Leikfimi Börn á fleygiferð í skólaleikfimi. Myndin er að vísu tekin árið 2010 en ekki 1920.
Leikfimi Börn á fleygiferð í skólaleikfimi. Myndin er að vísu tekin árið 2010 en ekki 1920. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1920 „Það nægir ekki, að börnin fái að vita deili á Napoleon eða Ara fróða.“ Morgunblaðið.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

„Íþróttafrömuðum hér í bæ hefir lengi verið það mikið áhugamál, að baðtæki væru sett upp í Barnaskólanum, svo að börnum gæti gefist kostur á að lauga sig í hvert skifti sem þau hefðu Ieikfimisæfingar. En undirtektirnar hafa jafnan verið daufar og málið verið dregið á langinn ár frá ári. Það er í rauninni óþarft að færa rök að því, að böð séu nauðsynleg börnunum í skólanum, ekki síður en öðrum. Börnunum er einmitt fremur þörf á þessu en flestum öðrum.“

Með þessum orðum hófst nafnlaus grein, og því á ábyrgð ritstjóra, í Morgunblaðinu vorið 1920 og augljóst að þeim er hélt á penna var mikið niðri fyrir.

Bent var á, að börn hefðu síður en fullorðnir tækifæri til að baða sig, og því meiri ástæða til, að þeim væri séð fyrir þessu. Þá væri það skilyrði fyrir heilsusamlegri meðferð líkamans síðar meir, að börnin vendust á unga aldri við allan þrifnað og að hægara væri að kenna unglingunum það í uppvextinum en fullorðnum.

„Það stríðir á móti öllum heilbrigðisreglum, að láta börn svitna við leikfimisæfingar án þess að gefa þeim tækifæri til að þvo af sér svitann á eftir, og er vitanlega mjög óholt, svo óholt að það er mikið spursmál hvort ógagnið af því vegur ekki á móti því gagni, sem börnunum er ætlað að hafa af leikfiminni.“

Vikið að almennri heilbrigði

Því næst var vikið að almennri heilbrigði og mikilvægi hennar fyrir samfélagið. „Allir eru samdóma um, að framtíðin sé undir heilbrigði og þroska æskulýðsins komin. Að það þurfi heilbrigða og hrausta kynslóð til þess að geta orðið að gagni, þegar til hennar kasta kemur. Ennfremur eru allir samdóma um, að eitt af mestu vandamálum þessa bæjar sé barnauppeldismálið. Bærinn er óhollur og vantar flest til þess, að geta verið uppvaxandi börnum hollur dvalarstaður. Og ráðin til bóta þessum vanda þykja ekki auðfundin og eru það sjálfsagt ekki heldur.“

Aumt hefur það verið, ástandið.

Aftur var svo vikið að nauðsyn þess að börnin fengju að baða sig að spriklinu loknu. „Hér er spor í rétta átt, sem hægt er að stíga. Kostnaður við að koma upp baðtækjum í Barnaskólanum getur aldrei orðið nema hverfandi á móti gagninu, sem af verður. Það er deginum ljósara, að það gagn er margra peninga virði. Börnin, sem venjast á að fá bað í Barnaskólanum, geta ekki án þess verið þegar þau eru farin þaðan. En ef ekkert er hirt um að láta þau fara skynsamlega með heilbrigði sína á skólaárunum, er vart við því að búast, að þau taki upp þá siði, þegar þau eru fullorðin.“

Það er svo sem gömul saga og ný.

Greinarhöfundur benti á, að það væri fleira en skrift, reikningur, saga og tungumál, sem börnin þyrftu að læra. Líka þyrfti að mennta þau á annan hátt. Þau þyrftu að fá líkamsmenntun, og á þessum síðustu tímum, þegar meira bryddaði á líkamlegu volæði fólksins en nokkurntíma áður, væri ekki hvað síst ástæða til að gefa þeirri menntun gaum.

Um líkamsmenntun

„Það nægir ekki, að börnin fái að vita deili á Napoleon eða Ara fróða, ef hinu er haldið leyndu fyrir þeim, hvernig þau eigi að lifa svo, að þau fái haldið heilsu sinni óskertri. Það er gott og blessað að fæða vel sálina, en hún verður eins og sáðkorn í grýttri jörð ef líkamanum er enginn sómi sýndur.“

Hér hefur okkar maður verið orðinn vel innblásinn.

Áfram hélt hann á sömu nótum: „Líkamsmentuninni verður því að sýna sóma. Og það væri fyrirlitning við alla líkamsmentun, að láta það viðgangast lengur en orðið er, að börnin hérna í Barnaskólanum sviti sig við leikfimisæfingar og séu látin fara í fötin sín að þeim loknum án þess að þeim hafi verið gefinn kostur á að skola af sér svitann.“

Loks kom fram að Íþróttasamband Íslands hefði haft mál þetta með höndum á síðasta aðalfundi sínum, nokkrum dögum fyrr. Ákvað fundurinn að gera allt sem í hans valdi stæði til þess, að fá bæjarstjórn til að kippa þessu í lag hið bráðasta. „Er vonandi að þessu verði hrundið í lag fyrir haustið. Lengur má það ekki bíða.“

Eitt og annað í Dagbókinni

Tjónið eigi
með tölum

talið í bráð

Þennan ágæta vordag var sitthvað annað að frétta og undir liðnum Dagbók voru nokkrar styttri fréttir.

Þar kom meðal annars fram að kolaleysið væri að verða mjög tilfinnanlegt fyrir skipin. Að sögn voru sum botnvörpungafélögin með öllu kolalaus svo eigi var annað fyrirsjáanlegt en að skipin yrðu að hætta fiskveiðum. „En af því getur leitt það tjón sem eigi verður með tölum talið í bráð.“

Uppbyggilegri var sú frétt að hingað til lands voru væntanlegir nokkrir enskir laxveiðimenn þetta sumar. Meðal þeirra hinn gamli Íslandsvinur Mr. Campbell, sá sem um margra ára skeið dvaldist á hverju sumri við Langá í Borgarfirði. En stríðsárin gat gamli maðurinn því miður ekki komið hingað, sagði í fréttinni.

Leselskir fengu líka sitthvað fyrir sinn snúð í blaði dagsins. „Ný neðanmálssaga hefst í blaðinu í dag. Fá lesendur þar tækjfæri til að lesa enn eina sögu eftir hinn fræga rithöfund Övre Richter Frich, en enginn rithöfundur núlifandi á Norðurlöndum þykir snjallari honum að segja frá. Vér viljum ráða öllum lesendum til þess að fylgjast vel með frá byrjun.“

Þetta stendur allt heima, þegar maður flettir því upp. Richter Frich var einn vinsælasti glæpasagnahöfundur Norðurlanda á millistríðsárunum og seldi bækur sínar í að minnsta kosti tveimur milljónum eintaka. Hann fæddist 1872 og lést 1945.

Svo var það þessi áhugaverða frétt: „Ísland fór frá Færeyjum í gær og mun því vera væntanlegt hingað á laugardaginn.“ Við gefum okkur að Ísland hafi verið skip.

Fleiri en Ísland voru á faraldsfæti. Pétur Thoroddsen héraðslæknir frá Norðfirði, sem dvalist hafði í Reykjavík um veturinn og gegnt læknisstörfum fyrir föður sinn um hríð, hafði verið settur héraðslæknir í Borgarfjarðarhéraði.

Lokafréttin var hins vegar sorgleg: „Í fyrradag andaðist hér í bænum Christiane Möller, dóttir Möllers lyfsala sem var hér í Reykjavík, en systir Möllers lyfsala sem var í Stykkishólmi. Hún var í hárri elli, 82 ára gömul. Fluttist frá Stykkishólmi hingað fyrir nokkrum árum. Christiane Möller var framúrskarandi vel liðin af öllum sem henni kynntust.“