Andri Þór Guðmundsson, forstjóri og einn eiganda Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri og einn eiganda Ölgerðarinnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það er ekki hægt að reikna með að virknidrykkurinn Collab slái í gegn á erlendri grundu líkt og hann hefur gert á Íslandi. Þetta segir Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar í samtali við ViðskiptaMoggann

Það er ekki hægt að reikna með að virknidrykkurinn Collab slái í gegn á erlendri grundu líkt og hann hefur gert á Íslandi.

Þetta segir Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar í samtali við ViðskiptaMoggann. Sala á virknidrykknum Collab er nú hafin í Danmörku og Finnlandi en áður hafði hann verið í tilraunasölu í Noregi. Áætlanir gera ráð fyrir að töluverðan tíma taki að festa vöruna í sessi og ná hlutdeild á mörkuðum. Nokkrar af stærstu smásölukeðjum Danmerkur hafa tekið Collab í sölu, m.a. 7-Eleven, Netto, Fötex og Bilka. Markaðsvinna stendur nú yfir hjá Ölgerðinni sem og undirbúningur vegna þriggja annarra markaða.

„Við erum að fjárfesta og þess vegna verðum við að sýna þolinmæði. Collab kom á markaðinn árið 2019 og fjórum árum seinna er salan komin yfir 10 milljónir dósa. Þetta getum við ekki leikið eftir á erlendu mörkuðunum en þó hafa viðtökurnar sem við höfum fengið farið fram úr okkar björtustu vonum. Því fylgir alltaf ákveðin áhætta að fara af stað í svona stórt verkefni, eins og að markaðssetja íslenskan drykk erlendis, en þetta er líka einstakt tækifæri til að ná árangri og við höfum aldrei upplifað aðrar eins viðtökur við nokkurri vöru sem við erum með,“ segir Andri Þór.

Í viðtalinu ræðir Andri Þór um rekstur Ölgerðarinnar, nýjan hluthafa í félaginu og margt fleira.