Finna Pálmadóttir fæddist í Snóksdal í Dalasýslu 3. ágúst 1933 og ólst þar upp. Hún lést á Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ 13. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Pálmi Jónasson, f. 19. janúar 1900, d. 11. desember 1974, og Kristín Eysteinsdóttir, f. 21. apríl 1909, d. 10. desember 1990.

Systkini Finnu eru: Kristín, f. 1930, Elín, f. 1932, d. 2019, Einar, f. 1936, d. 2008, Björn, f. 1941, Guðmundur Kristinn, f. 1944, og Jóhann Eysteinn, f. 1949.

Hinn 18. september 1954 giftist Finna Einari Tryggvasyni, f. 25. maí 1933, d. 29. nóvember 1997. Foreldrar hans voru Tryggvi Einarsson, f. 1914, d. 1989, og Björg Guðlaugsdóttir, f. 1913, d. 1978.

Börn Finnu og Einars eru: 1) Tryggvi, f. 21. október 1953, kvæntur Sæunni Andrésdóttur, þau eiga þrjá syni og fimm barnabörn. 2) Pálmi Breiðfjörð, f. 26. desember 1954, kvæntur Höllu Tómasdóttur, þau eiga fjögur börn, níu barnabörn og eitt barnabarnabarn. 3) Matthildur, f. 20. maí 1959, gift Sævari Péturssyni, þau eiga tvö börn, Matthildur átti tvö börn fyrir og Sævar átti þrjú börn fyrir. Barnabörn þeirra eru 17. 4) Ingveldur, f. 11. nóvember 1961, í sambúð með Kristni Guðmundssyni. 5) Kristinn Björn, f. 19. janúar 1963, kvæntur Eddu Halldórsdóttur, þau eiga tvö börn og fimm barnabörn. 6) Guðmundur, f. 27. september 1969, kvæntur Brynju Gestsdóttur, þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn. 7) Ómar Þór, f. 2. mars 1977, d. 2. ágúst 1979.

Útför Finnu fer fram frá Útskálakirkju í Garði í dag, 24. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.

Við viljum minnast kærrar tengdamóður okkar með þessu fallega ljóði.

Kveðja til konu

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva
og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur
að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Blessuð sé minning hennar.

Tengdadæturnar,

Brynja, Edda,
Halla og Sæunn.

Amma Finna var geislandi kona, jafnt innan sem utan. Fallega rauða hárið og brúnu augun vöktu athygli ásamt björtu brosi og innilegum hlátri. Amma var alltaf til í gleði og glens og ávallt stutt í húmorinn og sprellið. Samtöl við ömmu einkenndust af tímaleysi, það var hægt að ræða við hana um allt milli himins og jarðar. Það gerði ömmu svo dásamlega skemmtilega að vera svona opin og einlæg en hún hafði sannarlega skoðanir og gat líka verið ansi þrjósk. Amma var einkar gestrisin og öll sem litu í heimsókn, hvort sem var á Melbrautina í Garði, Birkilaut í Grímsnesinu eða Suðurgötuna í Keflavík, fengu heldur betur nægju sína af veitingum. Það liðu varla sekúndubrot þar til kotið angaði af lokkandi pönnukökuilmi en ég segi það satt að amma Finna bjó til heimsins bestu pönnsur. Og súkkulaðibitakökurnar sem hún bjó til fyrir jólin, ég finn enn bragðið þegar ég loka augunum. Amma kunni sko vel til verka þegar kom að kræsingum og hafði yndi af að dekra við sína nánustu.

Elsta dóttir mín, Þórdís Halla, var svo heppin að fá rauða hárið hennar langömmu sinnar og brúnu augun, samband þeirra var fallegt og sótti Þórdís Halla mikið í langömmu sína. Þær gátu spilað á spil langtímum saman, bakað og borðað bæði pönnsur og súkkulaðibitakökur, legið yfir myndaalbúmum á meðan amma deildi með henni sögum frá barnæskunni í Snóksdal. Þessar ljúfu minningar um elskulegu ömmu Finnu munu ylja okkur um hjartaræturnar og lifa með okkur um ókomna tíð.

Linda Björk Pálmadóttir
og fjölskylda.