Varnarmál Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði fjölmiðla vestanhafs í Hvíta húsinu eftir að hann undirritaði frumvarpið um hernaðaraðstoðina í lög.
Varnarmál Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði fjölmiðla vestanhafs í Hvíta húsinu eftir að hann undirritaði frumvarpið um hernaðaraðstoðina í lög. — AFP/Jim Watson
„Þessi pakki er bókstaflega fjárfesting, ekki bara í öryggi Úkraínu, heldur einnig í öryggi Evrópu og í okkar eigin öryggi,“ sagði Joe Biden í gær eftir að hann undirritaði frumvarp um hernaðaraðstoð við Úkraínu, Ísrael og Taívan sem lög

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Þessi pakki er bókstaflega fjárfesting, ekki bara í öryggi Úkraínu, heldur einnig í öryggi Evrópu og í okkar eigin öryggi,“ sagði Joe Biden í gær eftir að hann undirritaði frumvarp um hernaðaraðstoð við Úkraínu, Ísrael og Taívan sem lög. Sagði Biden að fyrstu skotfærasendingarnar til Úkraínu myndu hefjast á ný samdægurs.

Biden þakkaði forystumönnum beggja flokka á Bandaríkjaþingi fyrir að hafa náð að koma frumvarpinu í gegn, en öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti frumvarpið seint í fyrrakvöld með 79 atkvæðum gegn 18. Þrír þingmenn demókrata greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, þar sem þeir vildu mótmæla hernaðaraðstoð til Ísraelsríkis. „Bandaríkin standa með vinum sínum, og beygja sig ekki fyrir neinum, síst af öllu Vladimír Pútín.“

Bandaríska varnarmálaráðuneytið staðfesti í gær að það myndi senda þegar í stað hernaðaraðstoð sem metin væri á einn milljarð bandaríkjadala, eða um 140 milljarða króna. Munu Bandaríkjamenn senda bæði loftvarnaflaugar og skotfæri fyrir stórskotalið, auk þess sem þeir munu senda fjölda af skriðdrekabönum og Bradley-bryndrekum til þess að hjálpa Úkraínumönnum að standa af sér komandi sumarsókn Rússa.

Verða að selja TikTok

Í frumvarpinu var einnig ákvæði um að Bandaríkjastjórn væri heimilt að gera frystar eigur rússneskra stjórnvalda upptækar og veita til Úkraínumanna í stuðning. Áætlað er að frumvarpið nái til eigna sem metnar eru á um 5-8 milljarða bandaríkjadala. Ekki er talið að Bandaríkjastjórn muni grípa til aðgerða gegn eigum Rússa, þrátt fyrir að hún hafi heimild til, nema í samstarfi við bandamenn sína í Evrópu, en þar eru eignir Rússa metnar á um 200 milljarða.

Þá er í frumvarpinu lagt til að snjallsímaforritið TikTok verði bannað nema ByteDance, kínverska fyrirtækið sem bjó forritið til, selji það til annars eiganda innan níu mánaða. Bandarísk stjórnvöld hafa löngum haft áhyggjur af forritinu, en það er sagt safna óhóflega miklu af persónuupplýsingum notenda sinna.