Emilía Svava Þorvaldsdóttir, eða Milla eins og allir kölluðu hana, fæddist í Grafarholti á Akureyri 15. október 1932. Hún lést á Nesvöllum í Reykjanesbæ 13. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Þorvaldur Björnsson trésmiður frá Illugastöðum í Skagafirði og Laufey Emilsdóttir (Petersen) húsfreyja frá Akureyri. Maki hennar var Jón Pétur Guðmundsson tollvörður, f. 24. maí 1931, d. 12. apríl 2015.

Systkini henna eru: Bjarni Garðar Skagfjörð Svavarsson, f. 10. júlí 1922. d. 4. júlí 1989. Þuríður María Þorvaldsdóttir Nyhus, f. 24. júlí 1927, d. 29. jan. 2006. Björn Ingi Þorvaldsson, f. 15. okt. 1929, d. 3. mars 2012. Árdís Gunnþóra Þorvaldsdóttir (Árdís Gunnþóra McAndrew), f. 1. jan. 1937, d. 6. apríl 2023. Þorvaldur Þorvaldsson, f. 18. mars 1945.

Börn Emilíu og Jóns Péturs eru: 1) Guðmundur Óli Jónsson, f. 23 júli 1953, kvæntur Ingibjörgu Samúelsdóttur, f. 20. desember 1958. Þau eiga þrjá syni, Samúel, Ólaf og Aron Má. Sonur Guðmundar af fyrra hjónabandi með Teresu Bradley er Jón Pétur. 2) Elín Jónsdóttir Griffin, f. 16. september 1954, gift Tommy C. Griffin, f. 28. janúar 1952. Þau eiga tvo syni, Emil Svavar og Tommy Daníel. 3) Laufey Jónsdóttir Sasaki, f. 31. júlí 1959, gift Ryan Kent Sasaki, f. 31. júlí 1957, þau eiga fjögur börn: Ryan Kent, Mandy Shige, Jón Pétur og Davíð Jósef. 4) Styrmir Geir Jónsson, f. 17. október 1968, kvæntur Ágústu Kristínu Grétarsdóttur, f. 23 nóvember 1969, þau eiga þrjú börn: Máneyju Hlín, Styrkár Blæ og Snorra Natanael.

Þá er stjúpsonur Millu, Magnús Jónsson, f. 3. mars 1953, hann er kvæntur Hrönn Þorsteinsdóttur, f. 19. september 1953, þau eiga þrjú börn: Þorstein, Vilborgu og Grétar.

Emilía fluttist frá Akureyri til Reykjavíkur þegar hún var 18 ára gömul þar sem hún fékk vinnu á Kleppi. Hún var húsfreyja til fjölda ára, sá um barnauppeldi og annaðist heimili tengdaföður síns og fjölskyldu. Hún vann síðar hjá varnarliðinu í mörg ár, síðast við skrifstofustörf hjá birgðadeild varnarliðsins.

Útför Emilíu fór fram hinn 21. mars 2024 frá Keflavíkurkirkju.

Emilía fluttist frá Akureyri til Reykjavíkur þegar hún var 18 ára gömul þar sem hún fékk vinnu á Kleppi ásamt vinkonu sinni Rósu. Ekki leið á löngu þar til leiðir hennar og pabba lágu saman, en þá starfaði pabbi sem leigubílstjóri. Rósa hafði kallað til leigubíl til að kaupa dollara þar sem hún hafði ákveðið að flytja til Kanada og þurfti því gjaldeyri sem leigubílstjórar suður í Keflavík höfðu undir höndum í þá daga eftir viðskipti við kanann.

Upp úr því flytur mamma með til pabba til í Keflavíkur, sem í þá daga var allt annað en menningarbærinn Akureyri, lítið fámennt fiskiþorp sem var þó óðum að stækka. Þegar hún sá bæinn fyrst sagði hún við pabba „býrðu hér Jón!?“ og fannst henni ekki mikið til koma.

Þau giftust 6. mars 1953 og gerði hún þeim fallegt heimili á Hafnargötu 48, tengdafaðir hennar bjó hjá þeim þar til hann flytur í sparisjóðshúsið þar sem hann var sparisjóðsstjóri í Keflavík. Eftir að móðir hennar deyr flytja faðir hennar og yngsti bróðir til hennar í Keflavík.

Mamma var alla tíð mikið gefin fyrir stórfjölskylduna og hélt oft boð í Keflavík þar sem öllum var boðið við hin og þessi tækifæri í kaffi og kökur eftir því hvert tilefnið var.

Þau eignuðust saman fjögur börn, sonur pabba af fyrra sambandi var tíður gestur á heimilinu og talaði hún alltaf um að hún ætti fimm börn. Árið 1966 verða tímamót í lífi þeirra hjóna þegar pabbi verður fyrir alvarlegu bílslysi á Keflavíkurveginum þar sem hann missir hægri fótinn fyrir ofan hné, þessi atburður tók mikið á fjölskylduna og setti mark sitt á líf hennar.

Mamma og pabbi ferðuðust mikið, þau fóru t.d. til Kanada og Bandaríkjanna til að heimsækja Rósu vinkonu mömmu og Dísu systur hennar. Þau fóru í draumaferðina með góðum vinum til Ítalíu og heimsóttu þar Feneyjar og Pompei, sem henni fannst mikið til koma og talaði oft um. Mamma var tíður gestur í Bandaríkjunum þar sem þrjú af börnum hennar hafa búið þar í lengri og skemmri tíma og á þar fjölda af barnabörnum og barnabarnabörnum.

Mamma ræktaði púðluhunda, og hófst ævintýrið þegar þau kom frá Kaliforníu í Bandaríkjunum 1972 þar sem þau höfðu fengið svarta tík sem nefnd var Kallí af því tilefni. Það má kannski segja þetta núna, en hún kom inn í landið í lítilli tösku, segjum svo ekki meir um það. Þessi tík varð ættmóðir margra púðluhunda hér á landi. Eftir eitt gotið þar sem undan komu margir hvolpar er mér er minnisstætt þegar pabbi setti teygju um skottið á litlu dúllunum og klippti svo skottið niður í smá stubb eins og tíðkaðist þá. Mamma hélt sig að mestu við að halda púðluhunda og urðu þeir nokkrir, síðast hún Sara sem var með þeim mömmu fram yfir að pabbi lést 2015. Þegar hún fór lauk rúmlega 40 ára sögu púðluhalds mömmu.

Þó að alltaf bjáti eitthvað á í lífsins ólgusjó átti mamma gott og langt líf, og hún kvaddi þennan heim í faðmi fjölskyldunnar. Milla skilur eftir sig 33 afkomendur hér á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Styrmir Geir,
Guðmundur Óli,
Elín og Laufey.