Byggingarlóðin Byggt verður yfir bílastæðið í forgrunni myndarinnar en það er við hlið Frímúrarareglunnar.
Byggingarlóðin Byggt verður yfir bílastæðið í forgrunni myndarinnar en það er við hlið Frímúrarareglunnar. — Morgunblaðið/Hari
Jens Sandholt segir áformað að taka nýtt Hilton-hótel í Bríetartúni í notkun sumarið 2026. Jens keypti lóðina, Bríetartún 5, af Frímúrarareglunni í gegnum félag sitt Eignalausnir. Á lóðinni er nú bílastæði sem meðal annars reglubræður hafa notað þegar þeir sækja samkomur

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Jens Sandholt segir áformað að taka nýtt Hilton-hótel í Bríetartúni í notkun sumarið 2026.

Jens keypti lóðina, Bríetartún 5, af Frímúrarareglunni í gegnum félag sitt Eignalausnir. Á lóðinni er nú bílastæði sem meðal annars reglubræður hafa notað þegar þeir sækja samkomur.

Jens segir skipulagið í vinnslu og að stefnt sé að því að hefja framkvæmdir fyrir áramót. Félagið Bohemian hotels ehf. hefur verið stofnað utan um rekstur hótelsins. Jens á helminginn í því félagi, í gegnum móðurfélagið Luxor, en Magnea Þórey Hjálmarsdóttir og Þorsteinn Örn Guðmundsson eiga hvort um sig fjórðungshlut í gegnum félag sitt, Concordia ehf.

Bohemian hotels hefur jafnframt gert sérleyfissamning við Hilton-keðjuna vegna 70 herbergja hótels á Akureyri. Hótelið á Akureyri mun heita Skáld hótel og verða rekið undir merkjum Curio Collection-keðjunnar hjá Hilton. Félag í eigu Jens mun byggja og eiga hótelið á Akureyri. Jens breytti á sínum tíma stórhýsi við Mýrargötu í Marina-hótelið sem er eitt af Icelandair-hótelunum. Magnea Þórey er þekkt úr hótelgeiranum en hún var framkvæmdastjóri Icelandair-hótelanna.

Fyrst kynnt árið 2018

Verkefnið í Bríetartúni á sér nokkurn aðdraganda. Þannig var sagt frá því í Morgunblaðinu í desember 2018 að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hefðu auglýst til kynningar breytt deiliskipulag vegna Bríetartúns 3-5. Af því tilefni var rætt við Eirík Finn Greipsson erindreka Frímúrarareglunnar, sem sagði hugmyndir um að hafa atvinnuhúsnæði í byggingunni og að hótelrekstur kæmi til greina. Það er nú að verða að veruleika en samkvæmt fyrra skipulagi var miðað við að 111 herbergi yrðu á hótelinu.

Eiríkur Finnur segir aðspurður að aldrei hafi staðið til að Frímúrarareglan myndi reisa hótel. Hugmyndir hafi verið um að stækka húsakynnin í Bríetartúni en niðurstaðan orðið sú að byggja heldur upp aðstöðu annars staðar. Reglan sé nú með húsnæði á þrettán stöðum víðsvegar um landið.

Munu deila bílakjallara

Sem áður segir hafa reglubræður notað bílastæðið á lóðinni þar sem hótelið verður reist.

Jens segir aðspurður að grafinn verði bílakjallari og að rekstrarfélag verði stofnað um rekstur kjallarans. Eignalausnir og Frímúrarareglan muni eiga bílakjallarann saman. Fyrir vikið hafi reglubræður aðgang að stæðunum. Sami fjöldi bílastæða verði og nú eða alls 66 stæði. Frímúrarareglan hafi leigt stæðin á daginn og haft forgang að þeim á kvöldin. Því megi segja að sama fyrirkomulag verði viðhaft í bílakjallaranum.

Byggingarfélag í eigu Jens, J.E. Skjanni byggingaverktakar, mun byggja hótelið í Bríetartúni.

Fyrri hugmyndir gerðu ráð fyrir að hótelið yrði allt að fimm hæðir og að efsta hæðin yrði að hluta inndregin.

Jens segir aðspurður enn gert ráð fyrir þakgarði á hótelinu og að þar verði hægt að skipuleggja uppákomur af ýmsu tagi.

„Við ætlum að opna hótel á Akureyri á næsta ári sem verður rekið undir merkjum Curio Collection hjá Hilton. Við höfum sett okkur það markmið að hótelið í Bríetartúni verði í svipuðum gæðum. Við erum búin að gera samning við Hilton [um rekstur hótels í Bríetartúni] en ekki búin að velja vörumerkið,“ segir Jens.

Hótelið í Bríetartúni verður steinsnar frá Hlemmtorgi en áformað er að loka fyrir bílaumferð við Hlemm og byggja þar upp torg fyrir borgarbúa. Áformað er að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu flytji sig um set en það gæti skapað möguleika í framtíðinni á þróun lóðar gegnt Frímúrarahúsinu sem er nú nýtt sem bílastæði. Óvíst er um tímasetningar í þessu efni.

Höf.: Baldur Arnarson