finnlandi en áður hafði staðið yfir tilraunasala í Noregi. Góð dreifing er á drykknum og sala gengur samkvæmt áætlunum. Áætlanir gera ráð fyrir að töluverðan tíma taki að festa vöruna í sessi og ná hlutdeild á mörkuðum. Nokkrar af stærstu smásölukeðjum Danmerkur hafa tekið Collab í sölu, meðal annars 7-Eleven, Netto, Fötex og Bilka. Í Finnlandi verður Collab til sölu um allt land í verslunum K-Citymarket og K-Supermarket ásamt völdum verslunum K-Market. Markaðsvinna er nú í gangi og undirbúningur er að hefjast vegna þriggja annarra markaða.

„Við erum að fjárfesta og þess vegna verðum við að sýna þolinmæði. Það er ekki hægt að reikna með að Collab slái strax í gegn á erlendri grundu líkt og drykkurinn hefur gert á Íslandi. Collab kom á markaðinn árið 2019 og fjórum árum seinna er salan komin yfir 10 milljónir dósa. Þetta getum við ekki leikið eftir á erlendu mörkuðunum en þó hafa viðtökurnar sem við höfum fengið farið fram úr okkar björtustu vonum. Því fylgir alltaf ákveðin áhætta að fara af stað í svona stórt verkefni eins og að markaðssetja íslenskan drykk erlendis, en þetta er líka einstakt tækifæri til að ná árangri og við höfum aldrei upplifað aðrar eins viðtökur við nokkurri vöru sem við erum með.“

Stefna ekki á netverslun

Ölgerðin hefur hingað til ekki samið við innlendar áfengisnetverslanir eins og smarikid.is og sante.is um að hafa bjórinn frá fyrirtækinu í netverslun.

„Við tókum þá ákvörðun að selja öllum sem eru með heildsöluleyfi á áfengi vörurnar okkar, svo lengi sem semst um verð. Allir sem hafa tilskilið leyfi eru velkomnir í viðskipti við okkur og við seljum nú þegar til nokkurra verslana. Í einhverjum tilfellum hefur ekki samist um verð eins og stundum vill verða.“

Hafið þið skoðað að stofna ykkar eigin netverslun?

„Það er ekki eitthvað sem við erum með á prjónunum, ekki á þessari stundu.“

Ölgerðin tók nýlega í gagnið nýja framleiðslulínu og að sögn Andra hefur það gengið virkilega vel.

„Þetta er dæmi um vel heppnaða uppsetningu, framleiðnin hefur aukist og einingakostnaður hefur lækkað. Það hefur síðan gert það að verkum að við höfum getað komist af með minni verðhækkanir en ella. Það eru enn möguleikar á sjálfvirknivæðingu á öðrum framleiðslusölum en við höfum verið að einbeita okkur að sjálfvirknivæðingu í vöruhúsinu okkar og erum að taka inn sjálfvirka lyftara sem auka framleiðni í vöruhúsinu.“

Andri bætir við að ætlunin sé ekki að sjálfvirknivæða alla ferla heldur einblína á vöruhúsið enda komi mesta hagræðingin með því móti.

„Við stefnum líka á að auka afkastagetu okkar í bjórframleiðslu með nýjum tækjabúnaði, sem og í ölsuðu og að tappa á kúta. Salan hefur aukist mikið og mun halda því áfram þegar við náum einingakostnaðinum enn frekar niður. Við vitum sem er að það er alltaf hægt að gera betur í dag en í gær og enn betur á morgun en í dag.“

Hanna nýtt vöruhús

Spurður hvað sé fram undan hjá fyrirtækinu segir Andri að það sé í startholunum að hanna nýtt vöruhús.

„Það er spennandi verkefni og við stefnum að því að geta tekið það í notkun á næstu þremur árum. Í framhaldi losum við um pláss í núverandi vöruhúsi til að setja inn nýjar framleiðslulínur sem geta framleitt vörur sem eru í vöruþróun hjá okkur í dag en úrvalið og verkefnin í þeim geira hafa aldrei verið fleiri eða betri.“

Andri bendir þannig á að í síðustu viku hafi fyrirtækið hafið sölu á nýrri vöru, Collab Hydro, en um er að ræða íþróttadrykk sem inniheldur mikið af steinefnasöltum, kollageni og vítamínum.

„Við teljum að þessi drykkur skírskoti til nútíma Íslendingsins. Síðan hefur Mist Uppbygging drykkurinn okkar fengið góðar viðtökur. Þannig að það eru spennandi nýjungar sem eiga eftir að líta dagsins ljós á næstu vikum.“

Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar hefur hækkað þó nokkuð síðan fyrirtækið var skráð á markað árið 2022. Andri segir að góðum og skynsömum rekstri, góðu vöruúrvali og auðvitað afkomutölum sé þar fyrst og fremst að þakka.

Þegar Ölgerðin var skráð á markað vakti það athygli hversu margir ungir einstaklingar tóku þátt í útboðinu, en um 25% þeirra sem tóku þátt voru undir þrítugu. Andri segist telja og vona að ástæðan fyrir því sé að vörur Ölgerðarinnar höfði til ungs fólks.

„Ég held að við höfum vakið athygli fyrir að vera með puttann á púlsinum, hlusta á neytendur, vera lífleg og spræk en ekki gamaldags rótgróið fyrirtæki heldur fremur framsækið nýsköpunarfyrirtæki. Ég tel að vörurnar okkar hafi mikla skírskotun til ungs fólks og ég held að það gagnist okkur bara mjög vel í vextinum eftir skráningu að hafa fengið svona marga eigendur sem eru líka dyggir kaupendur og eru að kaupa vörurnar okkar. Því tel ég að skráningin okkar hafi verið skólabókardæmi um vel heppnað verkefni.“

Ölgerðin skilaði uppgjöri í síðustu viku og þar kom fram að fyrirtækið hagnaðist um 3,3 milljarða króna á síðasta fjárhagsári sem lauk 29. febrúar síðastliðinn, en félagið skilaði 2,5 milljarða hagnaði árið áður.

Velta fjárhagsársins jókst um 6,9 milljarða króna, eða 18%. Um 32% af veltuaukningu má rekja til þess að nú er Iceland Spring hluti af samstæðu Ölgerðarinnar, um 17% til aukinnar bjórsölu og um 13% til aukinnar sölu á virknidrykkjum.

Meirihluti aukningarinnar kemur til vegna meiri drykkjarvörusölu en aukningin á seldum lítrum innanlands er ríflega 7%. Aukning í sölu fjölda eininga af framleiðsluvöru er 9,2%. Af þessum tölum má sjá að áframhaldandi þróun á markaði er í átt að minni skammtastærðum og sykurlausum virknidrykkjum. Um 70% af veltuaukningu innanlands má rekja til smásölu.

Selja stóran hluta

Gengið hefur verið frá sölu á helmingshlut OA eignarhaldsfélags ehf. í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni til fjárfestingafélagsins Bóksals ehf. Jafnir eigendur OA ehf. eru þeir Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, og Andri Þór forstjóri félagsins en eigendur Bóksals eru hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir. Kaupverðið var tæpir þrír milljarðar króna og miðaðist við meðaldagslokagengi síðustu fjóra viðskiptadaga fyrir viðskiptin.

Við kaupin eignaðist Bóksal 5,6% hlut í Ölgerðinni en fyrir átti félagið 4,71% hlut. Sindrandi, sem einnig er félag í eigu Boga og Lindu, á 10,08% hlut og samtals fer því eignarhlutur hjónanna yfir 20% í Ölgerðinni. OA ehf. á eftir söluna 5,6% hlut. Þá mun eignarhald OA ehf. taka breytingum og eignast Andri Þór 75% hlut í því á móti 25% hlut Októs. Við þessi tímamót hefur Októ jafnframt tilkynnt að hann gefi ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu á næsta aðalfundi Ölgerðarinnar sem fram fer 23. maí næstkomandi. Bogi Þór hefur ákveðið að gefa kost á sér í stjórnarkjöri á aðalfundinum.

Andri Þór segir að Bogi Þór og Linda hafi stutt við Ölgerðina bæði í orði og á borði allt frá árinu 2016 og hann hlakki til áframhaldandi samstarfs við þau.

„Við deilum sömu sýn á framtíð Ölgerðarinnar og þau ótal tækifæri sem blasa við á fjölmörgum sviðum. Á sama tíma þakka ég Októ fyrir afar ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Hann er enn hluthafi í Ölgerðinni og fyrirtækið nýtur þekkingar hans og reynslu áfram,“ segir Andri Þór.

Spurður hvort breytingarnar kunni að þýða eitthvað fyrir hans stöðu segir Andri Þór svo ekki vera.

„Ég er vissulega að minnka minn hlut aðeins og ég átti auðvitað von á því að slíkar vangaveltur kæmu fram í ljósi þessa en svarið er skýrt nei, ég er ekki að fara að hætta. Mér þykir virkilega gaman í vinnunni og í öllum þeim verkefnum sem henni fylgja.“

Spurður hvort það verði einhverjar breytingar á stefnu fyrirtækisins í kjölfar breytts eignarhalds segir hann að framtíðarsýn fyrirtækisins sé alveg skýr.

„Við vitum hvert við erum að fara og ætlum okkur að halda áfram að vaxa. Það bíða okkar fjölmörg spennandi verkefni og það eru alltaf ný tækifæri sem blasa við,“ segir Andri Þór að lokum.

Hefur mikinn áhuga nýsköpun og sjálfbærni

Andri var kjörinn formaður Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem fram fór í febrúar síðastliðnum. Andri segir að hann hyggist halda áfram því góða starfi sem Viðskiptaráð hefur haft í heiðri og líka halda uppi gildum ráðsins.

„Við viljum almennt minnka umfang ríkisins og við munum halda áfram að vinna að því. Ég hef sjálfur mikinn áhuga á nýsköpun og sjálfbærni og ég tel að þetta tvennt fari mjög vel saman og vil leggja áherslu á það í mínu starfi sem formaður.“

Andri segir að sér finnist þeir kjarasamningar sem hafa verið undirritaðir farsælir fyrir íslenskt atvinnulíf.

„Það verður gott að vera með þennan fyrirsjáanleika næstu árin. Ég verð að hrósa samningsaðilum fyrir að hafa tekist að landa samningum í erfiðu umhverfi með það skýra og sameiginlega markmið að ná tökum á verðbólgunni og lækka vexti. Það mun gagnast bæði heimilum og fyrirtækjum. Ég hef trú á að þessi stefna haldi en ég óttast að samningarnir verði til þess að verðbólgan verði viðvarandi lengur en okkur grunar. Það er til dæmis ekki fyrirséð með allar verðhækkanir, til dæmis hafa margir af okkar birgjum hækkað sín verð og við höfum einnig séð hækkanir á hrávöru eins og kakó og sykri.“