Landssamtök lífeyrissjóða vara við að fyrirhuguð framkvæmd á greiðslum sérstaks vaxtastuðnings til heimila með íbúðalán muni hafa í för með sér flækjur og hættu á villum auk umtalsverðs kostnaðar. Þetta kemur fram í umsögn LL til Alþingis við frumvarp fjármálaráðherra

Landssamtök lífeyrissjóða vara við að fyrirhuguð framkvæmd á greiðslum sérstaks vaxtastuðnings til heimila með íbúðalán muni hafa í för með sér flækjur og hættu á villum auk umtalsverðs kostnaðar. Þetta kemur fram í umsögn LL til Alþingis við frumvarp fjármálaráðherra.

Sérstaki vaxtastuðningurinn er hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana og á að greiða hann beint inn á höfuðstól lána eða til að lækka afborganir. Kemur hann til viðbótar almennum vaxtabótum en er þó eingöngu greiddur á yfirstandandi ári. Er talið að hann muni ná til ríflega 50 þúsund einstaklinga og kosta fimm til sjö milljarða.

Ákvarða á þessar sérstöku vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda í sumar. Þeir sem eiga rétt á þeim fá þó ekki fjárhæðina inn á eigin reikning heldur ber þeim að velja á þjónustusíðu sinni á skattur.is inn á hvaða lán skuli greiða fjárhæðina eða í afborganir af tilteknu láni. Í framhaldi af því afhendir ríkisskattstjóri Fjársýslunni upplýsingarnar og Fjársýslan á að miðla þeim innan fimm virkra daga til banka, lífeyrissjóða og annarra lánveitenda, sem ber síðan að ráðstafa greiðslunum beint inn á lánin eða til lækkunar á afborgunum.

Í umsögn LL segir að þetta sé afar flókið ferli til greiðslu umræddra vaxtabóta „sem einnig kæmi til með að hafa í för með sér umtalsverðan kostnað og villuhættu ef af verður“, segir í umsögninni. Mun einfaldara væri í framkvæmd að greiða þær milliliðalaust og beint til lántaka eins og er gert við greiðslu almennra vaxtabóta. Niðurstaðan væri nánast hin sama fyrir lántaka hvort heldur sem greitt er beint til hans eða greiðslur látnar ganga til lánveitanda til lækkunar á afborgun láns óski lántaki þess. Varar LL við að einskiptisaðgerðir sem þessar sem ætlaðar eru til hagsbóta fyrir lántaka verði útfærðar með þeim hætti að þeim fylgi verulegt flækjustig.

Í umsögn ASÍ segir hins vegar að verkalýðshreyfingin hafi talið mikilvægt að dregið verði úr þensluáhrifum aðgerða með fullri fjármögnun þeirra og réttri hönnun úrræða „Áhersla var því lögð á að sérstakar vaxtabætur greiddust inn á lán eða kæmu til lækkunar á afborgun fremur en að greiðast beint út við álagningu.“ omfr@mbl.is.