Þorvaldur Skúlason (1906-1984) Sveiflur, 1964 Olía á striga 200 x 146 cm
Þorvaldur Skúlason (1906-1984) Sveiflur, 1964 Olía á striga 200 x 146 cm
Þorvaldur Skúlason stundaði listnám í Ósló, París og Kaupmannahöfn á árunum 1928-1939 en settist síðan að á Íslandi. Fyrstu verk Þorvaldar voru í anda expressjónisma þar sem formbyggingin er einfölduð í myndum sem vísa gjarnan til íslenska sjávarþorpsins

Þorvaldur Skúlason stundaði listnám í Ósló, París og Kaupmannahöfn á árunum 1928-1939 en settist síðan að á Íslandi. Fyrstu verk Þorvaldar voru í anda expressjónisma þar sem formbyggingin er einfölduð í myndum sem vísa gjarnan til íslenska sjávarþorpsins. Hann dvaldi í París veturinn 1950-1951 og kynni hans þá af verkum listamannanna Albertos Magnellis og Viktors Vasarelys enduróma í myndsköpun hans sjálfs árið 1953 en þá efndi hann til einkasýningar í Reykjavík. Af því tilefni tíundaði hann í viðtali formalískan grundvöll listar sinnar og hélt því fram að abstrakt tjáningarform væri hluti af eðlilegri sögulegri þróun: „Gildi listaverka hinna gömlu meistara er ekki falið í fyrirmyndinni heldur meðferð forms og litar, myndbyggingunni. Aldarandinn olli því, að fela varð myndina bak við viðfangsefnið. Það var því eðlilegt, að myndbyggingin væri látin koma upp á yfirborðið og fyrirmyndin hyrfi í djúpið. Þetta er það, sem skeð hefur í myndlist nútímans,“ sagði hann.

Í upphafi sjötta áratugarins varð Þorvaldur einn af forvígismönnum strangflatarmálverksins á Íslandi, þar sem láréttar og lóðréttar línur voru ríkjandi, en undir lok ferilsins lagði hann megináherslu á hreyfingu og samspil línu og litar í abstraktverkum sínum. Þessi nýja hrynjandi birtist um 1960 í lokaðri hringbyggingu formanna sem jafnframt hafði í för með sér að þrátt fyrir strangt flatargildi þá losnaði um hvert form, myndrýmið varð opnara og formin fengu ríkari þenslu og flug. Þetta kemur vel fram í Sveiflum frá árinu 1964. Hér er sem fleyglaga formin séu við það að kastast út af myndfletinum. Í grunninum er hlutlaus brúnn litur sem Þorvaldur sprengir síðan með heitum, rauðum og gulum litum að hætti franska málarans Georges Braque.

Sterk afstaða sem kalla mætti rannsóknarhyggju einkenndi afstöðu Þorvaldar til myndmálsins og kemur það til að mynda vel fram í geómetrískum verkum hans frá sjötta áratug síðustu aldar. „Enginn veit hvað blái liturinn er fyrr en hann hættir að tengja hann hafinu og himninum,“ mun Þorvaldur hafa áréttað í tengslum við rannsóknir sínar á eðli lita og óhlutbundinna forma. Þessi nýi formræni skilningur sem hann þróaði í verkum sínum fékk síðan um miðjan sjöunda áratuginn, þegar hann málaði Sveiflur, nýjar áherslur og kraft vegna sterkra náttúruáhrifa sem má greina í myndum hans frá þeim tíma. Þorvaldur dvaldi þá um hríð nærri Ölfusá og margbreytilegar hreyfingar yfirborðs árinnar urðu honum mikilvæg uppspretta formrænnar og litrænnar nýsköpunar.