Tilþrif Keflvíkingurinn Remy Martin sækir að Álftnesingnum Dino Stipcic á Álftanesi í gær en Martin fór mikinn fyrir Keflavík og skoraði 18 stig.
Tilþrif Keflvíkingurinn Remy Martin sækir að Álftnesingnum Dino Stipcic á Álftanesi í gær en Martin fór mikinn fyrir Keflavík og skoraði 18 stig. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Jaka Brodnik var stigahæstur hjá Keflavík þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik með öruggum sigri gegn Álftanesi í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins á Álftanesi í gær

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Jaka Brodnik var stigahæstur hjá Keflavík þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik með öruggum sigri gegn Álftanesi í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins á Álftanesi í gær.

Leiknum lauk með stórsigri Keflavíkur, 114:85, en Brodnik skoraði 21 stig, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu í leiknum. Keflavík vann einvígið samanlagt 3:1 og er því komið áfram í undanúrslitin þar sem liðið mætir nágrönnum sínum í Grindavík.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru 14 stigum yfir að fyrsta leikhluta loknum, 28:14. Keflvíkingar juku forskot sitt enn frekar í öðrum leikhluta og var munurinn 19 stig í hálfleik, 58:39, Keflavík í vil.

Keflvíkingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og skoruðu fyrstu fimm stig síðari hálfleiks. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 91:60, Keflavík í vil. Fjórði leikhluti var hálfgert formsatriði fyrir Keflvíkinga, sem áttu sigurinn vísan, og ungir og efnilegir leikmenn Keflavíkur fengu tækifæri til þess að spreyta sig á lokamínútunum og komust vel frá sínu.

Remy Martin fór mikinn fyrir Keflvíkinga og skoraði 18 stig, ásamt því að taka tvö fráköst og gefa 12 stoðsendingar, en Douglas Wilson var stigahæstur hjá Álftanesi með 16 stig, sex fráköst og tvær stoðsendingar.

Suðurnesjaliðin öll áfram

Njarðvík og Þór frá Þorlákshöfn mætast í oddaleik um sæti í undanúrslitunum á morgun í Njarðvík en staðan í einvíginu er 2:2. Njarðvík endaði í fjórða sæti deildarinnar en Þórsarar í því fimmta og því ljóst að sigurvegarinn úr einvíginu mætir deildarmeisturum Vals í undanúrslitum. Valsmenn unnu Hött í 8-liða úrslitunum, 3:1.

Keflvíkingar mæta nágrönnum sínum í Grindavík eins og áður sagði en Grindavík hafnaði í öðru sæti deildarkeppninnar og Keflavík í því þriðja. Grindavík vann öruggan sigur gegn Íslandsmeisturum Tindastóls í 8-liða úrslitunum, 3:0.

Undanúrslitin hefjast strax eftir helgi, mánudaginn 29. apríl, en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu.