Í Höfða Ásta, Hildur og Rán ánægðar með verðlaunin. Einar borgarstjóri og Sunna Dís Jónsdóttir og Anna C. Leplar úr dómnefndinni fyrir aftan þær.
Í Höfða Ásta, Hildur og Rán ánægðar með verðlaunin. Einar borgarstjóri og Sunna Dís Jónsdóttir og Anna C. Leplar úr dómnefndinni fyrir aftan þær. — Morgunblaðið/Eggert
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2024 voru veitt í Höfða í gær, síðasta vetrardag. Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur afhenti verðlaunin sem veitt eru í þremur flokkum. Hildur Knútsdóttir hlaut verðlaunin í flokki frumsaminna verka fyrir …

Ragnheiður Birgisdóttir

Silja Björk Huldudóttir

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2024 voru veitt í Höfða í gær, síðasta vetrardag. Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur afhenti verðlaunin sem veitt eru í þremur flokkum. Hildur Knútsdóttir hlaut verðlaunin í flokki frumsaminna verka fyrir Hrím sem JPV gefur út, Rán Flygenring í flokki myndlýsinga fyrir Álfa sem Angústúra gefur út og Ásta Halldóra Ólafsdóttir í flokki þýðinga fyrir Tannburstunardaginn mikla sem Kvistur gefur út.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmiðið með þeim að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur og hvetja þá til bóklesturs. Verðlaunin eru veitt rithöfundum, myndhöfundum og þýðendum barnabóka fyrir metnaðarfullar ritsmíðar og þýðingar fyrir börn. Í dómnefnd voru Sunna Dís Jensdóttir formaður, Anna C. Leplar og Arngrímur Vídalín.

Óbeint framhald í vinnslu

„Ég hélt að Hrím væri lélegasta bók sem ég hefði skrifað,“ segir Hildur Knútsdóttir þegar hún er spurð hvort viðurkenningin hafi komið henni á óvart. Þegar blaðamaður hváir útskýrir Hildur að hún sé plottdrifinn höfundur. „Venjulega fæ ég hugmyndina að plottinu fyrst, en í Hrími kom heimur bókarinnar fyrst til mín. Þegar ég sendi ritstjóranum mínum fyrsta uppkastið að bókinni gekk plottið ekki alveg upp,“ segir Hildur og tekur fram að Hrím hafi fyrir vikið orðið sú bók sem hún hefur oftast endurskrifað. „Mér fannst ég því renna mjög blint í sjóinn þegar ég sendi hana frá mér og hafði, þó skömm sé frá að segja, litla trú á bókinni.“

Það hlýtur þá að vera þeim mun ánægjulegra að hljóta þessa viðurkenningu fyrir bókina? Svo ekki sé minnst á að hún var nýverið tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd.

„Já. Þetta er kannski líka ágætis dæmi um það að maður er ekki alltaf dómbær á eigin verk,“ segir Hildur og bætir við að sér hafi ekki síður þótt vænt um hversu vel Hrím gekk í síðasta jólabókaflóði. „Viðtökurnar voru svo góðar að ég fór fljótlega að leiða hugann að því að skrifa óbeint framhald, þó það hafi alls ekki staðið til upphaflega. Framhaldsbókin gerist við Breiðafjörð og ég er þessa dagana að skoða hvers konar skrímsli þrífast þar,“ segir Hildur og tekur fram að framhaldið sé væntanlegt haustið 2025, en í millitíðinni sé von á einni hrollvekju fyrir fullorðna sem og annarri unglingabók fyrir næstu jól. Þess má geta að þetta er í annað sinn sem Hildur hlýtur verðlaunin, en hún hlaut þau 2019 fyrir skáldsöguna Ljónið. „Sem mér fannst mjög skemmtilegt, því Ljónið er svo mikil Reykjavíkursaga.“

Í umsögn dómnefndar um Hrím segir að Hildur sé „ötull og metnaðarfullur höfundur furðu- og ævintýrasagna fyrir ungmenni“ sem fari „oft ótroðnar slóðir í verkum sínum. Í bók sinni Hrím skapar Hildur nýjan heim sem er gerólíkur okkar, en er engu að síður okkar kunnuglega Þingeyjarsýsla. En veruleikinn er allt annar. Á þessu Íslandi er nokkurs konar ættbálkasamfélag eða hirðingjasamfélag sem skiptist í skara eftir búsetu, líf fólksins er erfitt og þrungið hættu við hvert fótmál. Dýrin eru mun stærri, voldugri, hættulegri […] Hrím er öðruvísi bók, meitluð, hvarvetna vandað til verka, spennandi bók og ber með sér fyrirheit um heilan bókaflokk um lífsbaráttu skaranna og vægðarlaus náttúruöflin.“

Viðurkenning fyrir álfana

„Þetta kom mjög á óvart og er æðislega gaman,“ segir Rán Flygenring. „Fyrst var ég svo glöð fyrir hönd álfanna. Það var svo gaman að vinna þessa bók og gaman að vinna hana með Hjöra [Hjörleifi Hjartarsyni]. Það var mjög gaman að fá að kynnast þessu umfjöllunarefni sem við höfum svolítið afgreitt sem krúttlega hjátrú fyrir túrista og fá að kynna það. Þessi viðurkenning er svolítið fyrir álfana.

Svo var gaman að fá viðurkenningu þegar maður er að prófa eitthvað nýtt. Huldublekið í bókinni var áskorun, bæði að finna hvernig væri hægt að gera það og hvernig ætti að notað það þannig að það þjónaði álfunum. Þess vegna er rosa gaman að uppskera og sjá að það hafi skilað sér. Það er hvetjandi.“ Rán hefur fengið verðlaunin þrisvar áður, fyrir Fugla 2018, Söguna um Skarphéðin Dungal 2019 og Vigdísi 2020.

„Almennt þá er ekki hægt að keppa í listum. En svona verðlaun eru samt mikilvæg til þess að vekja athygli á því sem er vel gert og til þess að lyfta barnabókum og ekki síst myndlýsingum því þær þjóna svo miklu hlutverki sem sagnamiðill í dag. Ég óska öðrum verðlaunahöfum og tilnefndum til hamingju. Svo langar mig að hvetja fólk til að lesa barnabækur því barnabækur eru fjölskyldubækur. Við erum öll börn.“

Í umsögn dómnefndar um Álfa segir að myndmál Ránar í bókinni sé „margslungið en um leið einfalt, fyndið og framsett með ýmiss konar hætti, til dæmis í formi myndasagna og dagblaðagreina. Þær endurspegla ólíkar sögur verksins og bjóða upp á óendanlega fjölbreytni fyrir lesendur. Notkun Ránar á vatnslitum, lifandi línum og takmarkaðri, en úthugsaðri, litapallettu leiðir lesandann leikandi í gegnum bókina. Myndlýsingarnar gæða sögurnar lífi og stækka þær, gjarnan með myndum sem eru hliðstæðar textanum án þess þó að túlka hann beint. Kímnigáfa Ránar og næmni er ávallt til staðar og bæta við verkið í heild. Hið sama má segja um hina snjöllu notkun á nánast gegnsæju lagi af teikningum sem svífa í gegnum bókina og afhjúpa gjarnan þriðju hlið frásagnarinnar.“

Kom ánægjulega á óvart

„Þetta kom mjög á óvart, ánægjulega á óvart,“ segir þýðandinn Ásta Halldóra Ólafsdóttir. „Kvistur bókaútgáfa fékk þrjár tilnefningar. Ég lofa að ég þekki engan í dómnefndinni. Við erum bara að stíga okkar fyrstu skref á þessu sviði svo þetta segir okkur að það er eitthvað sem við erum að gera rétt,“ segir Ásta, en stutt er síðan hún stofnaði bókaútgáfuna. „Kvistur er bara skrifborð í blokk í Grafarvogi. Þetta er algjört hugsjónafyrirtæki.“

Um Tannburstunardaginn mikla segir Ásta: „Bókin kemur frá Þýskalandi. Höfundurinn var kannski pínulítið eins og Kvistur, að stíga sín fyrstu skref og er ekkert menntaður í þessum geira. Fyrst og fremst voru það myndirnar sem heilluðu og þess vegna varð hún fyrir valinu til útgáfu.“ Tvær bækur um broddgöltinn Boga Pétur eru komnar út og sú þriðja er á leiðinni til landsins.

„Þetta eru einu þýðingarverðlaunin í flokki barnabóka en stór hluti barnabókamarkaðarins er þýðingar svo það er gott að það séu einhver verðlaun sem eru tileinkuð þeim. Mér fannst ég vera sigurvegari bara við það að fá þrjár tilnefningar,“ segir Ásta og óskar að lokum hinum verðlaunahöfunum til hamingju.

Í umsögn dómnefndar um Tannburstunardaginn mikla eftir Sophie Schoenwald sem Günther Jakobs myndlýsti segir að um sé að ræða einstaklega líflega og fjöruga „frásögn sem segir frá dýragarði þar sem hvorki sést til dýra né gesta við upphaf sögunnar. Forstjórinn Alfreð kemst að því að vandamálið er framtaksleysi dýranna við tannburstun og fær broddgöltinn Boga Pétur með sér í að leysa málið. Úr verður skemmtileg, fyndin en líka svolítið hættuleg atburðarás sem þýðandanum Ástu Halldóru […] tekst að koma vel til skila. Textinn er léttur og leikandi og aðfarir Boga Péturs kalla oftar en ekki fram bros á vörum lesenda.“