Sterk „Frásögnin er eins og seigfljótandi flaumur sem styrkist og eflist þegar á líður og ekkert getur stöðvað.“
Sterk „Frásögnin er eins og seigfljótandi flaumur sem styrkist og eflist þegar á líður og ekkert getur stöðvað.“ — Ljósmynd/Mark Pringle
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Paradís ★★★★★ Eftir Abdulrazak Gurnah. Helga Soffía Einarsdóttir þýddi. Angústúra, 2024. Kilja, 333 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Fyrir þremur árum hreppti bresk-tansaníski rithöfundurinn Abdulrazak Gurnah Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir, eins og segir í tilkynningu Sænsku akademíunnar, óvægna en samúðarfulla umfjöllun um áhrif nýlendustefnu og örlög flóttamanna í dýpinu sem er á milli menningarheima og heimsálfa. Nóbellinn voru fyrstu veigamiklu verðlaunin sem féllu Gurnah í skaut en hann hafði engu að síður lengi átt sér sinn trausta aðdáendahóp, ekki síst á Bretlandseyjum en þar settist hann að 18 ára gamall eftir að hafa flúið óöld í heimalandinu Tansaníu. Og það er mikill fengur að því að fá loks eina af lykilsögum Gurnah afar vel þýdda á íslensku en Paradís var fjórða skáldverk höfundarins og kom fyrst á prent árið 1994.

Svahílí er móðurmál Abdulrazaks Gurnah – hann ólst upp á eynni Zanzibar, móðir hans var frá meginlandinu en faðirinn af jemenskum ættum. Í æsku kynntist hann engum bókmenntum á því máli og hefur sagt að eðlilegt hafi verið fyrir sig að finna skrifunum farveg á ensku, þegar hann tók að lifa og hrærast í ensku málumhverfi. Hann átti eftir að gera bókmenntakennslu í breskum háskóla að ævistarfi, samhliða skrifunum. Gurnah ólst upp í fjölþjóðlegu umhverfi þar sem arabíska og persneska voru líka áberandi og þeir menningarstraumar lita sumar sagna hans, ekki síst Paradís. Í umsögn Sænsku akademíunnar um ástæður þess að hann hreppti Nóbelsverðlaunin, var einnig sagt að mikilvægt grunnþema í skrifum hans væri staða flóttamanna og áhrifin sem það að þurfa að flýja heimkynni, fjölskyldu og menningu hefur á fólk. Í sumum skáldsagna sinna hefur Gurnah með misaugljósum hætti fjallað um eigin reynslu hvað það varðar en í Paradís er það einnig viðfangsefni, þótt með öðrum hætti sé. Í sögunni er fjallað um mikla umbrotatíma í ríkjunum á austurströnd Afríku á fyrri hluta tuttugustu aldar, þar sem evrópskir nýlenduherrar brutu löndin undir sig, ásældust auðlindir þeirra og mótuðu um leið stjórnarfar og menningu að sínum siðum, með ofbeldisfullum hætti.

Þýðandinn Helga Soffía Einarsdóttir skrifar greinargóðan og upplýsandi eftirmála og bendir á að ekki sé bara sögð hér þroskasaga ungs drengs sem „er hrifsaður burt frá heimkynnum sínum heldur einnig frá veröld á barmi mikilla breytinga“ (319). Gurnah beini hér sjónum að þeim fjölbreytta og fjölmenningarlega heimi sem þreifst í Tansaníu fyrir daga evrópskrar nýlendustjórnar. Ekki þó þannig að söguheiminum sé lýst sem einhverri paradís, enda vitnar þýðandinn í höfundinn sem segist hafa óþol fyrir einföldunum. Þess vegna séu persónur hans „mennskar og margslungnar.“

Gurnah er enginn framúrstefnuhöfundur hvað stíl og form varðar enda er það hin epíska enska bókmenntahefð sem hefur haft mest áhrif á framúrskarandi skrif hans. Paradís er afar vel mótuð saga, og frásögnin er eins og seigfljótandi flaumur sem styrkist og eflist þegar á líður og ekkert getur stöðvað og persónurnar fá ekki flúið örlög sín, fremur en að breytingarnar sem eru að verða á gamalgrónum heiminum sem lýst er verði stöðvaðar.

Þetta er þroskasaga Yusufs sem er á tólfta ári þegar frásögnin hefst en þá er hann skyndilega tekinn frá heimkynnum sínum úti á landi af frændanum Aziz, vel stæðum kaupsýslumanni, sem býr við sjávarsíðuna og drengurinn á framvegis að vinna hjá. Faðirinn skuldaði frændanum fé og þarf drengurinn nú að vinna upp í skuldina. Aziz er múslimi og hverfist fyrsti hluti sögunnar um það hvernig Yusuf lærir á heim kaupmannsins, þar sem dularfull eiginkona er falin inni á heimilinu og er hann vikapiltur í versluninni sem stýrt er af nokkuð eldri manni sem einnig vinnur upp í skuld ættingja. Aziz frændi leggur reglulega upp í háskalega og fjölmenna leiðangra inn í land að eiga viðskipti við dularfullar og grimmar þjóðirnar sem þar búa og dreymir Yusuf um að slást með í slíka för. Áður en af því verður þarf hann þó að vinna hjá fólki sem býr hálfa vegu inni í landi hinna villtu og þar kynnist ungi maðurinn fleiri ólíkum hugmyndum um grimmt eðli manna, og svo lendir hann líka í því, sem einskonar táknmynd hreinleika í spilltum og sjúkum heimi, að verða viðfang drauma sjúkrar eiginkonu Aziz frænda um lækningu við hræðilegum kvillum. Paradís er hlaðin vísunum í fræga skáldsögu Josephs Conrad, Heart of Darkness, þar sem aðalpersónan er send í mannraunir inn í ósiðleglegan og djöfullegan myrkvið, sögu sem margir hafa vísað til, eins og leikstjórinn Coppola í kvikmyndinni Apocalypse Now. Yusuf fær nefnilega að lokum að fylgja skrautlegum flokki Aziz inn í land, í sannkallaðri þrekraun inn í heim viðbjóðslegra skorkvikinda, trúleysingja, morðingja og svikara. En yfir átökum ættbálka, trúarbragða og hefða ríkir svo skyndilega nýtt vald erlendra herra sem vilja, að mati heimamanna, kremja allt það gamla og spennan er mikil, brýst út með margvíslegum hætti og loks þarf Yusuf að ákveða hverjum hann vill fylgja.

Eins og fyrr segir hefur Gurnah óþol fyrir einföldunum og því er dregin hér upp mynd af margslungnum heimi ólíkra siða, tungumála og menningarstrauma sem mætast og Yusuf fær að kynnast. Lýsingarnar á umhverfinu eru iðulega margbrotnar og heillandi, og persónur eru dregnar skýrum dráttum en um leið leyna þær allar á sér. Þær eiga sér sögur, sumir hafa lifað í þrældómi alla tíð, aðrir verið yfirgefnir af foreldrum eða verið einangraðir úr samfélagi manna. Lestir brjótast fram og fólk níðist á öðrum, og lostinn kraumar undir niðri, svo Yusuf þarf sífellt að vera á varðbergi gagnvart jafnvel þeim sem hann telur standa sér næst. Og í raun getur hann ekki annað en treyst á sjálfan sig einan á miklum umbrotatímum sögunnar.

Þýðing Helgu Soffíu er litrík í anda frumtextans og flæðir lipurlega. Eins og hún útskýrir í eftirmála kýs hún að halda þeim stílbrigðum Gurnah að krydda textann með ýmsum orðum sem töluð eru í Tansaníu, svo sem arabísku, hindí og svahílí en orðalisti er líka aftast svo lesendur geta áttað sig á því við hvað er átt.

Aldrei verður ofsagt hversu mikilvægt það er íslenskunni að lykilverk bókmenntanna séu þýdd á íslensku, til að mynda verk eftir Nóbelsverðlaunahafa eins og þetta. Ástæða er því til að hrósa forlaginu Angústúru enn og aftur fyrir einstaklega vel lukkaða þýðingaröðina sem Paradís er nú hluti af, í smekklegri hönnun Snæfríðar Þorsteins.