Líney Hrafnsdóttir fæddist á Ólafsfirði 25. maí 1963. Hún lést á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri 14. apríl 2024.

Hún var dóttir hjónanna Lilju Kristinsdóttur, f. 8. apríl 1941, d. 23. júní 2015, og Hrafns Ragnarssonar, f. 25. nóvember 1938, d. 11. nóvember 2002. Systkini hennar eru Kristinn Eiríkur, f. 21. júlí 1960, Sigurlaug, f. 20. júlí 1961, og Örn, f. 31. júlí 1969, d. 6. nóvember 1993. Líney er af svokallaðri Miðbæjarætt á Ólafsfirði.

Líney ólst upp á Ólafsfirði og gekk þar í barna- og grunnskóla. Að námi loknu hóf hún að vinna við fiskvinnslustörf og þótti hún dugleg, hraðvirk og vandvirk svo af bar. Hún reri m.a. með Hrafni föður sínum eina vetrarvertíð á Arnari ÓF og fór á síldarvertíðir austur á land svo eitthvað sé nefnt í þeim efnum. Þessi líkamlega erfiða vinna tók sinn toll og Líney skipti algerlega um starfsvettvang og hóf störf á hjúkrunarheimilinu Hornbrekku á Ólafsfirði og vann þar um langt árabil.

Líney giftist 31. desember árið 1984 Georg Páli Kristinssyni, f. 8. febrúar 1961, trésmiði frá Siglufirði. Hann er sonur Kristins Georgssonar, f. 31. desember 1933, d. 13. júní 2021, og Hönnu Stellu Sigurðardóttur, f. 26. nóvember 1935, d. 21. desember 1996. Systur hans eru Inga Sjöfn og Fríða Birna.

Dætur Líneyjar og Georgs eru Hrafnhildur Lilja, f. 28. mars 1979, d. 21. september 2008, Hanna Stella, f. 27. mars 1984, og Alvilda María, f. 22. maí 1987. Líney átti Hrafnhildi áður en þau Georg kynntust en hann gekk henni í föðurstað og ættleiddi hana að hennar ósk. Börn Hönnu Stellu eru Líney Mist Vestmann Daníelsdóttir og Alexander Hrafn Sigmundsson. Börn Alvildu Maríu og Heiðars Brynjarssonar eru Óliver Evan, Aron Dagur og Tinna Marín.

Útför Líneyjar fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 24. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku mamma.

Góðar minningar úr æskunni standa upp úr eins og öll ferðalögin, bæði innan og utanlands, allt brasið í Miðbæ, útilegurnar og bara hversdagsleikinn heima. Ég elskaði ekkert meira en þegar ég kom heim úr skólanum og þú varst nýbúin að baka skúffuköku, kleinur eða skinkuhorn eða þegar þið systurnar og amma Lilja tókuð ykkur saman í bakstursdag og fylltuð frystikisturnar af brauði. Þú varst alltaf áhugasöm um allt sem ég tók mér fyrir hendur, gast hlegið að því hversu hvatvís ég var þegar ég fékk einhverja flugu í hausinn eins og t.d. að breyta herbergjum eða hlutum í kringum mig, „er mín búin að breyta enn eina ferðina?“ heyrðist alltaf í þér.

Góðar minningar koma upp eins og þegar þú varst viðstödd fæðinguna hans Arons, þetta var svo skemmtilegur dagur og það gerði hann enn betri að hafa þig hjá okkur og upplifa þetta saman, þú varst í skýjunum.

Þegar þú, amma Lilja og Lauga heimsóttuð okkur Heiðar til Noregs og létuð ömmu Lilju sofa til fóta hjá ykkur systrum í einum litlum svefnsófa og létuð eins og vitleysingar við greyið ömmu sem gat ekki annað en hlegið að fíflalátunum í ykkur systrum.

Þú varst skemmtileg amma og reyndir alltaf að spila eða leika við barnabörnin og sýna þeim athugli í hvert skipti sem þið hittust og krakkarnir munu sko sakna ömmu sinnar.

Þú varst forvitnasta manneskja sem hef ég þekkt og gafst þig ekkert ef þig langaði að vita eitthvað. Þú komst fyrst að því hvað Óliver átti að heita fyrir tilviljun, með því að fara í bankann og opna bók á kennitölunni hans, kom nafnið hans upp. Þér fannst þetta svo sniðugt og ákvaðst að stríða okkur, í byrjun nafnaveislunnar réttirðu mér umslag sem ég átti að opna eftir að nafnið væri komið í ljós. Eftir athöfnina opnaði ég umslagið og inni í því stóð nafnið hans. Þú þóttist vera eitthvað dulræn og við áttum ekki orð yfir því hvernig þú fórst að þessu.

Pakkasjúkari einstaklingi hef ég ekki heldur kynnst, það sem þér þótti gaman bæði að gefa pakka og fá pakka, þú varst yfirleitt sú sem kjaftaði frá hvað var inni í pakkanum sem þú varst að gefa áður en þú gafst pakkann frá þér, allir pakkaleikirnir á annan í jólum sem enduðu með því að þú stalst flestum pökkunum í stelu-umferðinni.

Þrátt fyrir tíðar sjúkrahúsferðir síðasta árið áttum við góðar stundir saman og gátum spjallað um allt og ekkert, helsta umræðuefnið var yfirleitt krakkarnir, sem þú dýrkaðir að fá fréttir og myndir af.

Takk fyrir allt, ég mun sakna þín alltaf.

Þín dóttir,

Alvilda.

Það var fátt sem benti til annars í æsku en hún Líney systir mín ætti fram undan skemmtilegt og viðburðaríkt líf – hún var það orkumikil og uppátækjasöm sem barn og raunar langt fram eftir aldri. Það var aldrei lognmolla í kringum hana og dugnaðurinn var einstakur. Hún tók okkur eldri systkinunum langt fram í þessum efnum, þótt við værum engir aukvisar í fyrirganginum. Það var engu líkara en öll forvitnin úr Miðbæjarættinni væri saman komin í þessari lágvöxnu manneskju, en annað eins hefur hvorki sést fyrr né síðar og eltist það aldrei af henni. Í æsku varð til tvíeykið Lauga og Líney, systurnar sem alltaf héldu saman, jafnt á gleði- sem raunastundum. Ég man hana atast í leikjum, í fiskvinnu frá unga aldri, hún fór á vetrarvertíð til sjós með pabba og var bóngóð og liðleg á heimili, en skaplaus var hún ekki. Í samræmi við þetta allt saman gekk hún snemma í að eignast börn. Það lá þessi lifandis ósköp á alltaf hreint. Hún var ekki nema rétt rúmlega fermd þegar hún eignaðist hana Hrafnhildi Lilju sína og gaf henni nöfn foreldra okkar. Það var fallega gert og hún var mikil gleðigjöf inn í fjölskylduna. Síðar hitti hún Siglfirðinginn Gigga og þá smullu hlutirnir saman. Þau eignuðust tvær dætur í viðbót, Hönnu Stellu og Alvildu Maríu, og Giggi gekk Hrafnhildi í föðurstað eins og sannur herramaður. Mikil gleði og fallegt fjölskyldulíf. Þetta var allt eins og það átti að vera – en fékk samt ekki að vera nógu lengi.

Það er stundum haft á orði að áföll erfist milli kynslóða og það er eflaust rétt, maður sér þess merki á sumum stöðum. En það er einhvern veginn ekki alveg í lagi að sömu áföllin endurtaki sig aftur og aftur milli kynslóða í marga ættliði í bæði móður- og föðurætt, að foreldrar þurfi að horfa á eftir börnum sínum í gröfina á besta aldri. Það er einum of, en þannig er það nú samt. Þá þarf sterk bein og hugrekki og meira en venjulegan skammt af sálarþreki og kannski var það ekki til í því magni sem þörf var á þegar Líney fékk sínar feigðarfréttir. Það er ekki allra að burðast með hryllinginn um að barnið manns hafi verið myrt, en í mínum huga er slíkur atburður alltaf fjöldamorð. Það deyr of stór hluti af lífi margra við þannig atburð og fann Líney ekki ró í sínum beinum eftir þetta. Hún lifði og dó í þessu morði í 16 ár – féll að lokum fyrir hendi dótturmorðingjans.

Stundum sér maður ekki út úr skugganum – maður sér ekki ljósið sem skapar hann. Allt frá þessum sára missi og fram á þennan dag var eins og lífið snerist meira um dauðann en nokkuð annað, en Líney átti líka barnabarnaláni að fagna og þau gáfu henni fallegar gleðistundir. Þrátt fyrir að veikindi hennar ágerðust hratt í seinni tíð var auðvelt að draga fram í henni þessa glöðu og bestu systur sem ég man svo vel eftir og bjó undir brotnu yfirborðinu. Það veitti mér mikla gleði og sálarró að ná aftur sambandi við hennar góða sjálf áður en yfir lauk.

Ég votta eiginmanni, dætrum, barnabörnum og kærum vinum Líneyjar systur minnar mína dýpstu samúð á þessum sorgardegi.

Kristinn E. Hrafnsson.

• Fleiri minningargreinar um Líneyju Hrafnsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.